C.S. Lewis og Narníu-bækurnar Um C.S.Lewis og Narníu-bækurnar:

Upphaflega ætlaði ég að senda þetta á Tolkien-áhugamálið, en hætti við og sendi þetta hingað. Lewis og Tolkien voru að vísu mjög góðir vinir, en þetta tengist Hringadróttinssögu eiginlega ekki neitt.

Clive Staples Lewis var fæddur 29.nóvember 1898 í Belfast. Faðir hans var lögfræðingur og móðir hans (sem dó þegar hann var barn) var prestsdóttir. Hann átti einn bróður sem var nokkrum árum eldri en hann sjálfur, og þeir bræður eyddu mörgum stundum saman meðan þeir voru enn í föðurhúsum við að finna upp ímynduð lönd og skrifa um þau-ekki þó a þann rómantíska hátt sem búast hefði mátt við af þeim er síðar varð höfundur Narníubókanna.
En Lewis var þó löngum stundum einn á bernskuárum sínum eða í heimi bókanna. ,,Ég er mótaður af löngum göngum, sólbjörtum auðum herbergjum, kyrrlátum þakherbergjum, dularfullum háaloftum, furðuhljóðum í vatnsgeymum og rörum og gnauði vinda í þakflísunum. Einnig af óteljandi bókum,“ skrifaði hann. ,,Það voru bækur í bókaherberginu, bækur í setustofunni, bækur í anddyrinu, bækur í stóra bókaskápnum, á stigapallinum (tvöföld röð), bækur í svefnherbergjunum, bókahlaðar sem náðu mér í öxl á háaloftinu hjá vatsngeyminum, bækur af öllum gerðum, sem spegluðu margbreytileg áhugamál foreldra minna, læsilegar og ólæsilegar bækur, bækur við hæfi barna og einnig bækur sem hreint ekki gátu talist við barna hæfi. Mér var ekki bannað neitt. Á þrotlausum rigningardögum tók ég hvert bindið af öðru út úr hillunum… “
Í fyrstu voru bækur E.Nesbit og ferði Gúllívers uppáhaldslesefni hans, en þegar hann eltist urðu norræn goðafræði og Íslendingasögur honum kærust bókmenntagrein, sem ekkert fékk jafnast á við nema Hómer og síðar meir dásemdarverk grískra helgisagna og bókmennta, þegar hann gat lesið þau á frummálinu.
Honum féll illa í skólanum, kallaði fyrsta skólann sem hann gekk í ,,Belsen“ og hafði megna andúð á Malvern College. En að loknu námi í Malvern og áður en hann fór til Oxford var hann þrjú ár hjá einkakennara, sem kenndi honum að meta námið og lesa grísku sér til yndis, með þeim árangri að hann fékk skólastyrk til að nema klassík fræði við University College, Oxford, árið 1917. Hann hætti námi og barðist í fyrri heimsstyrjöldinni og særðist alvarlega. En eftir stríðið lauk hann háskólaprófum með ágætum og barð kennari í ensku og enskum bókmenntum við Magdalen College í Oxford þar sem hann kenndi í 30 ár og hlaut ýmsa viðurkenningu fyrir störf sín. Eftir það var hann prófessor við Cambridge í 10 ár.
Sögurnar sjö frá Narníu, sem komu út ein á ári 1950 til 1956, hafa þegar skipað sér sess meðal sígildra barnabóka. En eins og aðrar stórkostlegar bækur, sem fólk á öllum aldri getur notið, skrifaði höfundurinn Narníubækurnar fyrst og fremst sjálfum sér til ánægju. ,,Ég skrifaði þær bækur sem mig hefði sjálfan langað til að lesa,“ sagði Lewis. ,,Það hefur ávallt verið kveikjan að skrifum mínum. Aðrir vilja ekki skrifa þær bækur sem ég vil fá, svo að ég varð að skrifa þær sjálfur.“ Og hann taldi ástæðuna fyrir því að skrifa barnabók vera að ,,barnasaga er heppilegasta listformið til þess að koma á fræmfæri því sem maður vill segja.“
Auk skrifa sinna um bókmenntir er Lewis þekktastur fyrir bækur um guðfræði, en frægust þeirra er ´The Screwtape Letters` (Sendibréf frá Kölska) –bréf frá gömlum árum til annars yngri um það hvernig best sé að freista mannskepnunnar, og auðvitað ætluð lesesum til leiðsagnar svo að hann geti verið á verði gegn lymskulegum freistingum sem mæta okkur á lífsleiðinni. Hann er einnig þekktur frir skáldsögur sínar frá öðrum heimum, ´Out of the Silent Planet` og ´Perelandra`, sem sennilega eru bestu og ljóðrænustu skáldsögur sem skrifaðar hafa verið um heimsóknir manna til Mars og Venusar.
C.S.Lewis lést árið 1963.

