Og nóttin leið, þessi nótt, sem var eitt hyldýpi eymdartinnar, þar sem aðeins grillti í trú og von gegnum blóðþykkt myrkrið eins og stjörnur í fjarska, eins og .essa freðnu og glóandi hnetti, sem vorir blindu draumar og döpru sjónir hvarfla um í örvæntingu.

Í þessari grein ætla ég að fjalla nokkuð um upplifun mína við lestur Svartfugls eftir Gunnar Gunnarson. Greinin birtist upphaflega á blogginu mínu.
Ég var mjög hrifinn af bókinni en hana las ég á dönsku. Þýðingin að ofan er eftir Magnús Ásgeirsson. Gunnar samdi verk sín á dönsku, enda náði hann til stærri hóps þannig og fannst mér viss áskorun að ætla mér að lesa hann á dönskunni. Nú bjó ég vel að hafa lesið Andrés Önd frá unga aldri á dönsku, sem og að vera einlægur aðdáandi Olsen-Banden myndanna, sem og að hafa lesið þunglyndislegar sögur um fólk í tilvistarkreppu í Kristianiu.


Sagan er byggð á þekktu morðmáli sem átti sér stað um 1800 á Rauðasandi á Vestfjörðum. Þá var Bjarna Bjarnasyni og Steinunni Sveinsdóttur stefnt fyrir dóm fyrir að hafa myrt maka sína, Guðrúnu Egilsdóttur og Jón Þorgrímsson.

Í upphafi sögunnar rifjar séra Eyjólfur Kolbeinsson, eftir missi sonar síns, upp þá ógnarlegu atburði sem áttu sér stað 17 árum áður, þegar hann var ungur. Hann rifjar upp þátt sinn í dómsmálinu og ásakar sjálfan sig vegna þeirra áhrifa sem orð hans og gjörðir hafi haft á málið.

Sagan er skrifuð af dýpt og mannþekkingu. Andrúmsloftið sem mér fannst ég skynja í bókinni mætti lýsa sem ,,myrkri nótt sálarinnar”. Hér lýsir vofeiflegum glæp í afskekktri byggð og í bókinni kafar Gunnar í djúp mannsálarinnar. Hann kannar þann breyskleika, girnd, kvöl og syndir sem geta sprottið í fylgsnum hjartans og haldast í hendur. Hann fjallar um hvernig rógur getur myrkvað og eitrað hugi fólks og um það vald sem mennirinir taka sér yfir lífi og dauða náungans í nafni Réttvísi.
Varð mér við lesturinn sterklega hugsað til þessara orða sem stóðu í annari bók hans, Fjallkirkjunni, þar sem fólk á bæ einum hafði stolið sauð og etið í neyð sinni. Það hafði verið gripið og var nú fordæmt og útskúfað:

Sú bróðernishugsjón sem menn játast svo óðfúsir stendur að jafnaði nokkuð grunnt. Að minnsta kosti vörumst við að láta hana taka til fallinna bræðra okkar og systra. Væri samt ekki nær að fara læknishöndum um meiðsl sálarinnar eins og gert er við líkamleg sár? Einn misstígur sig og fótbrotnar, annar fargar ,,í misgripum” kindum nágranna sinna. Vér sjáum þeim sem varð fyrir hinu minna tjóni fyrir sjúkrahússvist og aðhjúkrun, hinum köstum vér í fangelsi og brennimerkjum hann. Það er grunnt á tárunum hjá mannfólkinu, lengra til vorkunnarinnar. Verulegri náð mæta hinir bágstöddu ekki nema í moldinni þar sem Guð mun geyma okkar allra að síðustu uns hann vekur okkur frá dauðum skírri en fyrr.

Því teflir höfundur móti bölinu samúðinni, og samkenndinni. Örlög allra manna eru samofin. Þeir verða að taka ábyrgð á sjálfum sér og hver á öðrum, gæta bróður síns og koma honum til bjargar ef hann misstígur sig eða líf hans myrkvast.
Og þrátt fyrir sorgir og dimm örlög má skynja trú á lífið og sigur þess. Því vil ég ljúka þessari umfjöllun á eftirfarandi tilvitnun í Svartfugl:

Mér stóð hann glöggt í minni, þessi dagur sem Bjarni talaði um… Gnæfandi, brimbarinn hamraveggur, sem sýndist úr ruggandi bátskel samrunninn sjálfum himninum. Fárviðri af háværum fuglum – glitthvítt tinnblikandi löður af Svartfugli sem þylaðist eins og áframhald af brimöldunni upp eftir svörtum klettunum og hvarf í móðu bjargisins. Þegar ég sá þessa sýn í fyrsta sinni í bernsku, hafði mér ekki komið annað til hugar en að það væri sjálft hafið í tröllskap sínum, sem spýtti vængjuðum fiskum úr kviði sér.
Jafnvel í fyrra hafði farið um mig einhver kaldur hrollur, þegar ég stóð andspænis hinu dulramma, miskunarlausa og ódrepandi lífi fuglabjargsins, þessum stormi af lífi, þar sem tilveran hrósar sigri í gargi, ódaun og saurindum, lífið endurnýjar sig, sprettur ungt, ferskt og blóðheitt upp af berri klöppinni. Á hverju sumri!