Draumagildran Draumagildran

(Dreamcatcher)
Höfundur: Stephen King
Útgefin: 2001
Þýðandi: Björn Jónsson
Bls: 445

“Fyrir tuttugu og fimm árum gerðist atvik sem breytti lífi fjögurra ungra vina og tengdi þá órjúfanlegum böndum. Seinna fara þeir hver sína leið og ekkert bindur þá saman nema dulúðleg fortíðin. Á hverju ári hittast þeir því í veiðikofa í dimmum skógum Mainefylkis og endurnýja tengslin við fortíðina. Minningarnar halda þeim fjötruðum og kannski verða þær líka lífsgjöf þeirra. Sumra þeirra.

Þeir eru nýkomnir til veiða þegar ókunnugur maður reikar að kofanum, ráðvilltur og undarlegur ásýndum, og talar um torkennileg ljós á himninum. Enn hann er ekki einn á ferð. Á andartaki er vinunum svipt inn í skelfilega atburðarrás þar sem þeir þurfa að takast á við ógnarverur úr öðrum heimi, ófreskjur sem geta ekki aðeins þrengt sér inn í líkama manna - þær geta einnig yfirtekið hugsanir, reynslu og minningar. Ef félögunum tekst ekki að verjast þessum framandi öflum er öllu lokið … Skyldi fimmti vinurinn, hlekkurinn sem tengir hina saman, geta orðið þeim til bjargar?”

Þetta er það sem er skrifað aftan á harðkápu eintakið af Draumagildrunni, og verð ég að viðurkenna að ég las þetta ekki einu sinni, heldur hafa nú Stephen King bækur staðið fyrir sínu, og venjulega hægt að ganga að því vísu að bókin verði spennandi og skemmtileg. Og fyrir mitt leyti þá varð ég ekki aldeilis fyrir vonbrigðum. Bókin hefst í raun á því að við fáum að kynnast persónunum, fjórum vinum sem allir hafa sérstakan hæfileika sem þeir geta notað að vild. Ekki er farið mikið út í æsku þeirra að svo stöddu en samt er vel haldið í lesandann og erfitt að láta bókina frá sér. Þegar líður á bókina og búið er að kynna persónur vel er haldið af stað. Nútíminn- Þar sem fjórir vinir leggja af stað í hina árlegu veiðiferð. Þeir hafa flestir ástæður frekar en skildurækni til að fara í þessa ferð, en vel er gert því skil að þessi ferð er þeim öllum mikilvæg.

Það sem gerir þessa bók virkilega skemmtilega lesningu eru hinar svakalegu lýsingar, og átti ég margar svefnlitlar næturnar á meðan ég las þessa bók. Einnig er það skemmtilegt að lesandinn heldur áfram að kynnast og líka við persónurnar eftir því sem líður á söguna. Svo er að sjálfsögðu persónur sem auðvelt er að hata. Það er einnig mjög skemmtilegt hvernig farið er til baka í sögu þessara vina, hvað það var senm gerði þá að þeim mönnum sem þeir eru í “nútímanum”. Ég vil samt lítið meira segja um söguþráðinn annað en að hann er mjög þéttur og heldur lesandanum alveg við efnið, eins og langflestar sögur King´s gera. Svo er líka það að þegar sögunni er lokið skrifar King stutt eftirmæli, sem að vissu leyti gerir þetta enn skemmtilegri upplifun, eða kannski er það bara ég?

Svo er bara að bíða eftir myndinni, sem að reyndar verður án efa erfitt að gera, eins og þeir sem hafa lesið bókina sjá.