Ég var fyrr búinn með 2. kaflann en ég bjóst við svo ég sendi hann bara núna og vona að einhverjir hafi gaman af.



2. kafli
Endurkoma á veitingahúsið.
Áfall. Eiðurinn er rofinn.

Næstum allir í Solace náðu að staldra aðeins við á gistihúsinu Síðasta Heimilinu einhvern tíma um kvöldið þessa dagana. Fólki fannst það öruggara í hópum.
Solace hafði lengi verið viðkomustaður fyrir ferðalanga vegna staðsetningar sinnar á vegamótum. Þeir komu suðvestan frá Haven, höfuðborg Leitaranna. Þeir komu frá álfaríkinu Qualinesti fyrir sunnan. Stundum komu þeir að austan, yfir hinar hrjóstrugu sléttur Abanasiniu. Út um allan hinn siðmenntaða heim var Síðasta Heimilið þekkt sem afdrep fyrir ferðalanga og miðstöð fyrir fréttir. Það var þangað sem félagarnir þrír lögðu leið sína.
Risastór trjábolurinn hringaði sig upp á milli hinna trjánna. Lituðu rúðurnar í skítugum gluggum gistihússins glitruðu skært í ljósinu sem barst að innan út í skugga vallenviðartrjánna og lífleg hljóð bárust niður frá gluggunum. Hringaðar tröppurnar voru upplýstar af ljóskerum sem héngu niður úr greinunum. Þó að haustnóttin hefði skollið á köld innan um vallenviðartrén í Solace, þá fundu ferðalangarnir þrír hvernig félagsskapurinn og minningarnar hlýjuðu sálinni og skoluðu burt sársauka og sorgum götunnar.
Það var svo mikið að gera á gistihúsinu þetta kvöld að félagarnir þrír þurftu aftur og aftur að víkja til að hleypa mönnum, konum og börnum framhjá sér niður tröppurnar. Tanis tók eftir því að fólk leit á hann og félaga hans grunsemdaraugum – ekki velkomna augnaráðinu sem fólkið hefði sent þeim fimm árum áður.
Andlit Tanis varð hörkulegt. Þetta var ekki heimkoman sem hann hafði dreymt um. Öll þau fimmtíu ár sem hann hafði búið í Solace hafði hann aldrei fundið fyrir slíkri spennu. Sögurnar sem hann hafði heyrt um spillingu Leitaranna hlutu að vera sannar.
Fyrir fimm árum höfðu mennirnir sem kölluðu sig “leitara” (“við leitum nýju guðanna”) verið lausgróin samtök klerka sem stunduðu þessi nýju trúarbrögð sín í bæjunum Haven, Solace og Gateway. Þessir klerkar höfðu verið afvegaleiddir, fannst Tanis, en þeir höfðu a.m.k. verið heiðarlegir og einlægir. Á árunum síðan þá, hins vegar, höfðu klerkarnir hlotið meiri og meiri virðingu eftir því sem trúarbrögð þeirra blómstruðu. Þeir höfðu fljótt farið að hafa minni áhyggjur af dýrð lífsins eftir dauðann og hugsa meira um völd sín á Krynn. Þeir tóku við stjórn bæjanna með blessun fólksins.
Snerting við handlegg Tanis truflaði hann í hugleiðingum sínum. Hann sneri sér við og sá Flint benda niður fyrir sig. Tanis leit niður og sá verði marséra framhjá, fjórir og fjórir saman. Þeir voru vopnaðir upp að tönnum og spígsporuðu um fullir sjálfsálits.
“Þeir eru að minnsta kosti mennskir – ekki svartálfar,” sagði Tas.
“Þessi svartálfur hló að mér þegar ég minntist á Háklerkinn,” velti Tanis fyrir sér. “Eins og þeir ynnu fyrir einhvern annan. Hvað ætli sé eiginlega um að vera?”
“Kannski geta vinir okkar sagt okkur það,” sagði Flint.
