Í þessari grein langar mig skrifa nokkrar hugleiðingar um bókina Frankenstein eftir Mary Wallstonecraft Shelley. Þessi fræga saga kom út í fyrsta skipti óstytt á íslensku í fyrra í þýðingu Böðvars Guðmundssonar.

19. aldar skáldsögur: Frankenstein og Dracula
Þegar ég loksins lét verða af því að lesa Frankenstein hafði ég ekki mjög háar væntingar. Þær réðust af reynslu minni af því að lesa Dracula eftir Bram Stoker fyrir nokkrum árum óstytta á ensku. Í huga mínum eru þessar bækur nokkuð tengdar í gegnum það að vera með frægustu hryllingssögum sögunnar. Reyndar er nokkuð lengra á milli þess að þær eru skrifaðar en ég hélt. Frankenstein var fyrst gefin út 1818 en Dracula ekki fyrr en 1897.
Ég hélt líka að Frankenstein væri eins byggð upp Dracula, það er á bréfaskriftum á milli sögupersónanna. Það form fannst mér nokkuð þreytandi til lengdar. Frankenstein byggist vissulega á bréfaskriftum en þó ekki á eins þreytandi hátt og í Dracula. Einnig var viðbúin því að sagan væri jafn langdregin og sagan um vampíruna frægu en mér til ánægju var það ekki tilfellið. Vissulega er framvinda sögunnar og frásögnin ekkert í líkingu við nútíma spennusögur og eflaust væri hægt að stytta hana nokkuð af orðagjálfri og gera orðalag hennar hnitmiðaðra og skuggalegra en við það myndi mikill hluti töfra hennar, sem felast meðal annasr í aldri sögunnar, glatast.

Höfundurinn
Mary Wollstonecraft Shelley var fædd í Englandi 1797. Hún var dóttir heimspekingsins Williams Godwin og kvennréttindabaráttukonunnar Mary Wollstonecraft, en hún lést skömmu eftir fæðingu dótturinnar. Hin unga Mary byrjaði snemma að lesa mikið og lék sér að því að búa til sögur. Frægir heimspekingar, rithöfundar og ljóðskáld voru fastagestir á heimili hennar og voru miklar vonir bundnir við hana. Þegar hún var 16 ára gömul hljópst hún að heiman með ljóðskáldinu Percey Shelley þótt hann væri þegar giftur. Þau bjuggu sér heimili á Ítalíu og ferðuðust mikið um Evrópu þangað til Percey drukkanði þegar Mary var 24 ára. Þá flutti hún aftur til Englands og starfaði sem rithöfundur þar til hún sjálf lést árið 1851.

Söguþráðurinn
Frankenstein eða hinn nýji Prómóþeus segir frá hinum unga og kappsfulla námsmanni Viktor Frankenstein sem ofmetnast í tilraunum sínum í náttúruspeki og hefur það að takmarki að kvikja líf í heimatilbúnum líkama. Honum tekst ætlunarverk sitt og sköpunarverk hans hræðilegt ásýndar, svo hræðilegt að hann sjálfur yfirgefur það, en það hefur hræðilegar afleiðingar fyrir hann.

Hryllingssagan
Í formálum bókarinnar segja Mary Shelleyog Percey eiginmaður hennar frá því hvernig sagan varð til. Kringumstæðurnar voru þær að þau hjónin voru í sumarhúsi í Sviss eitt kalt og blautt sumar með vinafólki, þar á meðan ljóðskáldinu fræga Byron lávarði. Styttu þau sér stundir með því að lesa draugasögur og eitt sinn var efnt til keppni um hvert þeirra gæti skrifað bestu draugasöguna. Mary reyndist erfitt að finna efni í sína sögu. Hugmyndin um ungan námsmann sem myndi skapa skelfilega lifandi veru laust niður í huga hennar eftir að hafa hlustað á samræður eiginmanns sýns og Byrons lávarðar um kenningar Charles Darwins og hvernig líf kviknaði (Sjálfslífskviknunarkenningin var ekki afsönnuð fyrr en um miðja 19. öldina). Þegar upp var staðið var þetta eina frumsamda draugasagan sem var kláruð.

