Jólabókin Eins og flest jól fær maður alltaf einhverja bók í jólagjöf og þetta ár var ekkert öðruvísi. Þó fékk ég aðeins eina bók og hana valdi ég sjálf.
Það er engin önnur en Eragon eftir Christopher Paolini, bókin er fyrsta bókin af þremur. Úti er þegar komin næsta bókin sem heitir Öldungurinn. Fyrir jólin barst mér bókatíðindi eins og á hver önnur heimili og las ég það yfir. Á nokkrum stöðum stoppaði ég og las um bækurnar en þegar ég kom að Eragon textanum og myndinni af bókinni þá færðist bros yfir andlitið á mér því bækur um dreka, ævintýri og yfirskyggilega hluti eru einmitt bækur fyrir mig. Ég ákvað þar á staðnum að ef ég fengi hana ekki í jólagjöf yrði hún sko keypt, sem ég geri mjög sjaldan. Þó les ég mjög mikið, er bara lítið fyrir að kaupa bækur sem ég mun bara lesa einu sinni.
Svo æxlaðist það svoleiðis að ég fór til foreldra minna yfir jólin og betri helmingurinn varð eftir heima með sinni fjölskyldu. Ég valdi svo hvað ég vildi í jólagjöf frá ömmu og afa og valdi auðvitað Eragon.
Að vísu þurfti maður þá að bíða þangað til aðfangadagur rynni upp en ég þoldi það, svona rétt svo. Byrjaði á bókinni á aðfangadag og kláraði hana svo á annan í jólum, mikið afrek því maður var á fullu í jólaboðum og að halda jólaboð en alltaf gafst einhver tími til að lesa.
Hún er svo góð! Mikið afrek fyrir 15 ára strák að skrifa svona gífurlegt stykki. Persónurnar í bókinni eru góðar og sagan er umvafin töfraljóma og dulúð – þvílíkt upphaf á einhverju sem hlýtur að vera afar góður ferill sem rithöfundur.
Ég vil ekki gefa mikið upp, því það gæti skemmt fyrir. Þó get ég sagt ykkur aðeins um bókina . Hún gerist í ríki sem heitir Alagesía og er umhverfið einskonar miðaldarumhverfi. Í ríkinu búa ýmsar verur fyrir utan menn og það og öll bókin minnir mann á Harry Potter og LOTR. Þó er Eragon öðruvísi en þær því bókin er meira um riddara, dreka og miðaldarævintýri.
Bókin fjallast semsagt um ungan strák sem heitir Eragon og býr utan lítið þorp ásamt tveimur frændum sínum. Hann finnur bláan stein í veiðiferð og það kemur brátt í ljós að það er drekaegg og Eragon flækist í örlög sem eru stærri en hann gæti nokkur sinni ímyndað sér.

Ég mæli eindregið með þessari bók! Farið strax útí annaðhvort bókabúð og kaupið hana eða á bókasafn. Hún mun ekki valda ykkur vonbrigðum.