Ég byrjaði af einhverri rælni að þýða bókina Dragons of Autumn Twilight úr bókaflokknum Dragonlance eftir Margaret Weis og Tracy Hickman, einhvern tíma í fyrravor, þýddi innganginn og fyrsta kaflann en hef síðan svo til ekkert haldið áfram með þetta. Nú langar mig til að halda áfram að þýða, en þar sem sagan er um 1200 bls. þá vantar mig aðhald, sem fæst einmitt með eftirspurn, svo og álit annarra á þýðingunni. Svo ég var að velta því fyrir mér hvort þið nenntuð að lesa þetta og segja mér hvað ykkur finnst. Ég hef reyndar ekki kynnt mér hvernig er hægt að nálgast þessar bækur á ensku því frændi minn lánaði mér þær, en mér finnst þær bráðskemmtilegar og persónurnar mjög lifandi. Ef einhver getur gefið upplýsingar um það væri það vel metið. Einnig er ég ekki alveg viss hvort það er búið að þýða þetta á íslensku en ég held ekki þó. Ef einhver getur frætt mig um það þá yrði ég þakklátur því það gæti komið í veg fyrir að ég eyddi meiri tíma í óþarfa. Í upphafi bókarinnar er kynning á aðalpersónunum og svo ljóð sem segir frá forsögu sögunnar, en þar sem engin af aðalpersónunum kemur fyrir í innganginum þá ætla ég að sleppa kynningunni í bili og einnig ljóðinu þar sem ég vil ekki þreyta ykkur. Hér fylgir því inngangurinn en framhaldið kemur síðar ef áhugi er fyrir.




Gamli maðurinn


Tika Waylan rétti úr sér og andvarpaði, um leið og hún sveigði axlirnar til að lina kreppta vöðvana. Hún henti sápugri bartuskunni í vatnsfötuna og litaðist um tómt herbergið.
Það var að verða erfiðara að halda uppi gamla veitingahúsinu. Mikilli ást hafði verið nuddað í hlýja áferðina á viðnum, en jafnvel ást og vax gat ekki falið sprungurnar í mikið notuðum borðunum eða hindrað viðskiptavini í því að setjast á einstaka flís. Gistihúsið “Síðasta Heimilið” var ekki glæsilegt, eins og sum sem hún hafði heyrt um í Haven. Það var þægilegt. Tréð sem það var byggt í vafði fornum örmum sínum um það ástúðlega, á meðan veggirnir og festingarnar höfðu verið höggnar til umhverfis krónu trésins af svo mikilli nákvæmni að það var ógerlegt að sjá mörkin á milli þess sem hafði verið gert af mannahöndum og þes sem var af náttúrunnar hendi. Barinn virtist flæða í bylgjum umhverfis lifandi viðinn sem hélt honum uppi. Litaða glerið í gluggunum varpaði velkomnum geislum í fjölbreyttum litum yfir herbergið.
Skuggunum fór fækkandi eftir því sem hádegi nálgaðist. Síðasta Heimilið myndi bráðum vera opið viðskiptavinum. Tika leit í kringum sig og brosti af ánægju. Borðin voru hrein og fægð. Það eina sem hún átti eftir að gera var að sópa gólfið. Hún var að byrja að færa til trébekkina þegar Otik birtist í eldhúsdyrunum, umvafinn ilmandi gufu.
“Þetta ætti að verða hressandi dagur í dag – þá á ég bæði við veðrið og viðskiptin,” sagði hann um leið og hann tróð digrum búknum á bak við barinn. Hann flautaði glaðlega á meðan hann byrjaði að raða bollum á borðið.
“Ég vildi að viðskiptin væru rólegri en veðrið heitara,” sagði Tika og dró til bekk. “Ég gekk af mér fæturnar í gær og fékk litlar þakkir fyrir og enn minna þjórfé! Svo þrúgandi þessi mannfjöldi! Allir svo trekktir, hrökkva í kút við hvert hljóð. Ég missti bolla í gólfið í gærkvöldi og – ég get svarið það – Retark brá sverðinu sínu!”
“Pah” hnussaði í Otik. “Retark er Leitaravörður. Þeir eru alltaf á nálum. Þú værir það líka ef þú þyrftir að vinna fyrir Hederick, þann ofstækis-“
“Gættu þín,” aðvaraði Tika hann.