“Ef þeir eru hérna,” bætti Tasslehoff við. “Margt gæti hafa gerst á þessum fimm árum.”
“Þeir koma – ef þeir eru á lífi,” bætti Flint við lágt. “Þetta var helgur eiður sem við sórum – að hittast aftur að fimm árum liðnum og skýra frá því sem við höfðum komist að varðandi þá illsku sem er að breiðast út um heiminn. Að hugsa sér að við skyldum koma heim og finna illsku við okkar eigin dyr!”
“Uss! Suss!” Nokkrir vegfarendur voru svo skelfdir á svip við orð dvergsins að Tanis hristi höfuðið.
“Við ættum líklega ekki að vera að tala um það hérna,” ráðlagði hálfálfurinn.
Þeir höfðu gengið tröppurnar á enda og Tas opnaði dyrnar upp á gátt. Bylgja af ljósi, hávaða, hita og kunnuglega ilminum af hinum krydduðu kartöflum Otiks mætti þeim. Hún gleypti þá og skolaðist sefandi yfir þá. Otik hafði ekkert breyst, þar sem hann stóð bak við barinn alveg eins og í minningu þeirra, nema þá að hann var hugsanlega orðinn enn holdugri. Veitingahúsið virtist ekki hafa breyst heldur, fyrir utan að vera orðið enn þá þægilegra.
Tasslehoff hrópaði upp yfir sig, eftir að hafa litið snöggt í kringum sig með sínum glöggu kenderaugum og benti hinum megin í herbergið. Það var fleira sem hafði ekki breyst – birtan frá arineldinum þar sem hún glampaði á skínandi, vængjaðan drekahjálm.
“Hver er þetta?” spurði Flint og pírði augun.
“Caramon,” svaraði Tanis.
“Þá mun Raistlin vera hérna líka,” sagði Flint án þess að hleypa mikilli hljýju í röddina.
Tasslehoff var þegar byrjaður að smeygja sér í gegnum þvöguna af muldrandi fólki án þess að neinn tæki eftir hinum litla lipra líkama hans þegar hann fór framhjá þeim. Tanis vonaði innilega að kenderinn væri ekki að afla sér neinna hluta frá viðskiptavinum veitingahússins. Ekki það að hann stæli hlutum – Tasslehoff hefði orðið mjög sár ef einhver hefði sakað hann um þjófnað. En kenderinn bjó yfir óseðjandi forvitni, og alls konar áhugaverðir hlutir sem tilheyrðu öðru fólki áttu það til að falla í eigu Tas. Það sem Tanis vildi síst af öllu í kvöld voru vandræði. Hann minnti sjálfan sig á að hann þyrfti að tala aðeins við kenderinn í einrúmi.
Hálfálfurinn og dvergurinn mjökuðu sér í gegnum mannfjöldann en ekki alveg jafn auðveldlega og hinn liti vinur þeirra. Næstum hver einasti stóll var upptekinn, hvert borð fullsetið. Þeir sem fundu sér ekki sæti voru standandi og töluðu saman í hálfum hljóðum. Fólk leit á Tanis og Flint ýmist myrkum augum, grunsemdaraugum eða forvitnisaugum. Enginn heilsaði Flint, þrátt fyrir að nokkrir viðstaddra höfðu verið langtímaviðskiptavinir hans þegar hann hafði verið járnsmiður. Íbúar Solace höfðu sín eigin vandamál, og það var greinilegt að Tanis og Flint voru nú álitnir aðkomumenn.
Djúpt öskur hljómaði yfir stofuna, frá borðinu þar sem drekahjálmurinn lá glampandi í skininu frá arninum. Stíft andlitið á Tanis bráðnaði í bros þegar hann sá hinn risastóra Caramon lyfta hinum smáa Tas af gólfinu í bjarnfaðmlagi.
