Lestur góðra bóka

Allt í kring um okkur heyrum við þann áróður að við eigum að lesa eina og eina bók annað slagið. Allir kaupa bækur fyrir jólin til gjafa, því það er svo menningarlegt. En les þær einhver? Því hefur verið fleygt fram að Íslendingar séu bókagjafaþjóð og lítið meira. Er þetta satt?
Nú er skylda í grunnskóla að lesa nokkrar bækur úr ýmsum áttum, t.d. Benjamín dúfu, Laxdælu og Engla alheimsins. Í framhaldskólum landsins er svo lögð áhersla á heldur þyngri bækur eins og Íslandsklukkuna. Er rétt að skylda lestur ákveðinna bóka? Er ekki nóg lesið annars? Vissulega er hægt að segja að margir lesi þá ekkert en hvað með það, þeir vitkast vafalaust alveg nóg þó ekki sé það Laxness eða Þórbergur. Margir aðrir miðlar geta nefnilega komið í staðinn eins og sjónvarp, útvarp, hljóðbækur og netið. Þetta fer allt eftir smekk manna og er allt álíka fræðandi. Segja mætti þó að á netinu og í sjónvarpi sé einnig mikil lágmenningarþvæla en til eru margar bækur sem eru ekki síður til þess fallnar að lækka menningarstig manna. Skólar ættu heldur að hvetja til lestrar en að skylda hann, í það minnsta að hafa bókaval sem frjálsast. Það er alltaf leiðinlegt að þurfa að leggja góða bók til hliðar meðan einhver skyldubók er lesin. Kennarinn ætti heldur að samþykkja þá bók sem nemandinn vill lesa.


Margir nota þá afsökun fyrir því að lesa ekki að það sé svo dýrt að kaupa bækur. Þetta er að vissu leyti satt því góð ný íslensk bók selst sjaldnast á undir þremur þúsunda króna. Benda mætti þá á að slík bók er lesin á um það bil mánuði en bíóferð á um þúsund krónur endist í um sextíu mínútur.
Íslendingar eiga góð bókasöfn sem þó mætti nýta betur, en hið versta við þau eru hve fá þau eru og því alla jafnan langt í þau. Aðgengi að bókum myndi batna með bókasafni í hverju hverfi. Það er ekki jafn skemmtilegt að finna bækur í litlum bókabíl með fátæklegu úrvali.
Hvetja mætti til aukinnar sölu notaðra bóka. Á of fáum stöðum er hægt að versla notaðar bækur aðrar en skólabækur. Víða erlendis eru götumarkaðir þar sem hægt er meðal annars að kaupa notaðar kiljur á um hundraðkrónur. Bókabúðir gætu tekið þetta upp. Ódýrastar eru nú óþýddar bækur á erlendum tungumálum. Eru þær eitthvað síðri en aðrar? Nei því er langt í frá. Þó að íslenskar bækur geti verið góðar, þá er skiljanlega svo miklu meira úrval af erlendum bókum.
Ef lesandi er sæmilega lesandi á erlendri tungu þá er um að gera að mæla með lestri einhverra góðra bóka á því máli. Það að lesa bækur á erlendri tungu eykur svo orðaforðann og skilning á notkun orðanna í daglegu máli. Hið sama á að sjálfsögðu við um lestur íslenskra bóka, þar eð lestur þeirra eykur orðaforða og ýtir undir fagra orðanotkun. Margi halda að það sé bara hægt að lesa í fríum og þessháttar, en auðveldara er að finna tíma til lestrar en margan grunar. Það má lesa í strætisvögnum, í rúminu eða hvar sem korter er aflögu. Jafnvel á annasömustu dögunum fara korter til spillis og þá væri tilvalið að taka upp vasakilju.
Þegar öllu er á botninn hvolft kemur það í ljós að við Íslendingar erum bókagefarar en gætum orðið jafnvel meiri bókalesarar. Þó eru sumir sem lesa í rúminu eða í strætisvögnum og þeir allra hörðustu lesa í biðröðum. Vel vönduð bók er sígild afþreying og ættu sem flestir að nýta sér hana!

Reykjavík, febrúar 2002

Steinar Sigurðsson