The Kite Runner eftir Khaled Hosseini Athugið að þessi grein inniheldur enga spoilera um söguþráð bókarinnar.

The Kite Runner er fyrsta skáldverk Khaled Hosseini en rithöfundur þessi hefur aðeins gefið út tvö ritverk, hvor tveggja skáldverk. Hosseini er fæddur í Afghanistan árið 1965 þar sem báðar sögurnar eiga sér stað en hann býr nú í Bandaríkjum Norður-Ameríku og starfar þar sem rithöfundur auk þess sem hann er læknir að mennt. Bókin, sem grein þessi fjallar um, er til í íslenskri þýðingu Önnu Maríu Hilmarsdóttur og er á okkar ylhýra ástkæra titluð Flugdrekahlauparinn. Einnig kom út kvikmynd eftir bókinni árið 2007 og hefur hún hlotið góða dóma, m.a. 7,8/10 í einkunn frá hinum almáttuga guði IMDB.com.
Flugdrekahlauparinn var ein þeirra bóka sem ég hafði einsett mér að lesa í sumar og lauk ég nýlega við hana. Líkt og áður kom fram gerist sagan í Afghanistan, nánar tiltekið í höfuðborginni Kabul eða heimaborg höfundar bókarinnar. Sögusvið flyst þá yfir til Ameríku þegar aðalpersóna bókarinnar, Amir, flyst þangað sem flóttamaður undan stríði sem er nýhafið í heimalandi hans. Bókin segir frá lífi Amirs, allt frá fæðingu og fram á efri ár. Í æsku bjó hann í glæsilegu húsi í höfuðborg Afghanistan ásamt föður sínum en móðir hans hafði látist við fæðingu sonar síns. Daglegu lífi drengsins væri líklega best lýst sem eilífri baráttu fyrir viðurkenningu föður síns og umhyggju en Amir er langt frá því að passa inn í ímynd föður síns af draumasyni. Á meðan föður hans er oft líkt við stórt og grimmt bjarndýr er heigulsháttur einkennandi fyrir persónu Amirs og nýtur hann sín t.a.m. mun betur við lestur góðrar bókar en við fótboltaleik með hinum strákunum í hverfinu.
Faðir hans, sem kallaður er Baba í bókinni, var voldugur maður og átti hann þræl á heimili sínu og þræll sá átti son sem var jafnaldri Amirs. Sá drengur hét Hassan og virðist hann í fyrstu stundum vera í meira uppáhaldi Baba þar sem hann er í rauninni andstæða Amirs á margan hátt en þó einstaklega hjartagóður drengur og gerir hann allt fyrir húsbónda sinn. Í fleiri fleiri ár frá fæðingu eyða drengirnir tveir dögum sínum saman og eru þeir á margan hátt mjög góðir vinir en þrátt fyrir það eru mjög skýr mörk á milli stétta þeirra. Amir er sonur efnaðs kaupmanns en Hassan aðeins sonur þræls og þar af leiðandi þræll sjálfur. Munurinn á þrælastéttinni í landinu og stétt almennings og auðmanna er trúarlegs eðlis en grundvallar munurinn liggur þó aðeins í mismunandi afbrigðum Islamstrúar. Þessi munur kemur í veg fyrir að Hassan og Amir geti réttilega talist alvöru vinir og hamlar þetta þeim því í vissum aðstæðum. Einn góðan veðurdag þegar þeir eru 12 ára verður það svo að hræðilegt atvik á sér stað og frá því verður ekki aftur snúið. Amir bregst ekki réttilega við aðstæðum og þarf að bera með sér þá eftirsjá og rangar ákvarðanir það sem eftir er.
Líkt og áður kom fram þarf Amir síðar að flytja til Ameríku vegna stríðsins sem geisar í Afghanistan en hann mun snúa þangað síðar svo hann geti loks raunverulega snúið baki við fortíðinni – og jafnvel sætt sig við örlög sín.
Ég verð að segja að fyrir mitt leyti kom bókin mér á óvart. Ég hafi heyrt marga lofsöngva og eins og oft verður með of góða krítík þá á hún það til að valda manni nokkrum vonbrigðum með bókina/myndina eða í raun hvað sem er þegar maður upplifir það svo sjálfur. Ég varð hins vegar langt í frá að verða fyrir vonbrigðum með þessa bók – þvert á móti var ég alveg heilluð af sögusviði, persónum og söguþráðinum almennt. Sambönd Amirs við vin sinn Hassan annars vegar og við föður sinn Baba hins vegar - og þá enn fremur við vinnufélaga föður síns - eru einstök og athyglisvert er að fylgjast með þeim áhrifum sem þau hafa á hann eftir því sem hann þroskast. Það skal líka tekið fram að endirinn kemur skemmtilega á óvart og voru í raun nokkrir atburðir í seinni hluta bókarinnar sem ég var svo sannarlega ekki að búast við. Sagan er þó vissulega átakanleg um leið og bókin er skrifuð þannig að maður hafi samúð með aðalpersónunni – eins og oft tíðkast – þó í raun haldi maður mun meira upp á aukapersónuna, Hassan, sem er til hliðar allt sitt líf og aldrei talinn jafnmikilvægur og sonur auðjöfursins. Örlögin sem bíða hans eru ekki síður sorgleg og óréttlát og jafnvel þótt gagnrýnendur ofnoti slagorð sitt um algjör meistaraverk þá á það mjög vel við í þetta sinn – þessi lætur engan ósnortin.