Böddi og samfélagið Kjörbókarritgerð sem ég vann um bókina Rokland

Böðvar H. Steingrímsson er fullorðinn maður sem snýr aftur til æskuheimilis síns á Suaðárkróki. Hann býr þar í kjallara hjá móður sinni í húsi sem nefnt er Rokland. Hann hefur óbeit á nánast öllu sem honum þykir ekki þjóna neinum tilgangi. Hann tjáir skoðanir sínar og hugmyndir á blogg síðu sem hann heldur á veraldarvefnum
Í bókinni er að höfundur ekkert að hlífa lesendum fyrir bláköldum sannleikanum um kapítalisma og forritaðan hugsunarhátt þjóðfélagsþegna á Íslandi.
Hverjar eru helstu ástæður þess að Böddi passar ekki inn í samfélagið?
Böddi er utangarðsmaður og hugsun hans er ekki lík hugsunum neinna á hans heimaslóðum. Hann hugsar allt í heildarmynd og á erfitt með að lifa í “núinu”, nema þegar reiðin tekur völdin. Þá verða gjörðir hans oftar en ekki vanhugsaðar og grófar.
Hann tók þybbinn drenginn tveimur einföldum handtökum og reif hann organdi með sér út í sjóinn (bls 160)Hér reitti umtalaður drengur Böðvar til reiðis og áður en hann vissi af var hann byrjaður að dýfa drengnum ofan í ískaldann sjó. Böðvar er með mikið skap og það lokar fyrir rökrétta og skýra hugsun.

Böddi fyrirlítur alla sem hugsa ekki. Hann þolir ekki fólk sem gerir aðeins það sem ættlast er til af því og fylgir straumnum. Fólk sem lætur undan áróðri auglýsinga og fjölmiðla, fólk sem lifir óupplýst og játkast öllu sem því er sagt. Umfram allt fyrirlítur hann sjónvarpsgláp, innfluttar matarvenjur og offitu.
Einu sinni var Albert. Albert var feitur kall. Hann átti feita konu og saman bjuggu þau í feitu húsi norður á Kjötkróki. Trén í garðinum voru öll samt frekar mjó. Frú Albert var ekki ánægð með það. Hún vildi hafa feitt í kringum sig og vökvaði trén með kóki á hverju kvöldi. Þau fitnuðu samt ekkert við það. (bls 58)
Böðvar kemur hér með ýkta dæmissögu þar sem hann lýsir því hvernig hinn almenni Íslendingur hagar sér. Ástæða þess að hann fyrirlítur þetta fólk er líklegast sú að hann hefur aldrei verið einn af þeim. Á meðan aðrir krakkar voru úti var hann heima hjá sér að lesa bækur eftir menn á borð við Nietzche, sem hann virðist vera gagntekinn af.
Böddi hefur mikið á móti þjóðfélaginu. Hann telur það setja einstaklingum óréttlát mörk sem ekki má brjóta í bága við. Honum finnst einstaklingurinn ekki hafa það frelsi sem hann á skilið og sé beinlínis neyddur til að gera það sem þjóðfélagið sé búið að ákveða
,,Við sitjum föst í þessu helvítis þjóðfélagi bundin í öryggisbelti. Neyðumst til að taka þátt. Pínd til að vera með. Við meigum ekki einu sinni standa upp og mótmæla.” (bls 112).
,,Þjóðfélag er partý sem þú getur ekki yfirgefið. Þú ert alltaf í því. Stökk í þessu drullufúla helvítis partýi” (bls114).
Bödda finnst greinilega þörf fyrir byltingu í þjóðfélaginu. Gjörðir hans verða hins vegar afar öfgafullar og fyrir vikið er hann álitinn alvarlega geðveikur.
,,Það þarf að breyta þessu. Ég er ekki ánægður með þetta eins og þetta er. Þetta helvítis þjóðfélag, það er…”(bls 387).
Maður sem sér það samfélag sem hann býr í í svo vondu ljósi getur ekki passað vel inn í það. Hann er talinn bitur persónuleiki sem kvartar yfir öllu og er aldrei sammála neinum.
Böddi hefur mikla þörf fyrir að tjá sig um hin ýmsu málefni. Það gerir hann með því að halda uppi bloggsíðu. Mikill partur af bókinni eru vitnanir í bloggsíðuna hans www.rokland.blogspot.com. Þess má geta að þessa bloggsíðu er hægt að nálgast á veraldarvefnum undir sama veffangi. ,,Veraldarvefurinn er hinn mikli neðanmálstexti við líf okkar” skrifaði BHS í sínu fyrsta bloggi (bls 64). Skrif böðvars á vefnum fara misvel í fólk og koma honum jafnvel stundum í vandræði. ,,Ertu genginn af göflunum? Viltu taka þetta útaf síðunni. Og það strax!”(bls 61). Þetta sagði Dagga þegar hann skrifaði um foreldra hennar. Böðvari er samt ekki sama þegar fólk reynir að stjórna gjörðum hans en lét þó undan í þetta skipti og þar með kemst Dagga upp með að ritskoða bloggsíðuna hans. Hugsanir hans hafa honum óaðvitandi komið fram í dagblaði sem gefur til kynna að einhverju fólki þykir hann hafa haft eitthvað til síns máls eða þykir eitthvað spaugilegt við biturleika hans við veröldina.
Í bókinni ræðir Böddi um álit sitt á ást og kynlífi. Hann virðist óánægður með að ráða ekki við þessar grunnhvatir og hafa ekki stjórn á þeim. Það er líkt og hann telji sig yfir grunnþarfir mannsins hafinn. Hann lýsir kynlífi í einu af bloggum sínum á þessa leið: ,,Kynlíf er Hitler. Það byrjar með innrás og endar í dimmum bönker”(bls 114). Hann lýsir einnig ást í álíka samhengi. ,,Ef kynlíf er Hitler er ástin Bush: Yfirborðskennd, heimsk og full af mismælum. En ræður samt öllu” (bls 236). Í jafn kynlífsvæddu samfélagi og raun ber vitni um hér á landi passar þetta hugarfar ekki vel inn og gæti hafa valdið því að Böddi fjarlægðist kvenþjóðina smátt og smátt. Einnig ber vott um kvenfyrirlitningu hjá honum, einna helst þá fyrir þann hóp kvenna sem hann kallar ,,brúnkur”(bls31), en þessa fyrilitningu virðist hann hafa frá Nietzche. Þrátt fyrir tilraunir hans til að bæla niður þessar tilfinningar eru þær ein af helstu einkennum hans og hann verður maður sem vatnar ást og þráir ást án þess að vilja það. Hann er yfir sig ástfanginn af Láru Maríu en hann áttar sig ekki á að það er einungis líkamleg fegurð hennar og ýmindin sem hann er búinn að mynda sér af henni sem hann elskar. Hann áttar sig ekki á því að hann er búinn að búa sér til sinn drauma kvennmann úr henni.
Ástæður fyrir hinni fræknu Reykjavíkurferð hans á hestbaki eru líklegast tvær. Annarsvegar hafði hann engu að tapa. Hann var búinn að missa allt sem honum þótti vænt um sem og vonina um að finna lífshamingjuna.
Á rúmu ári hafði hann misst starfið, móður sína, ástina, heimili sitt og nú ungan son og barnsmóður – hugsanlega sambýliskonu.
Og var nú við það að missa móðinn (bls 297)

Hann hafði ekkert til að lifa fyrir lengur og fór því yfir um. Hinsvegar var það þörf hans fyrir byltingu. Hann þoldi ekki hvernig samfélagið var orðið. ,, Þið eruð aumingjar. Tómir helvítis hryggleisingjar. Hryggleisingjar og bitleisingjar. Hvað eruð þið að hugsa? Ekkert. Þið eruð ekki að hugsa neitt, nema um næstu pulsu og næsta smók, næstu mynd og næstu kók.” (bls 385).

Þegar á heildina er litið sést að aðal ástæða þessa að Böddi passar ekki inn í samfélagið eru neikvæðar hugsanir hans í garð flestra. Það fyrsta sem hann hugsar þegar hann sér fólk er alltaf það neikvæða við það til dæmis fita, útreiknanleg hegðun og metnaðarleysi. Það verður til þess að hann hættir ekki að hugsa neikvæðar hugsanir og það getur haft virkilega eyðileggjandi áhrif á hegðun og persónuleika fólks. Eins og hann er vel gefinn og bráðgáfaður maður, útlærður og með miklar heimspekilegar pælingar er eins og það komi ekki heim og saman við persónuleika hans.
Eins og segir á kápu bókarinnar þá er hann of gáfaður fyrir Krókinn. Of reiður fyrir Reykjavík. Of hreinskilinn fyrir Ísland.