Þið getið ekki ímyndað ykkur gleði mína þegar ég kíkti í póstkassann í morgun, Bókatíðindin eru komin!!! Ég las þau af áfergju eins og vanalega. Fullt af spennandi bókum að koma út.
Af barnabókun finnst mér bera hæst Páll Vilhjálmsson eftir Guðrúnu Helgadóttur, sem er loksins að koma út aftur. Hún er búin að vera ófáanleg árum saman, snilldar bók. Svo er búið að þýða Skaðræðisskepnur eftir Roald Dahl, einn af mínum uppáhalds höfundum.
Ég get ekki sagt að ég sé mikill aðdáandi Vigdísar Grímsdóttur. Reyndar fannst mér Grandavegurinn góð bók, en hinar tvær sem ég hef lesið, Ísbjörg og Z ástarsaga, voru heldur slappar. Engu að síður er ég spennt fyrir nýju bókinni hennar, Frá ljósi til ljóss. Úlfhildur Dagsdóttir gaf henni góða dóma í Kastljósinu og henni er nú yfirleitt hægt að treysta. Hún sagði að í þessari bók væri Vigdís aftur komin í stuð eftir dálitla lægð.
Eins vekur Jöklaleikhúsið eftir Steinunni Sigurðardóttur athygli, því efnið er áhugavert. Hún fjallar um samfélagið á Papeyri, leikfélagið þar ætlar að setja upp Kirsuberjagarðinn eftir Tsjekhov með karlmenn í öllum hlutverkum, furðuleg hugmynd það!
Nýjasta bók Einars Kárasonar heitir Óvinafagnaður. Hún fjallar um Þórð kakala og alla hina karlana á Sturlungaöld, að mínu mati skemmtilegasta tíma Íslandssögunnar. Það verður spennandi að sjá hvernig hann vinnur úr þessu efni.
Af fræðibókum get ég nefnt Frá hetjukvæðum til helgisagna eftir Heimi Pálsson. Hún fjallar um íslenskar miðaldabókmenntir og í henni er líka skrá yfir aðal Íslendindingasögurnar, kort, myndir og fleira skemmtilegt.
Óskalistinn minn er orðinn ansi langur! Ef ég ætti að velja EINA bók sem ég gjörsamlega VERÐ að eignast yrði það seinni hlutinn af ævisögu Steins Steinarr eftir Gylfa Gröndal. Steinn er uppáhalds ljóðskáldið mitt og fyrra bindið af ævisögunni, sem kom út í fyrra, var mjög skemmtilegt og vel unnið.

Hvaða bækur vekja athygli ykkar og hvað fer á óskalistann? Látið nú í ykkur heyra, þetta áhugamál er alltof slappt!!!