Bók til að forðast - Keppni Það hefur reynst mér mjög erfitt að koma saman grein í þessa keppni þar sem í ljós hefur komið að ég er ákaflega góðhjörtuð í garð bóka, meira að segja leiðinlegra bóka. Ég skrifa stundum hjá mér nokkur orð um bækur sem ég hef lesið og reyndi að leita þar að bók sem ég hafði gjörsamlega úthúðað. Fann ekkert. Ég fann þó punkta um nokkrar bækur sem ég mundi vel að voru leiðinlegar. Meðal þess sem ég hafði skrifað um þessar leiðinlegu bækur var:

„…finnst bókin skemmtileg í minningunni, þótt það hafi verið mjög leiðinlegt að lesa hana.“

„Textinn er á sumum stöðum nánast konfekt. Hinsvegar er það sagan sem vantar í þennan fína texta.“

Frú Bovary eftir Gustave Flaubert er skemmtilegri í minningunni en hún var við lesturinn (líka í annað skiptið) og hvernig í ósköpunum Yann Martel gat klúðrað því að búa til góða sögu í bók sem fjallar um strák sem vaknar einn daginn upp sem kona í Self (enskur titill) er mér algjörlega óskiljanlegt.

Það er í raun bara ein bók, sem ég man eftir, sem ég get ekki fundið neitt gott til að segja um, enda skrifaði ég enga punkta um hana. Það var í kringum jólin 2008 sem ég varð fyrir því óláni að ramba á bókina Dead Sexy eftir Kathy Lette á bókasafni.

Megingalli bókarinnar er að hún er eitthvað allt annað en hún lítur út fyrir að vera. Sagt er að ekki eigi að dæma bækur af kápunni, en það er nú samt gert. Kápan og káputextinn eiga að gefa lesanda vísbendingu um hvort bókin falli að smekk hans eða ekki. Í þessu tilviki gaf káputextinn í skyn að um væri að ræða líflega ástarsögu. Hún fjallar um Shelley og Kit sem skrá sig í raunveruleikasjónvarpsþátt þar sem þau þurfa að gifta sig og fá dágóða peningaupphæð ef þau ná að láta hjónabandið lifa í ákveðinn tíma. Auðvitað eru þau eins ólík og hægt er: Kit er karlremba af gamla skólanum á meðan Shelley hatar menn.

Ástarsögur eru ekki sú bókmenntagrein sem mestrar virðingu nýtur í heiminum en þær eru iðnaður sem veltir stórum fjárhæðum ár hvert. Til að ná árangri í heimi ástarsagnanna þarf að fylgja ákveðnum reglum. Aðalpersónurnar, til dæmis, eiga að vera fólk sem hægt er að líka við. Lesendur (sem eru aðallega konur) ættu að geta samsamað sig með aðalkvenpersónunni og orðið ástfangnar af aðalkarlpersónunni. Ekki er þó mælt með því að persónurnar séu algjörlega fullkomnar. Þær ættu að hafa a.m.k. einn augljósan galla, en þó ekki svo stóran að ekki er hægt að líta framhjá honum þegar kemur að því að stofna til rómantísks sambands.

Hvernig kom Dead Sexy út miðað við þessar leiðbeiningar? Shelley reynist vera með brotnari sjálfsmynd en Bridget Jones, og fyrir mig markar Bridget línu þeirrar ástæðulausu sjálfsvorkunnar sem ég nenni að lesa um. Kit lýgur til um allt og ofan á bætist karlrembuhátturinn sem áður var minnst á. Þetta eru ekki persónur sem mig, sem hóflegum aðdáenda klisjukenndra ástarsagna, langar til að samsama mig með eða verða ástfangin af.

Ég held að ekkert geti bjargað bók með svona óspennandi aðalpersónum, og það er raunin í þessu tilfelli. Aukapersónurnar voru myndatökulið frá sjónvarpsstöðinni sem skipulagði raunveruleikaþáttinn, óþverralýður sem vildi bara ná sem mest krassandi myndum. Hvað varðar söguþráð þá gerist meginhluti bókarinnar á suðurhafseyju þar sem Kit og Shelley eru í brúðkaupsferð. Hægt er að selja ástarsögulesendum ýmsa ólíklega söguþræði en hér fannst mér keyra algjörlega um þverbak. Söguþráðurinn snýst um samdrátt Kit og Shelley (af einhverjum ástæðum hrífast þau af hvort öðru), upp kemst að Kit smyglaði ungri dóttur sinni, sem Shelley hafði ekki hugmynd um að væri til fyrr en upp kemst um smyglið, með í brúðkaupsferðina við litla hrifningu móður telpunnar. Myndavélateymið eltir þau og bæði brjótast út stríðsátök á eyjunni og hitabeltisstormur gengur yfir hana á þessum fáu dögum sem sagan spannar.
Flest af þessu (nema aðalpersónurnar) hefði verið hægt að nýta í skemmtilega ástarsögu en eins og þetta kemur allt saman hér verður úr ólýsanlega skelfilegur hrærigrautur.

Ótrúlegt en satt, þá las ég þessa hörmung til enda. Aðdráttaraflið var hryllingurinn, ég ætlaði ekki að trúa því að höfundinum væri alvara með þessu en skopstælingu gat ég heldur ekki séð. Ekki man ég hvernig ósköpin enduðu en trúið mér, hvernig sem það var bætti það ekki fyrir neitt. Forðist Dead Sexy!
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.