City of Glass eftir Paul Auster er fyrsta og frægasta sagan í New York þríleiknum. Hún er gríðarlega tilraunakennd og leikur sér með ýmiss hugtök bókmenntafræðinnar.

Sérstaklega athyglisvert atriði í City of Glass er það hvernig Auster leikur sér með persónur. Hann kemur t.d. ,,sjálfur” fyrir í sögunni sem rithöfundurinn Paul Auster auk þess sem Quinn, aðalpersónan, kemur fram sem fjölmargir persónuleikar. Auster byggir söguna af Quinn ofan á Don Kíkóta eftir Cervantes og er lestur City of Glass mun skemmtilegri ef D.K. hefur verið lesin áður. Þannig umbreytir Auster leit Don Kíkóta að betri heimi, sem hann ætlar sjálfur að skapa með hetjudáðum og riddaraskap, í leit Daniel Quinn að hinu hreina tungumáli. Við lestur bókarinn er hægt að finna nær endalausar skírskotanir í Don Kíkóta og nægir að nefna það að Daniel Quinn og Don Quixote hafa sömu upphafsstafi sem er í raun fyrsta vísbending.

Sagan er galopin til enda og er það einkum vegna þess að hinn uppfundni Paul Auster, sem kemur fram í bókinni, er einmitt á sögutímanum að vinna að kenningu um uppruna sögunnar um Don Kíkóta. Þannig tekst höfundi að halda manni í nokkrum vafa um það hvað er uppspuni, ímyndun og sannleikur í sköpuðum heimi bókarinnar.

Endirinn er mjög ruglandi því að höfundur skilur lesanda eftir með spurninguna um hver sé hin raunverulegi sögumaður bókarinnar, að því er virðist galopna í fyrstu en ef möguleikarnir eru grannskoðaðir þá koma í ljós tveir möguleikar sem erfitt er að velja á milli. Einnig standa eftir spurningar um hve miklu af upplifunum Quinn er hægt að taka trúanlegum sökum vísbendinga um geðheilsubrest hans.

Til að geta ráðið sem mest í skrif Austers er sennilega best að vera búinn að Lesa Don Kíkóta tvisvar eða oftar, en ég get þó lofað því að enginn áhugamaður um bókmenntir og sérstaklega bókmenntafræði mun hljóta skaða af lestri þessarar sögu.