Ótrúlegt að enginn hafi ennþá skrifað grein um Halldór Laxness, þrátt fyrir að oft hafi verið minnst á hann í hinum ýmsu greinum hérna. Alltaf þegar talað er um bestu og merkustu rithöfunda og bókmenntir Íslands þá er pottþétt minnst á tvo höfunda: Snorra Sturluson (og auðvita fornbókmenntirnar) og Halldór Laxness. Þessir tveir virðast svífa yfir öllum hinum góðu rithöfundunum sem Ísland á og hefur átt. Þeir eru orðnir nokkurs konar hálfguðir íslensks bókaheims, ef ekki alguðir. Það er allavega mín tilfinning.

Ég hef ekki lesið mikið af Halldóri, byrjaði fyrst á því í menntaskólanum þegar allir áttu að lesa Íslandsklukkuna og Sölku Völku. Það sem kom mér mest á óvart var hversu auðlesnar bækurnar voru. Ekkert orðskrúð eða flóknar setningar heldur hrein og bein íslenska (stafsetningin truflaði heldur ekkert). Hins vegar var það líka heillandi HVAÐ sögupersónurnar sögðu og hversu mikið var sagt í svo fáum orðum, alveg frábært. Það er hægt að lesa þessar bækur aftur og aftur og alltaf finnur maður eitthvað nýtt. Eftir menntó er ég þó bara búin að lesa tvær bækur eftir Halldór í viðbót, það eru Paradísarheimt og Kristnihald undir Jökli. Næst á dagskrá er að lesa Sjálfstætt fólk, en hún var einmitt valinn bók aldarinnar af Íslendingum í lok ársins 1999.

Fyrst eru það nokkrir punktar um hann Laxness okkar.
Hann fæddist árið 1902 í Reykjavík, en ólst upp á bænum Laxnesi í Mosfellsdal. 17 ára fór hann til Danmerkur, þaðan til Lúxemborgar í klaustur (í eitt ár). Einnig fór hann í kristmunkaskóla í London og hann sinnti ritstörfum sínum víða um heiminn, m.a. í Ameríku, á Ítalíu og í Sovétríkjunum.
Fyrsta bók Laxness “Barn náttúrunnar” kom út 1919, en hana skrifaði hann aðeins 16 ára gamall. Þessa bók og ýmsar sögur sem Halldór hafði skrifað á unga aldri (til 1924) afgreiddi hann síðar sem bernskubrek. Fyrsta “alvöru” bókin hans kom út 1927 “Vefarinn mikli frá Kasmír”.

Halldór var nú ekki beint vinsælasta skáldið til að byrja með. Vefarinn fékk ansi misjafnar móttökur og ljóð Halldórs “Únglíngurinn í skóginum” olli því að hann var sviptur listamannastyrk sínum frá Alþingi (þingmönnunum fannst þetta alltof mikið bull til að teljast styrkjarhæft). Einnig urðu mjög margir bændur æfareiðir þegar “Sjálfstætt fólk” kom út því þeim fannst sú bók sýna bændur í svo neikvæðu ljósi. Stafsetningarsérviska Halldórs þótti líka fáránleg. Eiginlega föttuðu Íslendingar ekki hvílíkur snillingur Halldór var fyrr en hann fékk Nóbelinn árið 1955. Eftir það fór fólk að virða hann meir og meir. Halldór lést 1998 í Reykjavík (95 ára!) en konan hans, Auður, er enn á lífi. Hans mun verða minnst í marga tugi, jafnvel hundruði ára í viðbót, sem eins mesta skálds Íslands.

Núna held ég að allir Íslendingar beri a.m.k. virðingu fyrir honum Halldóri, þótt hann sé kannski ekki í uppáhaldi hjá öllum. Það er meira að segja soldið stöðutákn að eiga Laxness í bókahillunum(eins og var talað um á korkinum hérna). Margir “frasar” úr bókunum hans hafa verið teknir inn í málið og notaðir sem orðtök og hver einasti Íslendingur þekkir a.m.k eitthvað til hans og verka hans. Með fullri virðingu fyrir öllum hinum rithöfundunum, trónir Halldór enn á toppnum í íslenskum ritheimi og mun líklega gera það lengi enn.

Að lokum eru tvær uppáhalds setningarnar mínar úr Íslandsklukkunni, en það var fyrsta bókin eftir sem ég las eftir Laxness.

“Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó.” Jón Hreggviðsson.

“Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.” Arnas Arnæus (minnir mig)

endilega bætið við einhverju ef þið viljið.
Refur98
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil