Mio, min Mio Ég var að enda við að klára bók. Önnur bókin sem ég les á sænsku og báðar eru eftir uppáhalds höfundinn minn, Astrid Lindgren.

Ég man eftir því þegar ég heyrði um Elsku Míó minn í fyrsta skipti. Ég var með stóra sögubók með köflum úr bókum Astrid Lindgren og mamma mín sagði að ég ætti að lesa Elsku Míó minn. Eftir það var ekki aftur snúið. Ég var ekki mikill lestrarhestur þegar ég var lítil, lærði seint að lesa og vildi ekki lesa, en eftir þetta las ég bara bækur eftir Astrid Lindgren og þetta var uppáhalds bókin mín í mörg, mörg ár. Ég hef líklega lesið þessa bók 10 sinnum síðan, og í hvert skipti upplifi ég hana öðruvísi. Það er nefnilega þannig að maður þroskast og sér mismunandi hliðar á bókum. Þess vegna mæli ég með því að fólk lesi barnabækur aftur.

Um daginn rakst ég á bók á bókasafninu. Þar var komin Bróðir minn Ljónshjarta, eða Brödrena Lejonhjärta á sænsku. Þar sem mig hefur alltaf langað að læra sænsku og ég veit líka að bækur eru bestar upprunalegar, ákvað ég að prófa að lesa bókina. Mér fannst hún æðisleg, enda er þetta mjög fallegt ævintýri, og ennþá fallegri á sænsku! Svo að ég reyndi að finna Elsku Míó minn, af því hún hefur alltaf verið í uppáhaldi. Ég fékk vinkonu mína til að kaupa hana þegar hún var úti í Svíþjóð og var svo að klára að lesa hana fyrir stuttu.

Ég ætla þess vegna að skrifa aðeins um þessa bók. Fyrirgefið að ég skrifa sum nöfn og tilvitnanir á sænsku því ég man ekki alltaf íslensku þýðinguna og hef bókina ekki hjá mér.

Míó, eða Bo Vilhelm Olsson, var munaðarlaus strákur sem bjó hjá fósturforeldrum sínum, sem var ekki alltof vel við hann. Þau hefðu frekar viljað fá stelpu. Þau sögðu honum að mamma hans hefði dáið við fæðingu og að pabbi hans væri örugglega bara einhver auli. Einn daginn var fór hann út í bakarí, settist svo á bekk í garðinum og fann anda í flösku. Þá komst hann að því að pabbi hans var ekki bara einhver kall úti í bæ, heldur Konungurinn í Landinu í fjarskanum …

Hann ferðaðist gegnum dag og nótt með andanum og loksins kom hann til Landsins í fjarskanum. Faðir hans átti fallegan rósagarð með silfurtrjám sem spiluðu í vindinum. Míó fékk fallega hestinn Miramis og eignaðist nýjan vin, Jum-Jum. Þeir léku sér alla daga, byggðu trjákofa í rósagarðinum, fóru í feluleik eða útreiðatúra á Miramis. Þeir hitta allskonar fólk og allt er eins og í ævintýrum. Nonno er smali sem sefur úti á næturnar, kveikir bál og spilar á flautuna sína en hjá ömmu hans smakka þeir Brauðið sem sæðir hungur og drekka úr Brunninum sem slökkvir þorsta. Jiri og systkini hans eiga brunn sem hvíslar á kvöldin gömul ævintýri. Smám saman kemst Míó að því að hans bíður stórt hlutverk. Allir vita það, allir hafa vitað það í þúsund og þúsund ár. Lagið sem smalarnir spila er um það. Trén hvísla það á milli sín. Brunnurinn sem hvíslar á kvöldin segir söguna af því. Míó þarf að drepa riddarann Kató.


Mér finnst þetta mjög fallega skrifuð bók. Þetta er auðvitað barnabók og þess vegna er hún skrifuð þannig, hreinskilin og einföld. Það sem ég er nýlega búin að taka eftir í stílnum eru allar endurtekningarnar. Það er ekki verið að flækja neitt með því að orða allt öðruvísi. Persónur eru alltaf kallaðar það sama og nokkrir frasar koma aftur og aftur. Þetta er eitt af því sem mér finnst mest heillandi við bókina.

Eitt dæmi um þessar endurtekningar er það að Jum-Jum segir alltaf annað slagið: “Ef við værum ekki svona litlir og einmana”. Þetta kemur alltaf þegar þeir eru hræddir og eru að ferðast. Fyrst þegar þeir fara inn í land Katós, svo þegar þeir labba gegnum Dauðaskóg, næst inni í helli sverðsmiðsins og síðast í kastala Katós. Á sænsku er þetta (bls. 86):

“Om inte vägen vore så mörk ändå”, sa Jum-Jum. “Om inte bergen vore så svarta och om vi inte vore så små og ensamma”

Annað dæmi er þegar Míó er alveg að gefast upp. Hann misst Miramis, hann týndi Jum-Jum og hann var hræddur og einmana. Þá hugsaði hann um föður sinn konunginn og fannst hann heyra hann segja “Elsku Míó minn”, eða “Mio, min Mio” á sænsku. Þá varð hann hugrakkur aftur og hélt áfram.

Eitt dæmi í viðbót er að allt slæmt sem þeir sjá er eins og í einhverri martröð. Vatnið hjá kastala Katós, hellir sversmiðsins, dauðaskógurinn og kastali Katós voru allt eins og martröð. Í bókinni stendur (á bls. 139):

I drömmen gick jäg ibland i mörka hus som jag inte kände. Okända, mörka förfärliga hus. Där var svarta rum som stängde sig till svarta djup just där jag skulle gå, og trappor som störtade samman så att jag föll. Men inget hus i drömmen var så förfärligt som riddar Katos borg.


Það fallegasta við þessa sögu er auðvitað að þetta er baráttan milli góðs og ills. Landið í fjarskanum er ævintýraland, þarna er allt fullkomið. En svo kemst maður að því að það er ekki allt landið eins og það ríkir mikil sorg. Í ævintýrum þarf alltaf að vera eitthvað sorglegt líka. Vináttan kemur líka mikið fram því það eina sem kemur Míó áfram allan þennan tíma er að hann hefur Jum-Jum, besta vin sinn í öllum heiminum.

Þetta er einfalt og hrífandi ævintýri sem hefur alltaf fallið í skuggann af bókinni Bróðir minn Ljónshjarta. Það er auðvitað líka mjög fallegt ævintýri en ég mæli með því að allir lesi báðar þessar bækur. Það skiptir ekki máli á hvaða aldri maður er. Barnabækur eru ekki bara fyrir börn, þær eru fyrir í barnið í okkur öllum.Vi gick där och höll varann i hand, min fader konungen och jag, och svängde lite med armarna, och min fader konungen tittade på mig och småskrattade och jag tittade upp på honom och kände mig så glad.
“Mio, min Mio”, sa min fader konungen
Inget mer.
“Mio, min Mio”