Hver er skrímslið?
Fyrir þá sem ekki vita þá er Frankenstein skaparinn en ekki sköpunin þótt í kvikmyndum og öðrum miðlum sé búið að yfirfæra nafnið á skepnuna sem Viktor Frankenstein skapaði.
Ég hef reyndar aldrei séð neina bíómynd um skrímslið Frankenstein miðað við það sem ég hef séð af brotum og heyrt er í þeim skrímslið nokkuð öðruvísi en í bókinni. Í lesandinn verður að taka afstöðu til þess hver sé skrímslið: Frankenstein, veran sem hann skapar, báðir eða hvorugur.
Nokkur rök eru færð fyrir því að sagan sé varnaðarsaga. Hún er skrifuð á tímum hraðra framfara í tækni í vísindum og að Shelley hafi viljað vara við þeim hræðilegu afleiðingum sem of mikill metnaður mannsins á vísindasviðinu gæti haft. Frankenstein ofmetnast í fróðleiksfýsn sinni og tekur sér guðsvald með því að skapa lifandi veru sem hann síðan snýr baki við.
Veran sem er sköpuð er ekki sköpuð vond. Hún er heldur ekki stirð, klaufaleg og ómálga eins og staðalmyndin í höfði mér segir, heldur er fim, lærir að tala og vitnar meðal annars í Paradísarmissi Miltons og heimspekileg sagfræðirit í tali sínu. Skrímslið þráir að tilheyra samfélagi og njóta ástar. Það er hræðsla mannanna við skelfilegt útlit þess sem kveikir í því hatrið og hefndarþorstann sem leiða til voðaverka.

Íslenska útgáfan
Ekkert er út á þessa íslensku útgáfu frá JPV að setja og finnst mér það gott framtak að gefa út svona klassískar bókmenntir, sérstaklega ef þær hafa ekki komið út áður í óstyttri útgáfu á íslensku. Bókin er myndskreitt með tréristum eftir listamann að nafni Lynd Ward sem eru mjög skemmtilegar. Einnig fannst mér sérstaklega athyglisvert og hjálplegt að settar eru inn neðanmálsgreinar til að útskýra fjölmargar vísanir sem eru í textanum í hinar og þessar bækur sem sennilega hafa verið staðallesning fyrir breskt efristéttarfólk á 19. öld en eru ekki endilega almannavitneskja á Íslandi á 21. öld.

Álit
Mér fannst bókin skemmtileg. Hún er ekki eins og spennu eða hryllingssögur í dag. Maður iðar ekki af spennu yfir atburðarásinni þótt hún haldi vel athygli manns. Að því leyti sver sagan sig í ætt við bókmenntir á borð við þær sem Jane Austen skrifaði þótt efnistökin séu allt annars eðlis. Ég nú ekki mikill aðdáandi hryllingsmynda eða bókmennta en er ekkert ofurviðkvæm heldur. Mér fannst sagan hryllilegri en ég bjóst við og lá við að smá hrollur færi um mig á nokkrum stöðum. Ég mæli með henni bókinni en hafa verður í huga hvað hún er: Klassískt bókmenntaverk frá byrjun 19. aldarinnar.

Heimildir
Shelley, Mary Wollstonecraft. (2006). Frankenstein, eða hinn nýji Prómóþeus. Þýðing: Böðvar Guðmundsson. Reykjavík: JPV.

Wikipedia. (2007, 26. maí). Frankenstein. Sótt 26. maí 2007 af http://en.wikipedia.org/wiki/Frankenstein

Wikipedia. (2007, 26. maí). Dracula. Sótt 26. maí 2007 af http://en.wikipedia.org/wiki/Dracula

Wikipedia. (2007, 25. maí). Louis Pasteur. Sótt 26. maí 2007 af http://en.wikipedia.org/wiki/Pasteur#Germ_theory
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.