***Þessar heimildir stóðu aftast í bókinni “Silfurstólinn” sem er sjötta og næstsíðasta Narníubókin. Það sem kemur hér á eftir skrifaði ég sjálf hinsvegar***

Fimm af Narníubókunum eru tileinkaðar einhverjum eða einhverjum fjölskyldum. Hérna kemur rétt röð á þeim, og tileinkunin:
– Frændi töframannsins/The Magician’s Nephew: Tileinkuð Kilmer-fjölskyldunni.
– Ljónið, nornin og skápurinn/The Lion, the Witch and the Wardrope: tileinkuð Lucy Barfield, og þetta stendur fyrir neðan: (Að vísu stendur Lúsía, en þetta er íslensk þýðing).
Kæra Lucy.
Ég skrifaði þessa bók handa þér, en þegar ég byrjaði á henni var mér ekki ljóst að stúlkur vaxa hraðar en bækur verða til. Nú ert þú orðin of gömul til að hafa gaman af ævintýrum og þegar bókin kemst á prent verður þú enn eldri. En einhvern daginn verður þú nógu gömul til að fara aftur að lesa ævintýri. Þá tekur þú bókina aftur úr hillu, blæst af henni rykið og segir mér hvað þér finnst um hana. Sennilega verð ég orðinn heyrnardaufur og of kalkaður til að skilja orð af því asem þú segir, en ég mun ávallt verða
þinn elskandi guðfaðir
C.S. Lewis
(gaman að nefna það, en aðalsögupersónan í þessari bók heitir Lucy/Lúsía).
– Hesturinn og drengurinn hans/The Horse and his Boy: tileinkuð David og Douglas Gresham. (Takið eftir, ekki drengurinn og hesturinn HANS, heldur á hesturinn drenginn, hehe).
– Kaspían konungsson/Prince Kaspian: ekki tileinkuð neinum. Þetta er samt sem áður að mínu mati skemmtilegasta bókin, með mestu matarlýsingunum og sú fyndnasta.
– Sigling Dagfara/The Voyage og the Dawn Treader: tileinkuð Geoffrey Corbett.
– Silfurstóllinn/The Silver Chair: tileinkuð Nicholas Hardie.
– Lokaorrustan/The Last Battle: ekki tileinkuð neinum.

