Gatsby og góðærið The Great Gatsby eða Gatsby, eins og bókin kallast í íslenskri þýðingu Atla Magnússonar frá 1987 (1. útgáfa), er oft talið besta verk bandaríska rithöfundarins F. Scott Fitzgerald.

Sögusviðið er New York og nágrenni árið 1922, þegar mikill uppgangur er í Bandaríkjunum á þriðja áratug 20. aldarinnar. Við fáum að heyra sögu hins unga Jay Gatsbys sem hefur komist í mikil efni með nokkuð vafasömum viðskiptum, til þess eins að ná ástum Daisy sem er af efnuðu fólki komin.
Þegar þeir atburðir sem sagt er frá gerast, er Daisy reyndar gift öðrum manni en Gatsby lætur það ekki draga úr sér kraftinn. Hann slær um sig með gríðarmiklum auði sínum, íburði og vellystingum og heldur mannmargar glæsiveislur um hverja helgi til þess eins að ná athygli hennar, sannfærður um að hún elski sig meira en eiginmann sinn.
Gatsby telur sig vera að lifa hinn ameríska draum og að ekkert geti stöðvað hann í að ná frama í bandarísku samfélagi. Þegar við heyrum hinsvegar söguna frá sjónarhóli hins hlutlausa sögumanns má okkur vera ljóst að bandaríski draumurinn er kannsi bara draumur. Þegar á reynir er samfélag hinna ríku ekki eins opið og það á að vera.

Bókin hefst á hlutleysisyfirlýsingu sögmannsins, Nick Carraway sem er að efnafólki kominn en er meðvitaður um það að ekki allir hafi verið jafn lánsamir og hann. Þótt frásögn Nicks sé ekki gildishlaðin í sjálfu sér skín það í gegnum lýsingarnar að honum, og talar hann þá fyrir Fitzergald sjálfan, ofbjóði íburðurinn, eyðslan og kæruleysið. Þegar líður á söguna verða siðferðislegu brestirnir í þessu samfélagi ljósari sem og firringin, yfirborðsmennskan í samskiptum og vanvirðing þeirra betur settu við venjulega fólkið.

Bókin var fyrst gefin út í Bandaríkjunum árið 1925 en náði ekki miklum vinsældum fyrr en uppgangstímanum var lokið og kreppan mikla og svo síðari heimstyrjöldin skullu á.
Nú ætti jarðvegur á Íslandi að vera hagstæður boðskap bókarinnar og er auðvelt að ímynda sér nokkurs konar hliðstæður við íslenskt samfélag á nýliðnum árum.

Heimildir:
Gradesaver: http://www.gradesaver.com/the-great-gatsby/study-guide/about/

Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/The_Great_Gatsby
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.