Þegar kóngur kom eftir Helga Ingólfsson Þessi grein inniheldur enga spoilera um sögu bókarinnar. Athugið að greinin er ekki hluti af greinakeppninni.


Helgi Ingólfsson er fæddur árið 1957 í Reykjavík og starfar hann í dag sem kennari í sögu við Menntaskólann í Reykjavík. Hann er með B.A. gráðu í sagnfræði og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands en menntun sinni beitir hann einnig við starf sitt sem rithöfundur. Eftir Helga liggja þónokkur ritverk, þeirra þekktust ef til vill Letrað í vindinn : Samsærið og Andsælis á auðnuhjólinu en eftir þeirri síðarnefndu var gerð kvikmyndin Jóhannes sem birt var í kvikmyndahúsum á síðasta ári.

Ég lauk nýverið við nýjustu bók Helga Ingólfssonar, Þegar kóngur kom, sem kom út um jólin 2009. Bókin er söguleg skáldsaga og er innri tími sögunnar árið 1874 en sögusviðið miðbær Reykjavíkur. Þetta ár voru þúsund ár liðin síðan Ingólfur Arnarson steig fæti á Ísland samkvæmt Landnámabók. Af því tilefni kom Kristján 9. Danakonungur til Íslands og gaf Íslendingum sína fyrstu stjórnarskrá, „Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“, við mikil hátíðarhöld á Alþingi sem og í Reykjavík.
Sögumaður er Móritz Halldórsson Friðriksson, nemi í Menntaskólanum í Reykjavík, og ásamt honum eru aðalpersónur Hjaltalín landlæknir og Borgfjörð lögregluþjónn. Fleiri koma þó mikið við sögu, svo sem Halldór, faðir Móritzar, Gestur Pálsson Menntaskólanemi, Sigga tólf, Jón Sigurðsson og að sjálfsögðu Kristján konungur.
Sagan fjallar að miklu leyti um Siggu tólf, fátæka unga stúlku sem býr í gömlum bæ við Reykjavík ásamt fóstra sínum, Torfa Steinssyni. Torfi er guðhræddur mjög og hálfgeðbilaður í þokkabót. Sigga tólf er þunguð í upphafi sögunnar og er faðernið mjög á reyki, þó í ljós komi ákveðnar vísbendingar um faðirinn þegar líður á söguna. Stuttu eftir barnsburð tekur hún örlögum sínum og úr verður rannsókn sem Borgfjörð og Hjaltalín taka að sér fjarri vökulum augum almennings. Slíkt hneyskli sem mál hennar er má ekki undir neinum kringumstæðum fella skugga á heimsókn konungs og er því haldið leyndu. Þó er skólapiltinum Móritz leyft að fylgjast með framgangi rannsóknarinnar þar sem hann er verðandi læknir og nemi Hjaltalíns.
Auk þessa fjallar sagan að miklu leyti um heimsókn konungs og eru líflegar lýsingar af veislum þeim sam haldnar eru honum til heiðurs, samskiptum hans við almúgann og aðstæðum í Reykjavík á þessum tíma. Höfundur hefur bersýnilega kynnt sér vel hið daglega líf bæjarbúa í Reykjavík og ég hafði afar gaman af frásögnum hans ýmis konar. Margt kemur fram um húsakynni heldri borgara, kofaskrifli þeirra fátæku og almennt kemur stéttaskiptingin í Reykjavík á þessum tíma vel í ljós.
Bókin er afskaplega skemmtilega skrifuð. Sagan er sögð út frá sjónarhorni tvítugs skólapilts á 19. öld og því mikið um íslenskuð dönsk orð og orðasambönd og samræður eru einatt líflegar og skemmtilegar. Mikið ber á því hjá lærðum mönnum sem og erlendum að þeir tali á latínu, þýsku og einkum dönsku en hið síðastnefnda er eina tungumálið sem ekki er þýtt í neðanmálsgrein. Því get ég ímyndað mér að lesandinn þurfi að kunna að minnsta kosti eitthvað hrafl í málinu til að skilja öll samtöl til fullnustu. Þetta minnti mig einna helst á myndina Inglourious Basterds þar sem tungumál skiptust á hægri vinstri en það var einmitt eitthvað sem ég kunni afar vel að meta við þá mynd Tarantino.
Persónur eru einnig einkar litríkar og mikið er um lifandi mannlýsingar. Ég hafði mjög gaman af Hjaltalín landlækni, stórum og virðulegum manni sem ég sá ljóslifandi fyrir mér sem og föður Móritzar, Halldóri, en hann er heldri maður í bænum, náinn vinur Jóns Sigurðssonar og tekur í raun þátt í öllu. Hann skipuleggur margt við komu konungs til Íslands, undirbjó ásamt öðrum Þjóðfundinn árið 1851 og var ritstjóri Fjölnis á tímabili. Þá var Kristján konungur merkilega alþýðlegur og ég geri ráð fyrir að það einkenni hafi verið eftir persónu konungsins heitins eins og hún var í raun. Þó var eftirlætispersóna mín í bókinni tvímælalaust Gestur Pálsson, háfleyga ljóðskáldið sem naut þess að heilla meyjarnar upp úr skónum á meðan hann fékk sér í aðra tána og þuldi upp latínufrasa.

Í heildina þótti mér bókin afar góð og skemmtileg aflestrar. Bókin varð án efa áhugaverðari en hún hefði verið ella með miðborg Reykjarvíkur sem helsta sögusvið og ég get vel ímyndað mér að það sé sér í lagi skemmtilegt fyrir hvaða MR-ing sem er að lesa hana sem og þá sem búa í nánasta nágrenni. Ég get líka viðurkennt að endirinn kom skemmtilega á óvart. Í fyrstu þótti mér sem um mjög augljósan og í raun lélegan endi væri að ræða en þegar ég las áfram var sú ekki raunin. Skemmtilegur ritstíll var einkennandi fyrir verkið og ég myndi mæla með bókinni fyrir hvern þann sem hefur gaman af siðum og venjum 19. aldar Reykvíkinga eða áhugafólk um sögu almennt, þeim sem vel kunnir eru miðbæ Reykjarvíkurborgar og einfaldlega þeim, sem hafa gaman af góðum bókmenntum.

~Bilskirnir

E.S. Meðfylgjandi mynd er af föður Móritzar,
Halldóri Kristjáni Friðrikssyni.