Otik yppti öxlum. “Háklerkurinn er ekki að hlusta á okkur nema hann geti flogið núna. Ég myndi heyra fótatakið hans í tröppunum áður en hann gæti heyrt í mér.” En Tika tók eftir því að hann lækkaði róminn þegar hann hélt áfram. “Íbúarnir hérna í Solace munu ekki sætta sig við mikið meira, sannaðu til. Fólk alltaf að hverfa, dregið í burtu hver veit hvert. Þetta eru sorglegir tímar.” Hann hristi hausinn. Síðan birti yfir honum. “En það kemur sér vel fyrir viðskiptin.”
“Þangað til hann neyðir okkur til að loka,” sagði Tika niðurdregin. Hún greip um kústinn og hóf að sópa af kappi.
“Jafnvel guðveldissinnar þurfa að fylla magann og þvo eldinn og brennisteininn úr kverkunum.” Otik hló með sjálfum sér. “Þetta starf hlýtur að gera mann þyrstan, að predika yfir fólki um Nýju Guðina dagin út og daginn inn – hann er hérna inni á hverju kvöldi.”
Tika hætti að sópa og hallaði sér að barnum.
“Otik,” sagði hún alvarlegri röddu og lækkaði róminn. “Það er talað um annað líka – um stríð. Herir að safnast saman fyrir norðan. Og svo eru það þessir skrítnu hettuklæddu menn í bænum, sem eru alltaf að þvælast með Háklerkinum og spyrja spurninga.”
Otik virti nítján ára stelpuna fyrir sér ástúðlega, teygði hendina til hennar og strauk henni um vangann. Hann hafði verið henni sem faðir, alveg síðan hennar eigin hafði horfið á svo dularfullann hátt. Hann vafði rauðum krullunum hennar um fingurinn á sér.
“Stríð. Púh.” Hann saug upp í nefið. “Það hefur verið talað um stríð alveg síðan fyrir Syndaflóðið. Þetta eru bara sögusagnir. Kannski er Háklerkurinn að skálda þetta til að halda fólki við efnið.”
“Ég veit það ekki.” Tika hnyklaði brýnnar. “Ég-“
Dyrnar opnuðust.
Bæði Tika og Otik hrukku við af ótta og sneru sér að dyrunum. Þau höfðu ekki heyrt fótatak í tröppunum, og það var óskiljanlegt! Gistihúsið var byggt hátt uppi í greinum risastórs vallenviðartrés, rétt eins og allar aðrar byggingar í Solace, nema verkstæði járnsmiðsins. Íbúar Solace höfðu afráðið að flytjast upp í trén í allri ringulreiðinni og ógnunum sem fylgdu í kjölfar Syndaflóðsins. Og þannig var það að Solace varð að trjábæ, eitt af fáum virkilega fallegum undrum sem eftir voru á Krynn. Sterkbyggðar trébrýr tengdu húsin saman og viðskipti fóru fram hátt fyrir ofan jörðina þar sem fimm hundruð manns sinntu sínum daglegu störfum. Síðasta Heimilið var stærsta byggingin í Solace og trónaði tólf metra yfir jörðinni. Tröppur klifu umhverfis kvistóttan bol forns vallenviðartrésins. Eins og Otik sagði, þá myndi heyrast í hverjum sem kæmi upp tröppurnar löngu áður en hann kæmi í sjónmál.
En hvorki Tika né Otik höfðu heyrt í gamla manninum.
Hann stóð í dyrunum, hallaði sér fram á slitinn eikarstaf, og leit í kringum sig. Ræfilsleg hettan á látlausri, grárri skikkjunni hans var dregin yfir hausinn á honum og skyggði á allt andlitið nema hauksleg, skínandi augun.
“Get ég hjálpað þér, gamli maður?” spurði Tika ókunnuga manninn, um leið og hún og Otik litu áhyggjufull hvort á annað. Var þessi gamli maður njósnari fyrir Leitarana?
“Hmm?” Gamli maðurinn deplaði augunum. “Er opið?”
“Tjah…” Tika hikaði.
“Vissulega,” sagði Otik og brosti breitt. “Komdu inn fyrir, Gráskeggur. Tika finndu stól handa gestinum okkar. Hann hlýtur að vera þreyttur eftir að klifra upp stigann.”
“Stigann?” Gamli maðurinn klóraði sér í hausnum, leit á veröndina, og síðan niður á jörðina. “Ó, já. Stigann. Rosalega langur stigi…” Hann haltraði inn fyrir og sveiflaði stafnum sínum glettnisleg í átt að Tiku. “Halt þú áfram því sem þú átt að vera að gera, stelpa. Ég er fær um að finna mér stól sjálfur.”