Þar sem Fint óð í gegnum haf af beltissylgjum, gat hann aðeins ímyndað sér þá sjón á meðan hann hlustaði á djúpa rödd Caramons svara tístandi kveðju Tasslehoffs. “Caramon ætti að passa upp á veskið sitt,” muldraði Flint. “Eða telja tennurnar sínar.”
Dvergurinn og hálfálfurinn komust loks í gegnum þvöguna við barinn. Borðinu sem Caramon sat við hafði verið ýtt upp að trjábolnum. Það var reyndar skringilega staðsett. Tanis velti fyrir sér hvers vegna Otik hafði fært það fyrst allt annað var á sínum stað. En vangavelturnar stöldruðu ekki við lengi, því það var komið að honum að hljóta innilegt faðmlag stóra stríðsmannsins. Tanis flýtti sér að fjarlægja langbogann og örvamælinn af bakinu áður en Caramon kramdi þá.
“Vinur minn!” Augu Caramons voru rök. Hann virtist ætla að segja meira en tilfinningarnar báru hann ofurliði. Tanis átti líka í tímabundnum erfiðleikum með að tala, en það var vegna þess að vöðvastæltir handleggir Caramons höfðu kreist allt loft úr honum.
“Hvar er Raistlin?” spurði hann þegar hann náði andanum. Það var aldrei langt á milli tvíburanna.
“Þarna.” Caramon kinkaði kolli í átt að borðsendanum. Síðan yggldi hann sig. “Hann hefur breyst,” aðvaraði stríðsmaðurinn Tanis.
Hálfálfurinn leit inn í hornið, sem óregluleg lögun vallenviðartrésins myndaði. Hornið var umlukið skugga og um stund sá hann ekkert eftir bjarmann frá eldinum. En þá sá hann grannvaxna mannveru sitja samanhnipraða í rauðri skikkju, þrátt fyrir hitann frá arninum rétt hjá. Hetta á skikkjunni huldi andlit mannverunnar.
Tanis fann allt í einu að hann var dálítið tregur til að tala við unga galdramanninn einsamall, en Tasslehoff hafði látið sig hverfa til að finna gengilbeinuna og Flint var rétt í þessu að fá sinn skerf af faðmlagi Caramons. Tanis færði sig út að enda borðsins.
“Raistlin?” sagði hann, en fann á sér að eitthvað slæmt væri í vændum.
Skikkjuklædda veran leit upp. “Tanis?” hvíslaði maðurinn um leið og hann dró hettuna hægt frá andlitinu.
Hálfálfurinn greip andann á lofti og tók ósjálfrátt eitt skref aftur á bak. Hann starði af hryllingi.
Andlitið sem sneri sér að honum úr skugganum var andlit tekið beint upp úr martröð. Breyst, hafði Caramon sagt! Tanis hryllti sig. “Breyting” var ekki rétta orðið! Hvít húð galdramannsins hafði tekið á sig gylltan lit. Það glitraði í ljósinu frá arninum næstum eins og málmur og leit út eins og hryllileg gríma. Holdið hafði bráðnað af andlitinu og skilið kinnbeinin eftir afmörkuð af ógnvænlegum skuggum. Varirnar voru samanbitnar og mynduðu dimma, beina línu. En það voru augu mannsins sem fönguðu Tanis og héldu honum föstum í augnaráði sínu. Því að augun voru ekki lengur augu neins lifandi manns sem Tanis hafði nokkurn tíman séð. Svörtu augasteinarnir voru nú í laginu eins og stundarglös! Ljósbláu lithimnurnar sem Tanis mundi eftir glitruðu núna gylltar!
“Ég sé að útlit mitt kemur þér úr jafnvægi,” hvíslaði Raistlin. Það vottaði fyrir brosi á þunnum vörunum.
Tanis kyngdi um leið og hann settist andspænis unga manninum. “Í nafni sönnu guðanna, Raistlin –“
Flint lét sig falla í sæti við hliðina á Tanis. “Mér hefur verið sveiflað um oftar í dag en – Reorx!” Augu Flints stækkuðu. “Hvaða illska er að verki hér? Eru þetta álög?” Dvergurinn tók andköf og starði á Raistlin.
