Gagnrýni um Kvenspæjarastofu númer eitt Texti á kápu
Precious Ramotswe er slyngasti kvenspæjarinn í Botsvana og jafnvel þótt víðar væri leitað um gjörvalla Afríku. Hún er hyggin og úrræðagóð og með góðri hjálp vinar síns herra J.L.B Matekoni ásamt traustri handbók um spæjarastörf, mikilli mannþekkingu og ærnu brjóstviti leysir hún fjölbreytilegustu mál sem fólk leitar til hennar með: horfnir eiginmenn finnast, börn koma í leitirnar og svikahrappar fá makleg málagjöld.

Alexander McCall Smith er fæddur í Zimbabve í Afríku, en er nú prófessor í lögfræði við Edinborgarháskóla. Hann hefur skrifað fjölda bóka um margvísileg málefni, en bókaflokkur hans um Kvenspæjarastofuna hefur slegið í gegn um allan heim, enda hafa þær bækur að geyma sjaldgæfa blöndu af spennu, gamansemi og mannúð.


Það virðist sem að í hvert sinn sem að bók fær ótrúlega góða dóma, þá forðist ég hana sem heitan eldinn þar til að bókinni hefur verið velt úr stalli af annarri sem sögð er jafn dásamleg ef ekki betri er tekin við. Þá fyrst tek ég upp á því að byrja lesa og skoða hana með gagnrýnum og opnum huga. Ég reyni að láta ekki gagnrýnina sem hún hefur fengið áður blinda mig og ræðst af offorsi á hana, þar til eftir fyrsta kafla. Þá hefur bókin venjulega fangað mig og ég sé að öll hennar lof voru réttanleg. Því var eins farið með þessa bók sem flestir gagnrýnendur gátu varla haldið vatni yfir.
Ég varð hreinlega ástfangin af þessari bók og gleypti sjáfstæða framhaldið sem á eftir henni kom jafn auðveldlega. En hvað var það sem heillaði mig svo mikið við þessa bók?

Til að byrja með voru lýsingarnar á afríska landslaginu til hreinnar fyrirmyndar og afar trúverðugt enda stendur aftan á bókinni að höfundurinn hafi átt sín uppeldisár í Afríku. Húsið hennar Mma Ramotswe var alveg ljóslifandi fyrir mér og á meðan lestrinum stóð dreymdi mig um að fara til Afríku og sjá allt þetta stórkostlega landslag. Akasíu-, þyrnitrén og allt mikilfengna dýralífið sem við erum óvön á Vesturlöndum. Það er því hrein upplifun að lesa þessa bók. Að vísu var það efst huga mér að það væri ekki alls kostar allt stórglæsilegt í Afríku enda kom það einnig fram í sögunni hans McCall um einkaspæjarann Mma Ramotswe. Það virtist bara sem að Botsvana, heimaland Mma Ramotswe væri allt öðruvísi heldur en flest Afríkulöndin. Það var sem allt væri í góðu jafnvægi þar fyrir utan þau mál sem komu til kasta einkaspæjarans.

Höfundurinn vissi upp á hár hvað Mma Ramotswe borðaði á hverjum degi og hvernig hún eldaði það. Oft á tíðum gat það þó verið svolítið þreytandi að lesa um matseld hennar og minnti það einna helst á matreiðslubók en í annarri bókinni skrifaði höfundurinn þær lýsingar á meðan samtölum stóð og varð því ekki eins áberandi og maður hefði haldið.

Flest öll málin sem hún fékk höfðu á sér skemmtilegan hversdagslegan blæ og gerði því bókina enn trúverðugri. Það er samt alltaf eitt mál sem hún rannsakar samhliða hinum. Það er oftast í óhuggulegri kantinum og það erfiðasta af þeim öllum. En engu að síður er til farsæl lausn á þeim öllum. Bókin skilur mann því eftir með vellíðan og ekki spillir fyrir að í bókunum fylgir alltaf með fyrsti kafli úr næstu bók. Það sem greinir bókina einna helsta frá hinum dæmigerðu sakamálasögum, er að hún skuli gerast í öðrum menningarheimi og að Mma Ramotswe leysi málin alltaf með mannúðlegri lausn og siðfræðin skiptir því miklu máli í lausn þeirra.

