Black Hawk Down Black Hawk Down er skrifuð af blaðamanninum Mark Bowden. Bókinni er ætlað að segja frá bardaga sem bandarískir hermenn lentu í við innfædda í Mogadishu í Sómalíu árið 1993.

Þakkarsamlega tekst höfundinum ágætlega að setja atburði í söguform sem flæðir að mestu án mikilla hnökra svo efni bókarinnar verður eins og frásögn en ekki sagnfræðikennsla. Þannig fáum við að sjá atburðina í þessum stærsta skotbardaga á jörðu niðri sem bandarískir hermenn hafa lent í síðan í Víetnam bæði frá persónulegu sjónarhorni hermannanna og sómalana sem voru á staðnum.

Það hefur verið sagt af mönnum sem til þekkja að þessi bók sé ein besta heimild um nútíma hernað. Ég held að það sé rétt, því þó vanþekking höfundar á ýmsu sem viðkemur hernaði sé stundum sjáanleg segir hann okkur á áhrifaríkan máta frá mikilvægum atburðum okkar tíma sem hafa því miður gleymst. Hann hefur augljóslega rannsakað efnið mjög vel og sýnir í enda bókarinnar hverjar heimildirnar eru og má bersýnilega sjá að þetta var stórfellt verk.

Í stuttu máli er söguþráðurinn á þá leið að úrvalssveitir fallhlífaliða hjálpa sérsveitahermönnum að taka í sína vörslu handbendi áhrifamesta “warlords” Sómalíu. Aðgerðin fer fram í björtu í nánd við markaðstorg sem er fullt af fólki. Bandarísku hermennirnir eru studdir af jeppum, trukkum og þyrlum. Skotbardagar hefjast strax og bandaríkjamennirnir síga úr þyrlunum og þrátt fyrir að markmið árásarinnar náist snarlega er ein þyrla skotin niður um það leiti og hefst þá atburðarás sem leiðir til þess að hermennirnir eru fastir í miðri Mogadishu í nær stanslausum 15 tíma skotbardaga.

Þessi bók hafði ákaflega sterk áhrif á mig tilfinningalega. Ég sannfærðist snemma að þarna hefðu bæði Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar gert glappaskot í stefnumótun. Þessi bók byggði upp efasemdir mínar um gildi valdbeitingu í erlendum ríkjum þótt í nafni góðs væri. Samúð mín fór öll til bandarísku hermannanna og sómalanna. Bandarísku hermennirnir höfðu engin ráð nema að skjóta í múg sómala og fella þar með jafnt byssumenn og óvopnaða borgara sem flestir hjálpuðu byssumönnunum með ýmsu móti. Það voru ekki margir saklausir á götum Mogadishu þennan dag. Að sama skapi fann ég fyrir samúð með sómölunum sem brugðust við árás á valdamann í landi sínu. Margir börðust af hugrekki en oft í skjóli á bakvið eða með hjálp óvopnaðra kvenna sem jafnvel báru börn sín í fangi. Hryllingurinn var auðsjáanlegur.

Umfjöllunin í bókinni er að mestu algerlega hlutlaus. Stundum fær maður að finna fyrir þjóðerni rithöfundarins en aldrei svo það skaði bókina í heild.

Á næstunni mun koma bíómynd byggð á bókinni og verður hún framleidd af Jerry Bruckheimer og leikstýrt af Ridley Scott. Ég efast um að myndin geri bókinni né atburðunum þau skil sem þörf er á. Ég mæli sterklega með þessari bók fyrir þá sem vilja vita meira um hvað gerist þegar stríðshundunum er sleppt lausum nú til dags. Stríð hefur aldrei verið fallegt, en það hefur aldrei fyrr verið flóknara og erfiðara en einmitt í dag.

Kíkið á síðuna
http://www.philly.com/packages/somalia/nov16/default16.asp
en þar voru kaflar sem seinna mynduðu bókina birtir ásamt multimedia efni um málið. Myndin meðfylgjandi greininni er tekin þaðan.