Jæja, nú eru Bókatíðindi komin út og mér finnst alltaf jafn gaman að fletta í gegnum þau, lesa umsagnirnar og merkja við bækurnar sem mig langar til að lesa.
Reyndar komu Bókatíðindi ekki inn um lúguna til okkar þetta árið, við þurftum að stela þeim frá ömmu…Kannski eru þau bara ekki komin til okkar ennþá.

En ég verð nú að segja að Bókatíðindi þessa árs heilluðu mig ekki jafn mikið og útgáfur síðari ára. Það er engin bók sem ég hreinlega verð að eignast eins og hefur alltaf verið.

Hvorug bókin sem ég var að vonast eftir kemur út þessi jól.
Í fyrsta lagi var ég að vonast eftir því að Sérstök, þriðja bókin um Tallý eftir Scott Westerfeld kæmi út, en það voru kannski bara draumórar í mér.
Í öðru lagi var ég að vonast eftir þriðju og síðustu bókinni í bókaflokknum Stravaganza eftir Mary Hoffman. Hún mun væntanlega heita Blómaborgin. Fyrsta bókin, Grímuborgin, kom út 2004 og önnur bókin, Stjörnuborgin kom út 2006. Ég var því að vonast eftir áfrámhaldi á mynstrinu með útkomu þriðju bókarinnar núna árið 2008, en það virðist ekki ætla að ganga eftir.
Ég gæti auðvitað bara lesið þær á ensku en það er bara svo þægilegt að lesa á íslensku…

En þrátt fyrir þetta leynast nú nokkrar áhugaverðar bækur þarna á milli sem virðast spennandi. Ég ætla núna að nefna þær bækur sem ég merkti við sem áhugaverðar og ætla pottþétt að taka á bókasafninu.

Martröð
Fyrsta bókin í tíðindunum sem vakti áhuga minn er bókin Martröð eftir Hallveigu Thorlacius. Um bókina stendur
„Hrefna er íslensk indjánastelpa sem fer með foreldrum sínum til Mexíkó að leita uppruna síns. Hún lendir í spennandi atburðarás, kynnist undirheimum Mexíkó og mönnum sem svífast einskis til að þagga niður í henni.“
Hljómar spennandi…

Rótleysi, rokk og rómantík
Næsta bók sem ég hef merkt við er bókin Rótleysi, rokk og rómantík eftir Ingibjörgu Reynisdóttur. Þetta er sjálfstætt framhald bókarinnar Strákarnir með strípurnar sem kom út í fyrra. Ég las Strákana með strípurnar og ég verð að segja að mér fannst ekki mikið til hennar koma. Stíllinn fannst mér flatur og óspennandi, og söguþráðurinn ótrúverðugur. Hún var þó ekki alslæm og ég ætla að gefa þessu framhaldi tækifæri.

Svart og hvítt
Bókin Svart og hvítt eftir Jónínu Leósdóttur er framhald snilldarbókarinnar Kossar og ólífur sem kom út í fyrra. Ég fór á upplestur á bókinni í fyrra þar sem höfundur las úr henni á bókasafni. Þar var meirihluti áheyrandanna litlir krakkar, sem eru alls ekki markhópur bókarinnar. Það var svolítið skemmtilegt að heyra Jónínu reyna að velja svona saklausustu hlutana úr bókinni til að lesa upp, því að bókin fjallar um kossa, anorexíu, samkynhneigð og margt fleira sem maður er ekki beint að fara að lesa upp fyrir smábörn :) En sú bók var æðisleg og ég mæli með henni fyrir allar unglingsstelpur. Þetta framhald lofar góðu enda er Jónína einstaklega góður rithöfundur.

Þór – í heljargreipum
Ég merkti við Þór – í heljargreipum eftir Friðrik Erlingsson aðallega vegna þess að ég hef mikinn áhuga á norrænni goðafræði og elska svona ævintýrabækur sem byggjast á þeim heimi. Þetta er bókin sem er verið að búa til alþjóðlega tölvuteiknimynd um. Það verður gaman að sjá hvernig það kemur út.