Þær persónur bókaflokksins sem koma fyrir í hverri bók hafa allar ákveðinn sjarma. Þar ber fyrst að nefna J.L. Matekoni vinalega og trygga bifvélavirkjann sem leggur henni lið í spæjarstörfunum en er samt sem áður ekki hrifinn af hasarnum sem fylgir því oft á tíðum. Hann vill helst bara vera í friði með vélunum sínum en myndi gera allt fyrir Mma Ramotswe og Mma Makutsi eldklára, metnaðarfulla, trygga ritarann hennar sem hefur verið með henni frá byrjun. Það er einnnig ein persóna til viðbótar sem hefur mikil áhrif á Mma Ramotswe og það er faðir hennar heitinn, Obed Ramotswe. Hann studdi hana í einu og öllu sem hún gerði, þótt hann væri ekki alltaf sammála gjörðum hennar. Eins og í máli fyrrverandi eiginmanns hennar og hvað hún huggðist ætla að gera með arfinn. Hún stofnaði Kvenspæjarstofu númer eitt með arðinum af sölunni af búpeningi föður síns. Lögfræðingur hennar var heldur ekki ánægður með þá ráðstefnu þar sem hann trúði ekki á að konur gætu orðið spæjarar. Eftir töluvert þref sló Mma Ramotswe botninn í samtalið með að segja:

,,Þannig að,”sagði Mma Ramotswe, ,,þegar fólk sér skilti sem á stendur Kvenspæjarstofa nr.1, hvað ætli það hugsi? Það hugsar með sér að þessar kvensur viti hvað er í gangi. Það eru þær sem vita það.” (Bls 58).

Það sem er líka einna skemmtilegast við bókin er að höfundurinn sem sjálfur er prófessor við lögfræði í Edinborgarskóla, skuli gera óspart grín af lögfræðingum. Einnig tók hann til umfjöllunar fordóma um alla mögulega hluti. Sem dæmi má nefna í samtali milli Mma Ramotswe og Mma Makutsi um hvernig hvítingjar heilsist og taki á móti gjöfum. Þeim fannst undarlegt að hugsa til þess að þeir tækju við gjöfum með aðeins annarri hendi og heilsuðust einnig þannig. Rétt eins og þeir vildu hrifsa til sín gjafarinnar og heilsa aðeins með hálfum huga. Afríkubúar heilsa nefnilega og taka við gjöfum með tveim höndum. Við erum því ekki ein um að þykja annara siðir undarlegir. Húmorinn er því stór hluti bókarinnar ásamt mannúðinni.

Í fyrstu bókinni, sem er hér til umfjöllunnar mátti greina vott af stirðleika í fyrstu köflunum og má það eflaust rekja til þess að höfundurinn vissi ekki hvernig lesendur myndu taka henni Mma Ramotswe. Þann striðleika er ekki finna í annarri bókinn, þá hefur nefnilega fyrsta bókin slegið í gegn og höfundur veit upp á hár að það sem hann er að gera virkar. Ég verð samt að viðurkenna sem lesandi og nú sem einlægur aðdáandi bókaflokksins, þá féll hún Mma Ramotswe ekki í kramið hjá mér til þess að byrja með. Að mínu mati var hún of fullkomin en þannig persónur hafa oftast verið í minnstu metum hjá mér. En um leið og ég sá hvernig hún hafði orðið svona fullkomin og viss í sínum gerðum, féll ég fyrir henni undir eins (á platónskan hátt að sjálfsögðu). Þetta öryggi hafði hún öðlast gegnum reynslu enda ekki jafn mikið unglamb í bókinni eins og ég hafði talið í fyrstu. Þvert á móti var hún orðin miðaldra og komin með mikla lífsreynslu nú þegar, þar sem hennar fyrsta samband var ólukkulegra en það leit út fyrir að vera í fyrstu. Það sem var líka svolítið þreytandi til lengdar var predikunartóninn sem kom alltof áberandi fram. Í seinni bókinni rétt eins og með matseldina hefur höfundurinn falið tóninn á milli línanna en hendir ekki ádeilunni framan í mann eins og votri tusku, eins og reyndin var með í þeirri fyrstu. En engu á síður á hún afar vel við. Höfundurinn tekur um púlsinn á Afríku og sýnir lesendum bókarinnar hennar bestu og verstu hliðar. Enda kemst Mma Ramotswe ekki hjá því að taka eftir allri þjáningunni í kringum sig, vegna starfs hennar og eigin góðmennsku.

,,Það var svo mikið um þjáningu í Afríku að það var freistandi að bara yppta öxlum og labba í burtu. En maður getur ekki gert það, hugsaði hún. Bara getur það ekki. (Bls 212)

Ég vildi að ég gæti gefið henni fimm stjörnur en að mínu mati er bókin sem á eftir fylgir ennþá betri heldur en sú fyrri jafnvel þótt að sú fyrri sé einnig yndisleg. Ein af fáum bókum sem hefur skilið mig eftir með bros á vör.


Þess má geta að ég hef áður birt þessa sömu gagnrýni á www.rithringur.is ef hún kemur einhverjum kunnuglega fyrir sjónir.
Rosa Novella