Narnía er í raun ekki heimur, heldur aðeins lítið land Norðarlega í þessum heimi. (Ég veit ekki hvað hann heitir, en ég er ekki að meina “heiminn sem við lifum í”). Þar eru einnig lönd eins og Bogland, Arkland, Kalormen og Austur í hafinu eru Stakeyjar, myndaðar af Övru, Felimat og Dornu og enn lengra í Austur er….. tja, lesið bara eina af þessum bókum, þá finnið þið það út. Þessar bækur eru hlaðnar ótrúlegum tilfinningum, hvort sem það er fyndni, ást, hatur, sorg eða eitthvað annað. Ég mæli með því að þið séuð södd þegar þið lesið nokkrar línur í þessum bókum, matarlýsingarnar eru ótrúlegar! T.d. eru hérna nokkrar:
….. hún mundi eftir snarki í feiti og ilmi af pylsum og meiri og meiri og meiri pylsum. Ekki vesældarlegum og skorpnum pylsum drýgðum með hveiti og sojabaunum, heldur ljúffengum, vel krydduðum, safaríkum kjötpyslum, sem draup af feitin og sprungu og voru örlítið brenndar. Og þarna höfðu verið borin fleytifull mál af heitu súkkulaði og bakaðar kartöflur og ristaðar hnetur og bökuð epli með rúsínum í kjarnhúsinu, og síðast kom rjómaís til hressingar eftir alla heitu réttina. (Silfurstóllinn, 16.kafli-Huggun harmi gegn).

Á borðinu sjálfu var þvílíkur veislukostur að annað eins hafði aldrei sést, ekki einu sinni við hirð Péturs stórkonungs í Paravellhöll á sinni tíð. Þarna voru steiktir kalkúnar, gæsir og páfuglar, svínshöfuð og hjartarsíður, þarna voru tertur í laginu eins og skip undir fullum seglum eða eins og drekar og fílar, þarna voru ísbúðingar og bleikur humar og glitrandi lax, þarna voru hnetur og vínber, ananas og ferskjur, granatepli og melónur og tómatar. (Sigling Dagfara, 13.kafli-Sofendurnir þrír).

Ég hreinlega nennti ekki að fletta upp á fleirum lýsingum, þótt að það sé auðvelt, þær eru bara of langar fyrir minn (matar) smekk.
Þetta er ævintýraheimur eins og þeir gerast best. Þótt að Lewis hafi alveg sniðgengið álfana er það bætt upp með fánum, satýrum, elgfróðum, dvergum, skógar- og vatnaguðum og talandi dýrum. Já, dýrin. Litlu dýrin í Narníu eru mun stærri en þau sem eru í “okkar” heimi. T.d. eru mýsnar á stærð við kanínur. Eða, í það minnsta með eyru af sömu stærð og eyru kanínu, þær sjálfar gætu verið stærri. Bjórarnir eru líka stærri, en ekki allir fuglarnir. Svo eru fílar aðeins minni en venjulegir fílar, o.s.frv.

Aðalsöguperónurnar eru alltaf börn. Maður fylgir þeim í gegnum sögurnar, en það koma alltaf ný börn inn í. Og eitt fer að lokum, en það er ekki fyrr en í Lokaorrustunni sem betur fer.

Lewis gerir manni oft ljóst að hann sé að segja söguna. Svo sem þetta, það fyrra úr Silfurstólnum, það seinna úr Frænda töframannsins:
– Á fagurri nóttu geta þeir haldið dansinum áfram uns dagur rennur, ölvaðir af trumbuslætti, ugluvæli og tunglskini, og villt skógarbúablóðið hefur stigið þeim til höfuðs. Ég vildi óska að þið hefðuð getað séð þetta með eigin augum.

– Hafið þið nokkurn tíma buslað í bergvatnsá sem fellur í ótal fossum og í botninum rauðir og bláir og gulir steinar roðaðir geislum sólar? Það jafnast á við að synda í sjónum, að sumu leyti betra. Auðvitað varð hann að klæða sig aftur án þess að þurrka sér, en það var þess virði. Hann kom aftur og Pála fór í ána. Hún sagðist að minnsta kosti hafa farið og synt, en sennilega hefur hún ekki farið mjög djúpt. Ég veit að hún var ekki vel synd, svo að það er líklega best að vera ekkert að spyrja hana nánar út í það.

