Bítlaávarpið Nú um daginn átti ég að skrifa ritgerð um bók að eigin vali og hef ég ákveðið að deila henni með ykkur. Vesgú:



Heiti bókar: Bítlaávarpið

Höfundur: Einar Már Guðmundsson

Útgáfufyrirtæki: Mál og Menning

Útgáfustaður: Reykjavík

Útgáfuár: 2004






“Vofa gengur laus um götur heimsins, vofa Bítlanna.” Þannig hófst Bítlaávarpið, sem átti að leysa öll önnur ávörp af hólmi, svo sem Áramótaávarpið og Kommúnistaávarpið.
Þetta ávarp var samið af aðalpersónu þessarar bókar, Jóhanni Péturssyni. Hann var 13 ára vandræðagemlingur sem býr í Reykjavík. Hann var meðlimur í hljómsveitinni Matchbox ásamt nokkrum vinum sínum. Þeir voru: Jóhann, hann var söngvari, Jón, “sem flakkaði um borgina og prílaði upp á ljósastaura”, hann var líka söngvari. Finnur og Gunni spiluðu á gítar.
Svo voru það Óli og Rebbi: Rebbi spilaði á trommur, en Óli á bassa.
Sagan gerist á sjöunda áratugnum og fjallar um innreið rokktónlistarinnar í líf unglinga og allt sem því fylgdi. Hún fjallar líka um ást og hversu flókið líf unglinga getur verið. Lesandinn kemst snemma að því að Jóhann er skotinn í ákveðinni stelpu í bekknum sínum. Þessi stelpa á við erfitt heimilislíf að stríða, þar sem að pabbi hennar er þotuflugmaður. Mamma hennar á við drykkjuvandamál að stríða og þá sérstaklega þegar pabbinn er ekki heima. Í bókinni segir Jóhann frá hlutum sem hafa gerst í kringum hann eða fólkið í hans nánasta umhverfi. Auk þess er undirliggjandi söguþráður sem fylgir Jóhanni alla bókina.



Rithöfundurinn leggur mikið upp úr því að frásögnin sé sem eðlilegust, hann gerir það með því að láta trufla sig. Til dæmis byrjar hann að tala um eitthvað eitt, en svo kemur eitthvað annað inn í það og þá fer hann að tala um það. Hann kemur kannski aftur að því sem hann var upphaflega að tala um, en stundum með nokkurra kafla millibili.
Oft er mikill húmor í bókinni, til dæmis er einn kafli sem fjallar um 14 ára Skagfirðing sem Jóhann og félagar hitta í strætó, en hann er svo rekinn út því hann byrjar að reykja. Útskýring hans á því er svo að hann “hélt að það mætti allt í Reykjavík”. Hann býður svo strákunum upp á heila rjómatertu og kók á Hótel Borg. Hann hefur líka viskípela og er duglegur að fá sér sopa við og við.
Oft segir rithöfundurinn frá prakkarasögum af Jóhanni eða vinum hans. Til dæmis er sagt frá því í einum kafla þegar Óli og Rebbi skora á Eirík og Gylfa, sem eru heldur í tregari kantinum, í kappdrykkju á Sínalkó. Eiríkur og Gylfi “voru óðir og uppvægir og ekkert að velta því fyrir sér af hverju það voru korktappar á flöskunum.” Rebbi var með skákklukku og þegar hann sagði nú og ýtti á takkann rifu Eiríkur og Gylfi tappana af flöskunum og sturtuðu í sig úr flöskunum. Þeir skildu ekki neitt í neinu fyrr en Rebbi hljóp af stað með skákklukkuna undir hendinni og Óli á eftir honum. Nú fyrst föttuðu þeir að Óli og Rebbi höfðu pissað í flöskurnar og sett korktappa í flöskurnar.
Annað dæmi um prakkarastrik í bókinni er það sem kemur strax í byrjun bókarinnar. Jóhann situr þá í tíma hjá “Stellu sterku” en hún er kennari í skólanum hans, stór og mikil. Hún er alveg bandbrjáluð, eða “einsog dreki nýstiginn uppúr gígopi” . Málið er að einhver hefur verið svo ósvífinn að lauma litlum miða í kladdann á kennaraborðinu. Hún vill fá skýringu á miðanum, en á honum stendur “Let’s spend the night together …” og síðan undirskrift Herberts skólastjóra. Þegar miðanum er svo snúið við má sjá frekari leiðbeiningar frá Herbert, en þar stendur: “Hittu mig í kústaskápnum klukkan fimm.” Stella vill fá skýringu á þessum miða strax. Jóhann veit ekki hvað Stella veit um The Rolling Stones svo hann segir að þetta sé nafn á lagi eftir þá, eftir hverja það er samið og hverjir hinir meðlimir hljómsveitarinnar eru. En Stellu er alveg sama um það. Hún hrópar, “hærra en Janis Joplin hefði nokkurn tíma látið sig dreyma um: ‘Það er ekki málið frá hvaða apaköttum þetta er heldur hver skrifaði þetta?’” Þá dettur allt í dúnalogn og það er dauðaþögn þar til Jóhann réttir upp höndina og segir: “Ég held að Mick Jagger semji textana.”
Svo spyr hann jafn kæruleysislega og áður: “Hvað þýðir þetta?”
Þá springur bekkurinn auðvitað úr hlátri. En Stella hlær ekki. Hún kemur vaðandi til hans og frussar yfir hann orðunum: “Er þetta ekki skriftin þín, Jóhann?” Hann lítur á hana og segir “Nei, ég myndi bara spyrja Herbert sjálfan.” Þá missir Stella algjörlega stjórn á sér og fer með hann til Herberts skólastjóra, ekki í fyrsta sinn.



Yfir allt er bókin mjög skemmtileg aflestrar, sjálfur las ég hana í tveimur lotum því ég gat ekki hætt. Eins og ég sagði að ofan þá er bókin um unglinga og skrifuð fyrir unglinga. Ástarflækjurnar í henni eru mjög vel skrifaðar og algjörlega óvæntar á mörgum stöðum.
Húmorinn, eins og ég sagði frá að ofan er yfirráðandi og alveg frábærlega gerður, aðallega svona “glott” húmor, sem er ekkert verri, en á sumum stöðum hlær maður upphátt.
Þar að auki er hún mjög fræðandi um hvernig líf unglinga og hugsanir þeirra voru á þessum tíma. Þessi bók er skyldulesning fyrir alla 13 ára og eldri.

8,5 stjörnur af 10.



Þess má geta að ég fékk 9,5 fyrir þessa ritgerð.

P.S. Meðfylgjandi mynd er af rithöfundinum, Einari Má Guðmundssyni.
Autobots, roll out.