Dumasarfélagið, eða El Club Dumas, er eftir spænska rithöfundinn Arturo Pérez-Reverte. Önnur bók eftir hann, sem hefur verið þýdd á íslensku er Refskák.
Dumasarfélagið er sakamálasaga þar sem margar af frægustu bókmenntum heims eru fléttaðar inn í söguþráðinn. Þar má m.a. nefna Skytturnar þrjár, Moby Dick og Greifinn af Monte Cristo. Eins og titillinn gefur til kynna, snýst bókin mjög mikið um Alexandre Dumas og þær bækur sem hann skrifaði, sérstaklega Skytturnar þrjár. Persónur, atburðir og staðir úr Skyttunum koma svo oft fyrir í bókinni að það væri fínt að lesa Skytturnar áður en maður læsi Dumasarfélagið! Það kemur stundum fyrir í bókinni að höfundurinn gerir ráð fyrir því að lesandinn sé búinn að lesa einhverjar ákveðnar bækur.
Helstu persónur sögunnar eru:
Lucas Corso: Spænskur maður um fertugt. Er bókaveiðari, þ.e. hann vinnur við það að leita að sjaldgæfum bókum og verðmætum handritum fyrir bókasafnara. Oftast eru þetta gamlar bækur.
Varo Borja: Bókasafnari, safnar aðallega gömlum og sjaldgæfum bókum og handritum. Fær bókaveiðara, eins og Lucas Corso, til að finna bækur fyrir sig. Er mjög ríkur.
Flavio la Ponte: Spænskur maður, vinur Corso. Þeir tveir stofnuðu félag, Bræðrafélag Nantucketskutlara (tengist Moby Dick). Á tímabili virðist ætla að slitna upp úr vinskapnum hjá þeim.
Liana Taillefer: Ekkja. Maður hennar, Enrique Taillefer, var bókasafnari, hann hengdi sig. Hún dregst inn í mál Corso.
Boris Balkan: Sögumaður í 1., 5. og 15. kafla (1. persónu frásögn). Segir svo sögu Corso í hinum köflunum (3. persónu frásögn).
Maðurinn með örið: Mest baksviðspersóna, virðist koma beint úr Skyttunum þremur, reynir að drepa Corso.
Svo eru fleiri persónur sem eru mest baksviðspersónur og persónur sem tengast stöðum sem Corso fer á.

Ég ætla ekki að fara að rekja söguþráðinn hérna en þetta stendur aftan á bókarkápunni:
“Lucas Corso er bókaveiðari, hefur þann starfa að þefa uppi sjaldgæfar bækur og verðmæt handrit fyrir sérvitra safnara. Hann er því kvaddur til þegar upphaflegt handrit að kafla í Skyttunum þremur eftir Alexandre Dumas finnst í fórum velmetins bókasafnara sem hefur hengt sig. Fljótlega tekur málið að vinda upp á sig og verða æ furðulegra, einkum þegar persónur úr Skyttunum taka að skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum og eltingarleikur hefst við ýmsar gerðir bóka frá miðöldum sem ýmislegt bendir til að sjálfur Kölski hafi haft hönd í bagga með.”

Þetta er ekki svo fjarri umfjöllunarefni bókarinnar, en bókin gengur mjög mikið út á það að Corso er að reyna að finna öll þau frumeintök sem eru til af bókinni Dyrnar níu, sem eru alls þrjú. Bækurnar voru prentaðar á 17. öld en sá sem samdi þær og prentaði var brenndur á báli fyrir galdra. Inn í þetta mál spinnst svo Skytturnar þrjár, Alexander Dumas – Corso reynir að finna út hvort Dumas tengist eitthvað Dyrunum níu – og svo…Dumasarfélagið.

Það hefur verið gerð kvikmynd eftir bókinni sem heitir The Ninth Gate. Roman Polanski leikstýrði og með aðalhlutverkið ferJohnny Depp.

Dumasarfélagið er mjög áhugaverð bók, sérstaklega fyrir þá sem hafa lesið verk Dumasar. Mér fannst soldið erfitt að komast inn í bókina, en þegar ég var tæplega hálfnuð þá gat ég ekki látið hana frá mér!
Það er hægt að fá bókina í kilju (veit ekki um innbundna) og Mál og Menning gefur bókina út.

Endilega segið ykkar skoðun á bókinni, ef þið hafið lesið hana!
Love is patient, love is kind. It does not envy, it does not boast, it is not proud . . . Love never fails.