The Wind-Up Bird Chronicle eftir Haruki Murakami kom fyrst út í þremur hlutum í Japan 1994 og 1995. Enska þýðingin kom út í einni bók 1997.

Aðalsöguhetjan er Toru Okada, ungur maður sem býr ásamt eiginkonu sinni í úthverfi Tokyo. Í upphafi sögunnar er heimiliskötturinn horfinn. Í leit sinni að honum kynnist Okada mörgum óvenjulegum manneskjum. Fljótlega hverfur konan hans og hefst þá mikil leit hans af henni, sem felst þó aðallega í því að sitja á botni uppþornaðs brunns.
Það er erfitt að útskýra söguþráðinn, því eins og í flestum bókum Murakami er mikið um það sem flestir myndu kalla dulræn atvik. Lesendur verða að sætta sig við þá staðreynd heimurinn er stærri en það sem við sjáum með augunum og að hann er flóknari en við skiljum. Toru Okada er mjög einrænn en þrátt fyrir það hefur maður mikinn áhuga á að lesa um hann og komast að því hvað mun henda hann næst. Sögufléttan og atvik sem henda Okada ramba studum á milli súrrealisma og geðveiki. Stundum leit ég upp úr bókinni og spurði mig hvað væri eiginlega að gerast. En aldrei gekk Murakami of langt, hann skrifaði bók sem heldur manni föstum og heillar mann. Eftir því sem líður á bókina óskar maður þess að hún endi aldrei, mann langar ekki að skilja við persónurnar. Ég kláraði þessa bók í dag og hún mun sitja í höfðinu í langan tíma, eða að minnsta kosti þar til ég byrja á næstu bók eftir hann.