Ég var svo heppinn að fá bókina The Catcher in the Rye í jólagjöf. Bókin er eftir J.D. Salinger en mér skilst að kallinn sjálfur eigi merkilega sögu sem sé vel efni í grein.

Saga þessi gerist að því er ég get mér til líklegast snemma á 6. áratugnum í Bandaríkjunum, kannski undir lok þess 5. Hún segir frá Holden Caulfield, 16 ára pilti, þar sem það er nýbúið að sparka honum úr enn einum fína heimavistarskólanum. Við fáum að gægjast inn í hugarheim hans sem rithöfundurinn nær að gera sannfærandi og það skaðar ekki að tungutak unga fólksins þarna er ákaflega sannfærandi og ekki að finna vott af tilgerð komna frá rithöfundinum í orðtaki og samtölum.

Bókin er að vissu leiti ádeila en þó mun frekar vill ég kalla hana samfélagsskoðun því að við fáum að kynnast náið hvernig Holden upplifir umheiminn en viðhorf hans jaðrar við tómhyggju (nihilism) svo margt er honum þyrnir í augum. Helst á hann erfitt með hve yfirborðskennt flest fólk er og þetta mótar áhugaleysi hans á því að gera neitt við líf sitt annað en að sólunda því. Ég ætla þó alls ekki að reyna að kryfja söguna til mergjar eða reyna að segja hvað ég las út úr henni, enda satt best að segja enn þá að melta það með mér.

Sagan gerist á stuttum tíma, hefst um daginn sem hann er gerður brottrækur úr skólanum rétt áður en jólaleyfið hefst. Um kvöldið strýkur hann heim til New York og upplifir þar tvær viðburðaríkar nætur sem leiða svo til uppgjörs milli hans og í raun heimsins. Hvernig það fer er best að láta ósagt en bókin er í raun nokkuð sláandi, sérstaklega ef litið er til aldurs hennar en hún gerist á merku tímabili í sögu Bandaríkjanna sem hefur æði oft orðið skotspónn ádeilu og gagnrýni.