Ljúlí, Ljúlí eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur er ákaflega skemmtileg saga eftir skemmtilegan rithöfund. Stíllinn er persónulegur og söguþráðurinn áhugaverður. Sagan fjallar um Sögu, unga menntaskólastúlku sem býr í furðulegri sambúð við föður sinn og fáeina bóhema vini hans í skrýtinni borg sem er kölluð í sögunni Reykjavík þótt ég kannist ekki við hana. Kannski fyrir sakir furðulegs uppeldis sker hún sig úr og á ekki beint marga vini, hún hefur ákveðið að taka sér ársfrí eftir að hafa klárað Hamrahlíðina á aðeins þremur árum, og á margt eftir á daga hennar að drífa.
Þetta er lífreynslusaga, svona saga um umskiptin frá því að vera unglingur yfir í að verða fullorðin. Hún byrjar í því sem næst forboðnu sambandi við einn listamanni, vin föður síns, þann sem er sífellt á heimili þeirra. Þá má segja að hún hafi verið ung og saklaus en umrótið byrjar, sem mótar hana mikið og breytir öllu verulega.
Ég hafði gaman að þessari bók, hún heltók mig um stund, aðalsögupersónan er algerlega okkar, við verðum að henni og okkur er ekki sama um hana. Maður fylgir afdrifum hennar eftir spenntur og verður fyrir hálfgerðu spennufalli við hálffurðulegan endirinn.
Ljúlí, ljúlí er einstaklega skemmtileg bók sem ég mæli eindregið með.