Í manngæsku minni hef ég ákveðið að leyfa ykkur að njóta þessarar ritgerðar sem ég gerði í íslensku í vetur. Ritgerðin gæti hugsanlega skemmt fyrir einhverjum sem ætla að lesa bókina síðar. Hefst nú húslestur:


Sögulega skáldsagan Öxin og jörðin var efst á óskalistanum mínum fyrir síðustu jól. Hún var gefin út í Reykjavík árið 2003 af JPV Útgáfu. Höfundur hennar er Ólafur Gunnarsson og það er skemmst frá því að segja að nýverið hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir verkið. Áður hefur Ólafur skrifað bækur á borð við Tröllakirkju, Blóðakur og Vetrarferðina og þýtt nokkur erlend skáldverk, m.a. Möltufálkann.
Sagan fjallar í megindráttum um síðustu árin í lífi Jóns Arasonar Hólabiskups. Hann er síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum og ásamt sonum sínum reynir hann uppræta Lútherstrú á Íslandi og um leið sporna við auknum umsvifum Danakonungs. Feðgarnir eiga í sífelldum útistöðum við Skálholtsbiskup og ýmsa höfðingja landsins um jafnt veraldleg sem andleg málefni. Oft leiðir til átaka og hinar stríðandi fylkingar skiptast á að leita liðsinnis til útlanda. Inn í deilurnar fléttast svo frásagnir af hinni stóru fjölskyldu Jóns sem flestir Íslendingar virðast geta rakið ættir sínar til. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna þá er hápunktur sögunnar aftaka þeirra feðga en sá atburður markar tímamót í sögu þjóðarinnar. Hér á eftir mun ég gera helstu persónum bókarinnar skil og fjalla aðeins um sögusviðið.
Persónusköpun bókarinnar er sérstök að því leyti að aðalpersónurnar voru flestar til í raun og veru, eins og algengt er í sögulegum skáldsögum. Ólafur vekur þær aftur til lífsins og býr þeim bæði skapgerðareinkenni og hugsunarhátt með góðum árangri. Annars er ekki mikið um beinar persónulýsingar og fátt er sagt um útlit persónanna. Sú mynd sem lesandinn fær af persónunum er að mestu fengin frá gjörðum þeirra og orðum, enda er mikið um samtöl í bókinni. Fjöldi persóna í sögunni er óvenju mikill og stafar af því að atburðum hennar er lýst frá svo mörgum sjónarhornum. Þáttur Jóns Arasonar og sona hans vegur býsna þungt en auk þeirra koma við sögu ýmsar aðrar persónur sem gegna veigamiklu hlutverki og gætu jafnvel talist til aðalpersóna. Þar ber helst að nefna Martein Einarsson Skálholtsbiskup.
Jón biskup Arason er áhugaverð persóna, einkum sökum þversagnarkenndrar hegðunar hans. Hann ver kaþólska siðinn af mikilli hörku en getur svo ekki sjálfur lifað eftir honum. Bæði er hann kvæntur og margra barna faðir en hvort tveggja brýtur í bága við kaþólsk lög um klerka. Áætlanir Jóns um að flytja þýskan málaliðaher til landsins eru afar athyglisverðar og bera vott um gott hugmyndaflug biskupsins. Hann telur sig vera að gera það sem þjóðinni er fyrir bestu og fylgir eigin sannfæringu út í ystu æsar. Þó að Jón gangi stundum of langt þá er persóna hans engu að síður bæði trúverðug og raunveruleg.
Jón er ákaflega vinsæll á Norðurlandi og á auðvelt með að fá bændur í lið með sér. Dyggustu stuðningsmenn hans eru þó synir hans, Björn og Ari, sem fylgja föður sínum alla leið í dauðann. Þeir bræður eru um margt ólíkir en eiga það þó sameiginlegt að treysta föður sínum, þótt þeir efist stundum um skynsemi aðgerða hans. Ari er að mínu mati ein skemmtilegasta persóna sögunnar vegna þess hversu klókur hann er. Hann tekur fullan þátt í ráðagerðum með föður sínum um málefni Hólastóls en er svo sjálfur alveg gjörsamlega trúlaus. Það gerir honum kleift að sjá hlutina í skýrara ljósi en flestir aðrir. Gott dæmi um kænsku og hugrekki Ara er þegar hann telur hóp af ræningjum ofan af því að ráðast á sig með orð sín ein að vopni.
