Mig langar í nokkrum orðum að gera grein fyrir skáldsögu Nicolas Sparks, Minnisbókinni. Sagan heitir á frummálinu The Notebook, en kom út í íslenskri þýðingu árið 1997.
Fræðilega mætti ef til vill segja að sagan uppfylli allnokkur skilyrði til þess að mega flokkast sem smásaga. Ég hef þó hvergi rekist á þá skilgreiningu í þeim umfjöllunum sem ég hef lesið um söguna. Hvort sem bókin er hins vegar stutt skáldsaga eða smásaga er hún fyrst og fremst ástarsaga.
Sagan fjallar um gamlan mann, Noah Calhoun, sem er vistmaður á elliheimili. Eiginkona hans er enn fremur vistmaður þar, en hún er alzheimer-sjúklingur og mjög farið að draga af henni. Noah rifjar upp einstakan atburð í lífi sínu frá árinu 1946. Upprifjun hans er þannig háttað að hann les fyrir eiginkonu sína upp úr gamalli minnisbók. Sá atburður sem Noah rifjar upp er þegar æskuást hans, Allie Nelson, leitar hann uppi, en þau höfðu sem ungt fólk átt í ástarsambandi fjórtán árum áður. Allie, sem þá hafði verið ung stúlka og dvalið um sumartíma ásamt foreldrum sínum í heimabæ Noah, New Bern, er nú orðin fullorðin kona og heitbundin öðrum manni.
Hvorki Noah né Allie höfðu fyllilega sætt sig við þær lyktir mála að fá ekki að vera hvort hjá öðru, en þeim hafði verið stíað í sundur af efnamiklum foreldrum Allie, sem voru lítt hrifin af Noah, sem var af efnalitlu fólki. Uppgjör Noah og Allie er því óumflýjanlegt þegar þau hittast á ný.
Mér fannst þessi saga mjög falleg og skemmtileg. Hún minnti mig reyndar um margt á skáldsögu Robert James Waller, Brýrnar í Madisonsýslu. Mér fannst þó Minnisbókin enginn eftirbátur hennar.
Gerð hefur verið kvikmynd eftir Minnisbókinni, sem ber sama heiti og skáldsagan á frummálinu, The Notebook.