Caramon settist við hlið bróður síns. Hann lyfti ölkrúsinni sinni og leit á Raistlin. “Ætlarðu að segja þeim það, Raist?” sagði hann lágmæltur.
“Já,” sagði Raistlin svo hvissandi að Tanis fékk gæsahúð. Ungi maðurinn talaði mjúkri, hvæsandi röddu, varla hærri en hvísl, eins og hann gæti rétt svo stunið orðunum út úr sér. Hann fitlaði annars hugar við ósnertan mat á disk fyrir framan sig með löngum, óstyrkum höndum sem voru eins gylltar og andlitið.
“Muniði eftir því þegar við skildum fyrir fimm árum?” byrjaði Raistlin. “Við bræðurnir vorum að leggja af stað í svo leynilega ferð að ég gat ekki einu sinni sagt ykkur frá því, kæru vinir, hvert förinni var heitið.”
Það mátti greina óljósa kaldhæðni í mjúkri röddinni. Tanis beit í vörina. Raistlin hafði aldrei – á allri sinni ævi – átt neina “kæra vini.”
“Ég hafði verið útvalinn af Par-Salian, yfirmanni reglu minnar, til að þreyta Prófið,” hélt Raistlin áfram.
“Prófið!” endurtók Tanis, agndofa. “En þú varst of ungur. Hvað – tvítugur? Prófið er aðeins lagt fyrir galdramenn sem hafa lært árum saman –“
“Þú getur rétt svo ímyndað þér hvað ég var stoltur,” sagði Raistlin kuldalega, pirraður yfir trufluninni. “Við bræðurnir ferðuðumst að leynistaðnum – hinum sögufrægu Turnum Æðri Galdra. Og þar stóðst ég Prófið.” Rödd galdramannsins sökk. “Og þar lét ég nærri því lífið!”
Caramon svelgdist á, augljóslega vegna einhverrar sterkrar tilfinningar. “Það var hræðilegt,” byrjaði stóri maðurinn, röddin skjálfandi. “Ég kom að honum á þessum hryllilega stað, blóðið streymdi úr munninum á honum, hann var að deyja! Ég lyfti honum upp og –“
“Þetta er nóg, bróðir!” Það smellti í mjúkri rödd Raistlins eins og svipu. Caramon kipptist við. Tanis sá gyllt augu unga galdramannsins kiprast, beinabera hnefana kreppast. Caramon þagnaði og renndi ölinu niður, á meðan hann horfði órólega á bróður sinn. Það hafði greinilega myndast einhver ný spenna á milli tvíburanna.
Raistlin dró andann djúpt og hélt áfram. “Þegar ég vaknaði,” sagði galdramaðurinn, “hafði húð mín tekið á sig þennan lit – ummerki þjáningar minnar. Líkami minn og heilsa eru óbætanlega sköðuð. Og augun mín! Ég horfi í gegnum augasteina í formi stundarglasa og þess vegna sé ég tímann – eins og hann hefur áhrif á alla hluti. Ég sé þig meira að segja núna þegar ég horfi á þig, Tanis,” hvíslaði galdramaðurinn, “ég sé þig deyjandi, hægt og bítandi, smám saman. Og þannig sé ég alla lifandi hluti.”
Raistlin greip með mjórri hendi um handlegg Tanis. Hálfálfurinn skalf við kalda snertinguna og byrjaði að færast undan, en gyllt augun og köld hendin héldu honum föstum.
Galdramaðurinn hallaði sér fram á við, augun í honum glömpuðu sjúklega. “En ég bý yfir mætti núna!” hvíslaði hann. “Par-Salian sagði mér að sá dagur myndi koma er máttur minn muni móta veröldina! Ég hef mátt og” – hann benti – “Magius stafinn.” Tanis leit þangað og sá staf hallast upp að boli vallenviðartrésins innan færis fyrir Raistlin að teygja sig auðveldlega í hann. Þetta var venjulegur viðarstafur. Björt kristalkúla, greypt inn í gyllta kló sem var höggvin út þannig að hún líktist drekakló, glitraði á efri endanum.
