Ljósaskipti - að haldast í hendur er sexí Reyndar kom grein hérna inn um þessa sömu bók í september en langar mig samt aðeins að bæta við hana, enda er bókin nú komin út á íslensku og miðast þessi grein við lestur minn á þýðingunni. Svo er íslenska þýðinginn prentuð á Íslandi og maður á að styðja við allt íslenskt núna á síðustu og verstu tímum ;)


Bella Swan kemur til smábæjarins Fork, sem þekktur er fyrir að vera einn úrkomumesti staður Bandaríkjanna, frá sólarríkinu Arizona til þess að búa hjá föður sínum. Eins og það sé ekki nóg að vera nýja stelpan í skólanum og þurfa að aðlaga sig að nýju lífi þá ruglar óstórnlegur áhugi hennar af hinum dularfulla bekkjarfélaga, Edward Cullen, hana algjörlega í ríminu. Hvernig er hægt að vera svona myndarlegur og þokkafullur? Og hverju virðist honum vera illa við hana?
Eftir að Edward bjargar lífi Bellu á hátt sem er ofiða mennskum mönnum taka hlutirnir smám saman að koma í ljós. Edward er ekkert illa við Bellu, þvert á á móti. Hann girnist hana óstjórnlega - á hátt sem hana hefði aldrei órað fyrir.

Þetta er umgjörðin sem Stephanie Meyer skapar í frumraun sinni sem rithöfundur, Ljósaskiptum (e. Twilight). Hugmyndin sem birtist henni í draumi hefur undið upp á sig. Bækurnar um Bellu eru orðnar fjórar, kvikmynd eftir fyrstu bókinni verður frumsýnd síðar í mánuðinum í Bandaríkjunum og fólk klæðir sig upp í búninga til að líkjast sögupersónunum.

Efnistökin eru kannski ekki þau frumlegustu, textinn kannski ekki sá fagurfræðilega listilegast skrifaði en samt sem áður gleypti ég söguna í mig á þremur dögum. Það er orðið nokkuð síðan ég festist jafn illilega í 500 bls. doðranti í stóru broti (en reyndar líka stóru letri).

Persónurnar eru allt í senn ofurraunverulegar eins og Bella sem hefur áhyggjur af því að falla ekki inn í hópinn í nýja skólanum og er svo klaufsk að nánast jaðrar við fötlun, óraunverulegar eins og hin dansandi og forspáa Alice og óstjórnlega heillandi eins og hinn óviðjafnanlegi Edward sem getur heillað hvern sem er upp úr skónum og ég þrái að fá að snerta í raunveruleikanum.

En það sem gerir bókina stórkostlega er hið leiftrandi neistaflug á milli Bellu og Edwards. Stórkostleikinn er fólginn í því að þau gera ekkert djarfara en að halda utan um hvort annað, haldast í hendur og strjúka hvort öðru. Kossar eru erfiðir þar sem þeir bera annað hvort þeirra iðulega ofurliði. Þessi saklausu faðmlög og strokur eru samt magnþrugnari og lostafyllri en margar svæsnar kynlífslýsingar.

Það eina sem angraði mig eitthvað við lesturinn var þýðing Magneu J. Matthíasdóttur. Magnea er reyndur þýðandi en í fljótu bragði sýnist mér hún hingað til hafa aðallega þýtt bækur fyrir fullorðna. Ljósaskipti er unglingabók, þótt hún sé líka vinsæl meðal fullorðinna, og margir sem taka til máls í henni eru unglingar. Ég hef ekki aðgang að bókinni á frummálinu þannig að ég get ekki verið viss um að þetta sé allt í þýðingunni. Hugsanlega virkar frumtextinn líka óeðlilegur í meðförum 17 ára unglinga. En mér þykir frekar hæpið að þýða það sem líklega hefur verið “definitely” eða “most definitely” á frummálinu, sem “alveg tvímælalaust” þegar 17 ára unglingsstúlka segir það við jafnaldra sinn í skólanum. Ég geri mér samt grein fyrir því að hér er ég komin út í eitthvað sem sumir myndu flokka sem tittlingaskít.

Ljósaskipti og sá heimur sem þar er skapaður, hversu raunsær sem hann virkar, er fantasía og verður lesandi að sleppa því að setja upp ofurraunsæisgleraugunum til þess að njóta bókarinnar. Bæði þarf að hafa opin huga fyrir því að ekki eru allir jafn mennskir og gefa nokkurn slaka á það hversu mikið hormónaflæðið getur verið hjá bandarískum unglingum. Ef engar hömlur eru settar á þetta eru Ljósaskipti yndisleg skemmtun.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.