Þegar ég rakst á þessa bók á bókasafninu vissi ég ekkert hvað biði mín. Ég hafði ekki heyrt talað um hana fyrir jólin eða í fjölmiðlum annars, svo ég bjóst nú ekki við miklu. Þar að auki er höfundurinn ungur og óreyndur en viðfangsefnið erfitt og vandmeðfarið.
Bókin fjallar í stuttumáli um líf Sögu, stúlku sem er misnotuð af bróður sínum, leiðist útí dóp og endar svo með að verða fyrir heimilisofbeldi frá sambýlismanni sínum. Á ótrúlegan hátt tekst henni þó á endanum að brjóta sig útúr þessu öllu saman.

Þetta er átakanleg saga, eins og allar sögur sem fjalla um þessi efni. Þessi bók er byggð á sönnum atburðum en skáldað inní eyðurnar. Írisi tekst að gera frásögnina trúverðuga og maður lifir sig algjörlega inní hugarheim Sögu. Það er ekkert dregið undan í lýsingunum á hörmulegum atburðum í lífi hennar og því getur verið mjög erfitt að lesa hana á tímabili og maður bíður bara eftir að sjá allt verða gott aftur.
Þó að sagan endi heldur ótrúlega og líf Sögu verði heldur öfgafult í góðu áttina og kannski aðeins of “happy ending” þá passar það kannski ágætlega við hörmulega atburi sem áður gengu yfir hana.
Stíllinn er ekki fullkominn og stundum sést að hér er ungur höfundur á ferðinni. Það skemmir þó alls ekki fyrir bókinni. Athygli manns er haldið algjörlega frá fyrstu blaðsíðu og út allar 300 síðurnar.

Mæli eindregið að fólk lesi þessa bók, stundum er gott að minna sig á það hvað maður hefur það í raun og veru gott