“Var það þess virði?” spurði Tanis hljóðlega.
Raistlin einblíndi á hann, en síðan mynduðu varirnar á honum afbakað glott. Hann dró hendina frá handlegg Tanis og krosslagði hendurnar inn í ermum skikkjunnar. “Auðvitað!” hvæsti galdramaðurinn. “Máttur er það sem ég hef lengi sóst eftir – og sækist enn eftir.” Hann hallaði sér aftur á bak og grönn ásýnd hans blandaðist dimmum skuggunum þar til það eina sem Tanis gat greint voru gyllt augun, glitrandi í bjarmanum frá eldinum.
“Öl,” sagði Flint, ræskti sig og sleikti varirnar eins og hann væri að reyna að losa sig við vont bragð úr munninum. “Hvað er orðið af þessum kender? Það kæmi mér ekki á óvart þó hann hafi stolið gengilbeinunni –“
“Við erum hérna,” æpti Tas með sinni glaðlegu rödd. Hávaxin, ung, rauðhærð stelpa stóð yfir honum og hélt á bakka með drykkjarkönnum.
Caramon brosti. “Jæja, Tanis,” drundi í honum, “gettu hver þetta er. Þú líka Flint. Ef ykkur tekst það þá er þessi umferð í mínu boði.”
Tanis var glaður yfir að geta leitt hugann frá óhugnanlegri sögu Raistlins og horfði á hlæjandi stelpuna. Rautt, krullað hár vafði sig um andlit hennar, græn augun dönsuðu af kæti og nefið og kinnarnar voru þaktar freknum. Tanis fannst eins og hann myndi eftir augunum, en umfram það var hann glórulaus.
“Ég gefst upp,” sagði hann. “En aftur á móti virðist okkur álfum menn breytast svo hratt að við náum ekki að fylgjast með. Ég er hundrað og tveggja ára, en lít ekki út fyrir að vera eldri en þrjátíu í ykkar augum. Og fyrir mér virðast þessi hundrað ár vera sem þrjátíu. Þessi unga kona hlýtur að hafa verið barn þegar við fórum.”
“Ég var fjórtán ára.” Stúlkan skellti upp úr og lagði bakkann frá sér á borðið. “Og Caramon var vanur að segja að ég væri svo ljót að faðir minn yrði að borga einhverjum fyrir að giftast mér.”
“Tika!” Flint sló hnefanum í borðið. “Þú býður, stóri þöngulhausinn þinn!” Hann benti á Caramon.
“Þetta var ekki sanngjarnt!” hló risinn. “Hún gaf þér vísbendingu.”
“Jæja, tíminn hefur leitt annað í ljós,” sagði Tanis brosandi. “Ég hef ferðast marga götuna og þú ert ein af fallegustu stelpum sem ég hef séð á Krynn.”
Tika roðnaði af ánægju. Síðan dimmdi yfir henni. “Meðan ég man, Tanis” – hún teygði sig ofan í vasann og dró fram sívalan hlut – “þetta barst í dag handa þér. Við skringilegar aðstæður.”
Tanis gretti sig og teygði sig eftir hlutnum. Þetta var lítið bréfahulstur búið til úr svörtum, vel pússuðum við. Hann dró hægt þunna bókfellsrúllu út úr hulstrinu og vafði því sundur. Hjarta hans sló óþægilega þegar hann sá þykka, svarta skriftina.
“Það er frá Kitiöru,” sagði hann að lokum, meðvitaður um hve þvinguð og ónáttúruleg röddin hans hljómaði. “Hún kemur ekki.”
Það var stundarþögn. “Þar höfum við það,” sagði Flint. “Hringurinn er slitinn, eiðurinn rofinn. Ólán.” Hann hristi hausinn. “Ólán.”