Marteinn Einarsson Skálholtsbiskup er á meðal athyglisverðari persóna sögunnar vegna þess hvernig örlögin leika hann. Þegar Gizur biskup deyr er Marteinn settur í embættið gegn vilja sínum og neyddur til að glíma við Jón Arason. Samanborið við Jón er hann duglítill biskup en þó er hann fylgjandi hinum nýja sið og á þess vegna stuðning konungs vísan. Líklega er hans versti löstur sá að hann lætur aðra ráðskast með sig og hans sjálfstæði vilji þarf sífellt að láta í minni pokann fyrir veraldlegum mönnum. Þó að samúð höfundar virðist liggja hjá Jóni og fjölskyldu þá leit ég samt á Martein sem „góða karlinn“ við lestur bókarinnar, því mér fannst hann vera eina persónan með hreinan skjöld. Hólafeðgar fremja nefnilega nokkur illvirki sem voru mér ekki að skapi. Einn mesti bandamaður Marteins og um leið erkióvinur Hólafeðga er kvennabósinn Daði í Snóksdal. Konur á hann margar en er þrátt fyrir það geysilega vinsæll af alþýðu og nýtur þess vegna virðingar. Jón Arason refsar þessum tveimur helstu andstæðingum sínum eins og orðheppnum biskup einum er lagið. Hann bannfærir Daða og yrkir níðvísur um Martein.
Sögusvið bókarinnar er Ísland um miðja 16. öld og flakka persónur sögunnar landshorna á milli. Mest ber þó á biskupsetrunum á Skálholti og Hólum, enda eru tvær helstu persónur sögunnar biskupar. Staðarháttum á Hólum er lýst nokkuð ýtarlega og bera flestar persónur hlýjan hug til þessa merka staðar. Leikurinn berst nokkrum sinnum til Danmerkur og fá lesendur að skyggnast inn í hug hins þunglynda Christians III Danakonungs sem botnar ekkert í hinni eilífu þrautseigju Jóns Arasonar. Einnig er sagt frá því sem drífur á daga hinna dönsku konungsmanna á Bessastöðum.
Innri tími sögunnar er um sextán ár en helstu atburðirnir eiga sér stað á árunum 1547-1551. Það sem gefur tímann til kynna er einkum sú staðreynd að í upphafi hvers kafla kemur fram hvar og hvenær atburðir kaflans eiga sér stað. Auk þess fjallar bókin um nokkra sögufræga atburði sem sagnfræðingar hafa tímasett nákvæmlega. Til gamans má geta þess að feðgarnir voru teknir af lífi þann 7. nóvember árið 1550, á afmælisdegi móður minnar.
Hið íslenska bændasamfélag sextándu aldar, sem lýst er í bókinni, er síður en svo fullkomið og einkennist að mínu mati fyrst og fremst af óréttlæti. Saklaust fólk eru drepið hvað eftir annað af mönnum sem telja sig yfir öll lög hafna og þessir sömu menn komast til valda í gegnum mútur og ættartengsl. Óréttlætið rís svo að mínu mati hæst í hefndinni eftir feðgana en hún felst í morðum á blásaklausum Dönum sem ekkert hafa til saka unnið annað en að vera búsettir á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að Ólafi takist með ágætum að færa lesandann hálfa fimmtu öld aftur í tímann.
Ég geri ráð fyrir að flestir sem lesið hafa bókina og þekkja sögu þjóðarinnar hafi allan tímann vitað hvernig færi fyrir þeim feðgum, enda er titill bókarinnar vísun í hin fleygu orð: „Öxin og jörðin geyma þá best,“ (bls. 287) sem eins og kunnugt er réðu örlögum Jóns Arasonar og sona hans. Á vissan hátt má segja að þetta auki bæði spennu og eftirvæntingu lesandans, ekki ósvipað áhrifum spádóma í Íslendingasögum. Að mínu mati eru aftökukaflarnir bestu kaflar bókarinnar því að Ólafur lýsir hinstu hugsunum feðganna á svo áhrifamikinn hátt.
Þegar á heildina er litið er ég nokkuð ánægður með bókina. Hún er ákaflega vel skrifuð og ljóst er að Ólafur hefur lagt sig fram við verkið og kafað djúpt í heimildir sínar. Samt sem áður fannst mér hún ekki jafnskemmtileg og ég átti von á. Kannski er það vegna þess að gjörðir og lífsskoðanir aðalpersónanna komu í veg fyrir að ég gæti með góðri samvisku haldið með þeim. Til samanburðar má nefna að í Óvinafagnaði eftir Einar Kárason var aðalpersónan, Þórður kakali, mér að skapi. Engu að síður naut ég þess að vera leiddur í gegnum þessa flóknu og athyglisverðu atburðarás og upplifa siðaskiptin frá sjónarhorni þátttakenda þeirra. Ég vona að á komandi árum sjái fleiri íslenskir rithöfundar sér fært að rita sögulegar skáldsögur úr Íslandssögunni til að tryggja íslenskri alþýðu í senn skemmtilegt og fræðandi lesefni.
Gleymum ekki smáfuglunum..