Það pirrar mig samt að “Ljónið, nornin og skápurinn” skuli alltaf vera tekin sem fyrsta bókin. Í raun er hún önnur bókin, “Frændi töframannsins” er sú fyrsta, en það er alltaf talað um hina sem þá fyrstu. Það hefur einhverntíma verið gerð teiknimynd eftir þessari bók, kannski muna einhverjir eftir henni. Stelpa sem fór í gegnum skáp og kom inn í land þar sem var eilífur vetur. Hitti fán, ljón, norn og eitthvað meira. Ég man eiginlega ekkert eftir þessari mynd.

Smá upplýsingar um þessar furðuverur:
Fánar eru með með geitafætur og horn og krullað hár en mannsbol. (Ég las ekki bækurnar í réttri röð, og hélt því fyrst að það væri verið að tala um fána, svona flagg!) Sá fyrsti sem maður fær að þekkja með nafni er hann Túmnus. Satýrar eru næstum því alveg eins, en ég held að þeir séu með hófa en ekki klaufir og hafa ekki svona krullað hár.
Elgfróðar eru það sem við köllum yfirleitt kentára, (centaur), afturhlutinn eins og á hesti, en þeir eru með mannsbol. Vitrir og alvarlegir, og stór hættulegir í stríði. Þeir þurfa að borða mjög mikið, máltíð fyrir mannsmaga og aðra fyrir hestsmagann. Mæli ekki með því að þið bjóðið elgfróða í mat hjá ykkur! ;)
Skógarguðirnir og dísirnar eru andar sem lifa í trjánum. Þau geta breytt sér í manneskjur, en virðast hafa trjá-svip. Ekki eins og Enturnir hjá Tolkien, þótt að þegar stórir hópar af skógarguðum hlaupi um er eins og þetta sé skógur á hreyfingu, þá virðast þau vera manneskjur. (“Hún leit á silfurbjörk: hún hefði mjúka, dillandi rödd og gervi grannar stúlku með hárið flaksandi um andlitið. Hún leit á eikartré: það yrði skorpinn en glaðlegur gamall maður með úfið skegg og vörtur á andliti og höndum og hár út úr vörtunum. Hún horfði á beykitréð sem hún stóð undir. Það yrði best af þeim öllum. Það yrði glæst gyðja, beinvaxin og höfðingleg, drottning skógarnis.” – Lúsía í bókinni ´Kaspían konungsson`, blaðsíða 121).
Dvergarnir þarna eru færustu bogaskytturnar í Narníu. Svo eru þeir auðvitað miklir smiðir, o.s.frv. Eiginlega bara venjulegir dvergar, litlir, feitir og með mikið skegg.
Svo eru það dýrin. Ég ætla mér ekki að segja frá hverri tegund, aðeins smá hluta. Já, Narnísku dýrin geta talað, bara láta ykkur vita. T.d. íkornarnir. Algjörar kjaftaskjóður! Að vísu er mjög gott að senda skilaboð með þeim, en ef það er eitthvað sem er mjög mikilvægt mundi ég sleppa því.
Maður fær ekki mikið að kynnast músunum, aðeins einni, Pípíríp músaforingja. Hann ber mikla virðingu fyrir öllum, en gerir sér ekki grein fyrir því að hann er rétt svo 30 sm. Hressileg og einstaklega herská. Og notar veiðihárin sem yfirvaraskegg.
Birnirnir eru hryllilegar svefnpurkur þarna, en mjög kurteisir. Þeir hafa mjög mikið álit á mat, því miður.
Ljónið mikla, Aslan, sá sem skapaði Narníu og allan heiminn í kringum hana. Ég ætla mér ekki að segja mikið um hann, nema að hann er guð í Narníu, en íbúarnir þar sjá hann öðru hvoru.
Það er náttúrulega fullt af öðrum dýrum þarna, refir, hestar, hundar (þeir reyna að tala og hlaupa um leið), hrafnar, bjórar og meira sem ég nenni ekki að telja upp.
Vona að þú hefur fræðst eitthvað um Narníu og Lewis!

-*~>Gulla Munda Inga Bogga Bergs<~*-