Hver hefur ekki lent í því að fara í bíó, á mynd sem gerð er eftir bók og manni finnst myndin svo miklu lélegari en bókin. Síðan les maður bókina aftur og þá er hún búin að versna síðan maður las hana fyrst. Persónurnar í bókinni hafa fengið lánuð andlit af frægum leikurum og líta út allt öðruvísi en maður hafði ímyndað sér.
Þetta kemur í sífellu fyrir mig og í hvert sinn sem ég fer á mynd sem er gerð eftir bók sem ég hef lesið, þá finnst mér myndin sjálkrafa vera léleg. En auðvitað eru ekki allar myndir svona. Það eru til mörg dæmi um að myndin heppnist ágætlega, eins og t.d. The Body, eftir Stephen King. Hún varð að góðri mynd sem heitir Stand by me, með River Pheonix og Kiefer Sutherland. Mér fannst myndin alveg einstaklega vel gerð og varð fyrir engum vonbrigðum með hana.
En síðan eru til myndir sem að maður sér á undan bókinni og þá verður bókin ekki eins góð. T.d. Jaws, eftir Peter Benchley, sem var gerð ódauðleg á hvíta tjaldinu. Þegar ég las hana þá var ég auðvitað að ímynda mér Richard Dreyfuss og Roy Scheider allan tímann og því naut ég bókarinnar ekki eins vel. Mér hefði auðvitað fundist hún betri ef að ég hefði ekki séð myndina áður, en hugsanlega hefði ég ekki lesið bókina ef ég hefði ekki séð myndina. Bókin var samt sem áður mjög góð og það gerðist miklu meira í henni en þeir notuðu í myndinni.
Í kvikmyndum sleppa þeir svo miklu af söguþræðinum og maður fær heldur ekki að vita hugsanir sögupersónanna og því kynnist maður þeim verr. Í rauninni þá eru þeir að taka það úr bókinni sem að skiptir mestu máli og sleppa öllum smáatriðunum. Og í flestum bókum þá skipta smáatriðin mestu máli.
Mér er byrjað að finnast eins og að kvikmyndir eru trailerar fyrir bækur, því að ef ég sé góða mynd sem er með góðum söguþræði, þá les ég bókina. En ég hef líka komist að því að það er staðreynd að bækur eru betri en kvikmyndir, og það er ekki hægt að eyðileggja góða bók, sama hversu myndin er léleg.