Þó að ég sé ekki alltaf mikið fyrir unglingabækur þá las ég þessa bók. Ég las þá fyrri, Svölustu 7una og líkaði mjög vel við hana. Mér fannst Svalasta 7an reyndar enda svolítið í lausu lofti, maður fékk ekkert að vita hvað hann myndi gera í sambandi við Álfheiði og Tinnu. Þess vegna greip ég bókina á bókasafninu strax og ég sá hana og fór að lesa.



Þessi bók er um sömu aðalpersónur og sú fyrri, Jóel og vini hans. Jóel býr núna í Reykjavík og á þar nokkra góða vini, m.a. Daníel og Dóru Maríu. Rebekka systir hans er ennþá í eftirliti hjá læknunum og þarf stundum að fara uppá sjúkrahús í skoðun. Jóel reyndi að hafa uppi á pabba sínum í síðustu bók, en tókst ekki. Hann langar að fara til Kína en mamma hans vill ekki leyfa honum það. Jóel suðar og biður frænda sinn, bróður pabba hans að hringja í pabban og biðja hann um að fá að koma. Jóel fer til Akureyrar í byrjun sumars að hitta alla gömlu vinina, Álfhildi og Tomma og hina. Frændi hans hringir þá og segir að pabbi hans vilji fá hann og að hann fari eftir 3 daga. Það gerist allt frekar fljótt og hann fer til Kína þar sem er steikjandi hiti, þrátt fyrir að vera með rosalegar áhyggjur af Tinnu, sem er með krabbamein eins og systir hans. Í flugvélinni á leiðinni til Kína hittir hann athyglisverða og fræga persónu…. en ég vil ekki eyðileggja alla bókina með því að segja allt. Kínaferðin verður mjög sérstök og ýmislegt kemur í ljós um föður hans sem yfirgaf þau……



Þessi bók er eiginlega ekki eins og aðrar unglingabækur, hún er sérstök á marga vegu. Sagan er sögð frá sjónarhorni stráks sem á bara venjulegt líf þangað til að systir hans veikist. Flestar af þessum bókum eru skrifaðar um stelpur. Bókin er ekki væmin, hún er með margt sem heldur manni við efnið, er sorgleg á kafla og maður verður stundum svo forvitinn að maður les hratt og kemst ekki uppúr henni. Sumt er reyndar svolítið fjarstæðukennt, en ég meina, þetta er bók..



Fyrir þá sem nenntu ekki að lesa greinina: Mér finnst þessi bók skemmtileg og ólík öðrum unglingabókum og mæli með henni.

Tek það fram að þetta er bara mín skoðun á bókinni, ykkar getur verið allt öðruvísi.
Trínan