Fellur Mjöll í Sedrusskógi - eftir David Guterson Fyrst það er ekki mikið að gerast hérna ákvað ég að senda inn gamlan ritdóm um þessa bók. Mér fannst þessi bók gífurlega góð og ég mæli eindregið með henni.

Það eru ‘spoilerar’ í þessari grein, en ekkert sem eyðileggur bókina algjörlega. Mæli samt með að þið lesið hana áður en þið skoðið greinina, ég hata a.m.k. þegar einhver segir mér eitthvað, hversu smávægilegt sem það kann að vera um bók sem ég er að fara/er að lesa.



Fellur mjöll í Sedrusskógi

Fellur mjöll í Sedrusskógi er fyrsta skáldsaga David Guterson, en hann hafði skrifað nokkrar smásögur áður. David ólst upp í Seattle en fluttist síðan til eyjunnar Bainbridge til að geta búið þar með konu sinni og börnum. Hann kenndi ensku í framhaldsskóla þar og byrjaði að skrifa greinar í Sports Illustrated og í tímaritið Harper’s. Fellur mjöll í Sedrusskógi vann m.a hin eftirsóttu PEN/Faulkner-bókmenntaverðlaun árið 1995. Einnig hefur verið gerð kvikmynd eftir bókinni sem fékk mjög góðar viðtökur frá bæði gagnrýendum og áhorfendum.
Bókin, sem er bæði sakamála og ástarsaga gerist nokkrum árum eftir síðari heimsstyrjöldina á eyjunni San Piedro fyrir utan Bandaríkin. Sagan fjallar um bandaríkjamann af japönskum uppruna, Kabuo Miyomoto sem er fyrir rétti vegna morðs á öðrum íbúa eyjarinnnar, fiskimanninum Carl Heine. Carl hafði fundist drukknaður og flæktur í neti sínu einn morguninn. Blaðamaður sem er við réttarhöldin, Ismael Chambers sem er einnig sögumaður bókarinnar hafði þekkt konu ákærða vel frá unga aldri. Samband þeirra hafði rist mjög djúpt á sálu hans alveg þangað til henni var meinað að hitta hann og komst hann aldrei yfir þann missi.
Þó að þetta sé nokkrum árum eftir síðari heimsstyrjöldina þá eru ennþá ákveðnir fordómar gagnvart japönum, og árásirnar á Pearl Harbor ennþá ferskar í minni eyjarbúa. Sagan fjallar þess vegna að miklu leiti um fordóma sem byggjast upp í svona litlu samfélagi.
Kabuo Miyomoto er dugmikill og grófgerður uppgjafarhermaður sem dreymir um að eiga sitt eigið land og rækta jarðaber, honum finnst hann eiga rétt á því að fá sjö ekrur af landi sem Ole Jurgensen á þegar hann snýr til baka vegna þess að faðir hans hafði gert samkomulag við föður Carls, Carls Heine eldri þegar hann átti landið. Þeir höfðu samið um að Zenichi, faðir Kabuo myndi kaupa af honum sjö ekrur af landi Carls. En Japani mátti ekki eiga bandaríska jörð þannig að þeir urðu að láta þetta líta út eins og leigusamning, og eftir síðustu greiðslu myndi landið færast yfir á nafn Kabuo, sem þá yrði orðinn bandarískur ríkisborgari. En á meðan stríðinu stóð og allir Japanir af eyjunni voru sendir í búðir á Manzanar, þá hafði Carl yngri farið í stríð og Carl eldri dó. Þá nýtti eiginkona Carls eldri sér það og seldi allar 30 ekrurnar sem Carl eldri hafði átt, og þar með þessar sjö sem Zenichi hafði gert samning um að kaupa. Þetta leyfði Etta Heine, kona Carls eldri sér að gera því Zenichi stóð ekki í skilum við síðustu tvær greiðslurnar, en Carl eldri hafði sagt Zenichi að það væri í lagi ef síðustu greiðslurnar yrðu seinar, af því að þau væru í búðunum í Manzanar. Kabuo hafði alla tíð síðan reynt að fá til baka þessar sjö ekrur sem hann taldi fjölskylduland sitt.
Hinsvegar þegar Ishmael Chambers snýr til baka úr stríðinu, einum handleggi fátækari og má ofan á það ekki hitta æskuástina í lífi sínu, þ.e.a.s Hatsue sem þá hafði gifst Kabuo, þá verður hann einmana og finnur einhvern veginn enga hamingju í lífinu.
Hatsue er falleg og fáguð, hún lærði þegar hún var lítil að hreyfa sig, gera allt á mjög fágaðan, rólegan og yfirvegaðan hátt, draumur hennar og Kabuos um að rækta jarðaber og eiga býli er sameiginlegur, en frábrugðið Kabuo getur hún notið þess sem hún á á meðan hún á ekki býlið.
Ishmael Chambers er blaðamaður sem er viðstaddur réttarhöldin eins og áður var sagt, hann er sögumaður bókarinnar. Bókin er byggð upp sem hugsanir hans, og þegar hvert vitni fer í vitnastúkuna þá rekur hann sögu þeirra og fortíð. Hann hafði erft fréttablaðið síns, það var eina blaðið á eyjunni. Faðir hans, Arthur hafði alltaf verið réttlátur maður og skrifaði skoðanir í blaðið sitt, sama hvort lesendum líkaði það eður ei. Í stríðinu skrifaði hann greinar um það óréttlæti og fordóma sem Japanir á eyjunni urðu fyrir. Jafnvel þó honum væri hótað öllu illu þá skrifaði hann samt áfram sínar skoðanir í blaðið. Ishmael fannst það erfitt að standa undir öllum væntingunum sem fólk gerði til hans um að vera sanngjarn og réttlátur í öllu sem hann gerði, það er kannski einn hluti þess að hann varð svona einmana. En þegar hann hefur lausn morðsins í hendi sér og veit hvernig allt gerðist, sér hann von um að geta átt Hatsue aftur. Því verður hann að gera upp við sig hvort hann eigi að láta dómara fá sönnunina um sakleysi Kabuo, sem hann gerir, eða hvort hann eigi að reyna að fá Hatsue aftur með því að þegja yfir upplýsingunum.
Mér finnst þetta vera með betri bókum sem ég hef lesið, hún er vel skrifuð, spennandi og fræðandi um hvernig var farið með japanska innflytjendur í Bandaríkjunum á stríðstímum, einnig helst spennan um hvort Kabuo verður sakfelldur út alla bókina.
-haraldur