Skáldið eftir bandaríska rithöfundinn Michael Connelly er eina skáldsaga höfundarins sem íslenskuð hefur verið, en hún var gefin út fyrir síðustu jól af Máli og menningu. Connelly hefur skrifað um 20 bækur og fjalla flestar þeirra um lögreglumanninn Harry Bosch. Í Bandaríkjunum eru bækur Connellys flokkaðar undir „Thrillers“, en munu á íslensku væntanlega verið flokkaðar undir sálfræði-spennusagnir. Fyrir áhugasama munu sambærilegir höfundar og Connelly vera Thomas Harris og Patricia Cornwell.
Skáldið segir frá blaðamanninum Jack McEvoy, sem búsettur er í Denver, og sérhæfir sig í glæpafréttum. Í upphafi sögunnar finnst Sean, tvíburabróðir Jacks, látinn. Í fyrstu er talið að Sean hafi svipt sig lífi, en hann hafði verið rannsóknarlögreglumaður í lögreglunni í Denver, nánar tiltekið í deild er rannsakaði glæpi gegn einstaklingum og hafði hann haft til rannsóknar hrottalegt morð á ungri konu, sem mikið hafði verið til umfjöllunar. Yfirvöld draga strax þá ályktun að Sean hafi svipt sig lífi vegna álagsins er fylgdi rannsókninni á morði ungu stúlkunnar, en henni hafði lítt miðað. Á öndverðu við lögregluyfirvöld fær Jack fljótlega efasemdir um að bróðir hans hafi tekið líf sitt og ákveður að kafa dýpra í málið. Fljótlega kemst hann að því að mál bróður hans er ekki einsdæmi og að svo virðist sem sambærileg atvik hafi átt sér stað á liðnum árum um gervöll Bandaríkin. Í öllum tilvikum er um að ræða rannsóknarlögreglumenn er haft höfðu morðmál til rannsóknar. Enn fremur virðist svo sem morðinginn hafi skilið eftir sig orðsendingu við hvert fórnarlamb með skírskotun til ljóða skáldsins Edgar Allen Poe. Athuganir Jacks fá hljómgrunn hjá FBI og hefst þá æsileg leit að „Skáldinu“ en svo nefnist hinn meinti raðmorðingi.
Ég mæli hiklaust með þessari bók. Áður hef ég lesið Blood Work eftir Connelly og er hún einnig mjög góð. Gert hefur verið framhald af Skáldinu og nefnist hún The Narrows.