Mér datt í hug að hefja netlíf mitt hérna á hugi.is með að benda á ansi skemmtilegt þríeyki (trilogy) í vísindaskáldsögugeiranum.
Uplift þrenningin eftir breska höfundinn David Brin er einkar vel heppnuð sería þar sem rakin er saga mannkyns á næstu árþúsundum. Brin er fær sögumaður og honum tekst það sem fáum höfundum innan geirans hefur tekist hingað til; að búa til trúverðugar geimverur og fjalla á skemmtilegan hátt um samskipti manna og annara tegunda.
Án þess að gefa upp of mikið um efni bókanna er þemað að mannkynið hefur náð sambandi við vitsmunaverur frá öðrum hnöttum og hafa verið vígðir inn (þó ekki vandræðalaust) í samfélag mörg hundruð tegunda sem hegða sér helst eins og furstadæmi á endurreisnartímanum, þeas í sífelldum bandalögum, styrjöldum, svikum og samningum. Brin hefur hér mannkynið í hlutverki drambsama yngsta sonarins, sem hræðist ekkert en á kannski ekki við fyrstu sýn mikla möguleika. Mennirnir ná samt að klóra sig áfram í gegnum bækurnar þrjár og áður en maður veit eru þeir í aðalhlutverki í atburðum sem hafa munu áhrif um geiminn allan.
Brin er einn fyrsti SF höfundurinn sem ég hef lesið sem týnir sér ekki í tæknilegu blaðri og ólikt kollegum sínum kann hann að skapa áhugaverðar persónur og spennandi söguþráð.
Ég ætla í raun ekki að fjalla um söguþráð bókanna en fannst að í þakkarskyni fyrir ánægjuna af að lesa verk Brin ætti ég að breiða út fagnaðarboðskapinn… góða skemmtun.

Bækurnar eru: Sundiver, Startide Rising, The Uplift War

Rétt er að nefna að Brin er einnig höfundur hinnar afleitu The Postman og ofurdoðrantsins Earth (þar sem hann er jafnvel leiðinlegri en Asimov sjálfur) en hann hefur greinilega þroskast gífurlega sem penni frá því hann skrifaði þær.
______________________________