Býkúpa
Fyrsta erlenda bókin sem ég merkti við var bókin Býkúpa eftir Mark Walden. Þetta er víst um strák sem er í „leynilegum skóla fyrir hæfileika vandræðagemlinga“ en vill sleppa þaðan. Á síðu Forlagsins eru ýmsar upplýsingar um bókina, t.d. viðtal við höfundinn. http://www.forlagid.is/baekur/detail.aspx?id=4149

Bangsímon
Bangsímon! Æ, hver elskar ekki Bangsímon eftir A.A. Milne? Ég elskaði Bangsímon þegar ég var lítil (og geri enn – vinkonur mínar segja að ég vitni óhóflega í hann miðað við aldur). Einhvern veginn á ég samt enga bók um hann og þess vegna væri skemmtilegt að eignast þessa hátíðarútgáfu með fyrstu sögunum um hann sem er að koma út núna.

Blekhjarta
Ég sá trailerinn úr myndinni Inkheart áður en ég einu sinni vissi að bókin væri að koma út á íslensku. Bókin, sem er eftir Corneliu Funke, er um stelpu sem heitir Meggí og pabbi hennar getur lífgað við sögupersónur úr bókum (hver hefur ekki óskað þess að geta það?). En málin flækjast þegar hann sleppir óvart lausu illmenni…
Hér er trailerinn: http://www.youtube.com/watch?v=KR-JkqGMFbU
Nú er bara um að gera að lesa bókina áður en myndin kemur út.

Draumar 2
Ég hef aldrei fest mig í manganu eða anime-inu eins og svo margir, en ég heillaðist samt af mangabókinni Draumum eftir Queenie Chan þegar hún kom út á íslensku. Hún fjallaði um tvíburasystur sem eru í heimavistarskóla djúpt inni í skógum Ástralíu. Þar eiga dularfullir og óútskýranlegir atburðir sér stað. Hún endaði svo spennandi að ég verð að lesa framhaldið.

Fegurstu Grimms ævintýri
Hvar værum við án ævintýranna? Í þessari bók er nokkrum af snilldarverkum Grimmsbræðra safnað saman.

Göngin
Bók eftir Roderik Gordon og Brian Williams um Will, 14 ára strák sem hefur gaman að því að grafa göng ofan í jörðina. Þegar pabbi hans hverfur ofan í göng ákveður Will að elta hann ásamt vini sínum og lendir þá í ævintýrum. Hefur fengið góða dóma.

Nornaketillinn

Önnur bókin í flokkinum Á háskaslóðum eftir Lloyd Alexander. Fyrri bókin heitir Dularfulla bókin og ég hef reyndar ekki lesið hana. En þær hljóma vel þannig að ég er að hugsa um að vinda mér í það. Þetta líta út fyrir að vera hefðbundið ævintýri um baráttu góðs og ills og þau eru oftast skemmtileg.

Verndargripurinn frá Samarkand
Fyrsta bókin í Bartimæusarþríleiknum eftir Jonathan Stroud. Um bókina stendur
„Ungur töframannslærlingur, Nathaniel, vekur upp 5.000 ára gamlan djinna, Bartimæus, og sogast inn í ógnvænlega hringiðu leynimakks og átaka í London nútímans.“
Hljómar spennandi…

Skaparinn
Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur hefur mikið verið í umræðunni að undanförnu og hefur fengið virkilega góða dóma.

Kjammi – bara krútt sem þarf knús
Bók eftir Helga Jean Claessen.
„Skeið er stungið í hjarta útvarpsmanns á FM957. Í kjölfarið rannsakar Erlendur sitt allra hressasta morðmál á ferlinum. Splunkunýr tónlistarklukkutími veldur reyndar hans mestu skapvonsku síðan frostaveturinn 1918. Úrillur neyðist hann svo til að leita ráða hjá rithöfundinum Arnaldi Indriðasyni sem leyfislaust byggir heila bókaröð á lífi hans.“
Ha ha :D Ég hef nú aldrei lesið neina bók eftir Arnald til enda, en það getur vel verið að ég gluggi í þessa.

Óreiða á striga
Óreiða á striga er framhald Karitasar án titils eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur sem er snilldarbók, ein sú besta sem ég hef lesið. Þetta er „stórbrotin örlagasaga um konu sem kaus að feta óhefðbundna leið í lífinu.“

Lottó
Bók eftir Patriciu Wood um mann með greindarvísitöluna 76. Þegar amma hans deyr vinnur hann risastóran lottóvinning og kemst þá að því að hann á fleiri skyldmenni en hann hefur þörf fyrir.

Jæja, þá er upptalningunni minni lokið. Bókatíðindi er hægt að nálgast á netinu hér:
http://www.bokatidindi.is/page_37.html
Mér finnst myndin framan á kápunni einstaklega flott í ár, svolítið ævintýraleg.


Hvaða bækur vonist þið til að fá í jólapakkana ykkar þetta árið?