Mig langar að vita, hvort eruði frekar fyrir bækur í hörðum kápum eða kiljur?
Á Íslandi eru langflestar bækur gefnar út í hörðum kápum. Svo kannski seinna, ef þær verða vinsælar, eru þær gefnar út í kiljum (t.d. Englar Alheimsins). En flestar bækur sem koma út í jólabókaflóðinu eru harðspjalda, og oft mjög vel gefnar út. Það þykir “fínt” að fá góða bók í jólagjöf og oft sóma þær sér vel í hillu, hvort sem þær eru lesnar eða ekki. Íslendingar álíta sig mikla bókaþjóð og eru oft stoltir af heima-bókasöfnunum sínum. Þetta getur þó farið út í þvílíkar öfgar, að ég hef heyrt þess dæmi að fólk fari til fornmunasala og biðji um hálfan meter af rauðum bókum ;)
En aðalmunurinn á harðspjalda bók og kilju er þó verðið. Kiljur geta verið allt að helmingi ódýrari. Af hverju eru bækur þá ekki gefnar út í kiljum? Jú, eins og sagt var að ofan, þykir fínt að fá bók í jólagjöf og þá sérstaklega fallega bók sem sómir sér vel í hillu. Fólk fer heldur ekki að spara á sínum nánustu og er alveg til í að eyða miklu í jólagjafabækur. En mér blöskrar þetta. Það er ekki eðlilegt að bók kosti yfir 4000 krónur! Útlenskar kiljur kosta nokkur hundruð krónur eða um þúsundið. Auðvitað fer einhver peningur í að borga þýðandanum, en ekki mikill (veit það af eigin raun). Og svo finnst mér einfaldlega þægilegra að lesa bók í mjúkri kápu. Hún er léttari, meðfærilegri og betri í handtöskuna eða ferðalagið. Ferðalangar erlendis skiptast oft á bókum. Erlendis eru bækur metnar út frá innihaldinu en ekki kápunni…
Mér finnst því að það ætti að gefa út meira af kiljum á Íslandi, svo að ég hefði loksins efni á að kaupa mér bækur. Og þá ekki til að hafa þær uppi í hillu, heldur til að lesa.