Tika yppti öxlum, teygði sig í kústinn og byrjaði að sópa, en tók samt ekki augun af gamla manninum.
Hann stóð í miðjunni á gistihúsinu og leit í kringum sig eins og hann væri að leggja á minnið staðsetninguna á hverju einasta borði og stól í herberginu. Setustofan var stór og í laginu eins og baun þar sem hún vafði sig um bolinn á vallenviðartrénu. Aðrar greinar trésins héldu uppi gólfinu og þakinu. Hann horfði með sérstökum áhuga á arininn, sem var staðsettur u.þ.b. þrjá fjórðu af leiðinni frá dyrunum og að hinum enda herbergisins. Arininn var það eina í öllu gistihúsinu sem var byggt úr steini, og hann var augljóslega gerður af dvergahöndum, þannig að hann leit út fyrir að vera hluti af trénu þar sem hann vatt sig svo eðlilega upp á milli greinanna fyrir ofan. Troðfull fata af eldivið úr barrtrjáagreinum ofan úr fjöllum var við hliðina á arninum. Engum af íbúum Solace dytti í hug að brenna viðinn úr þeirra eigin mikilfenglegu trjám. Það var hægt að komast út um eldhúsið í gegnum hlera, það var 12 metra fall, en örfáir af viðskiptavinum Otiks fannst þetta fyrirkomulag afar heppilegt. Það fannst gamla manninum líka.
Hann muldraði ánægjulegar athugasemdir á meðan augu hans litu af einum stað yfir á annan. Síðan lét hann – Tiku til mikillar undrunar – stafinn detta á gólfið, bretti upp ermarnar á skikkjunni sinni og hóf að endurraða húsgögnunum!
Tika hætti að sópa og hallaði sér fram á kústinn. “Hvað ertu að gera? Þetta borð hefur alltaf verið þarna!”
Langt, mjótt borð stóð í miðjunni á setustofunni. Gamli maðurinn dró það þvert yfir gólfið og ýtti því upp að bolnum á risastóru vallenviðartrénu, beint á móti arninum, síðan bakkaði hann frá því til að dást að því sem hann hafði gert.
“Svona,” rumdi í honum. “Á að vera nálægt arninum. Komdu nú með tvo stóla í viðbót hingað. Ég þarf sex hérna í kring.”
Tika sneri sér að Otik. Hann virtist að því kominn að mótmæla, en einmitt þá blossaði bjart ljós út úr eldhúsinu. Öskur frá kokkinum gaf til kynna að kviknað hefði í feitinni eina ferðina enn. Otik flýtti sér að eldhúsinu.
“Hann er meinlaus,” másaði hann um leið og hann gekk fram hjá Tiku. “Leyfðu honum að gera það sem hann vill – innan skynsamlegra marka. Kannski ætlar hann að halda veislu.”
Tika andvarpaði og færði gamla manninum tvo stóla í viðbót eins og hann hafði beðið um. Hún lét þá frá sér þar sem hann benti henni.
“Jæja,” sagði gamli maðurinn og leit snöggt í kringum sig. “Komdu nú með tvo stóla – þægilega stóla – hingað. Settu þá við hliðina á arninum í þetta dimma horn hér.”
“Það er ekki dimmt,” mótmælti Tika. “Það er baðað í sólarljósi!”
“Ah” – gamli maðurinn pírði augun – “en það verður dimmt í kvöld, er það ekki? Þegar eldurinn logar í arninum…”
“Ég – ég býst við því…” stamaði Tika.
“Komdu nú með stólana. Já, góð stelpa. Og ég vil hafa einn, nákvæmlega hérna.” Gamli maðurinn benti á stað beint fyrir framan arininn. “Fyrir mig.”
“Ætlarðu að halda veislu, gamli maður?” spurði Tika á meðan hún hélt á þægilegasta, mest notaða stólnum í gistihúsinu.
“Veislu?” Gamla manninum virtist skemmt við tilhugsunina. Hann hló með sjálfum sér. “Já stelpa. Það mun verða meiri veisla en íbúar Krynn hafa orðið vitni að síðan fyrir Syndaflóðið! Vertu viðbúin, Tika Waylan, vertu viðbúin!”
Hann klappaði henni á öxlina, aflagaði hárið hennar og settist síðan í stólinn.
“Ölkrús, takk,” skipaði hann.
Tika fór og náði í ölið. Það var ekki fyrr en eftir að hún fært gamla manninum drykkinn sinn og var byrjuð að sópa aftur, að hún stoppaði til að velta því fyrir sér hvernig hann vissi hvað hún hét.