Bókin American Gods er eftir Neil Gaiman sem einnig er þekktur fyrir Sandman bækur sínar. Hann á um tuttugu ára feril sem rithöfundur að baki og hefur unnið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín á þeim tíma.
-

Aðalpersóna American Gods er Shadow. Hann er við það að ljúka þriggja ára afplánun fyrir líkamsárás í byrjun bókarinnar og lætur sig hlakka til að geta hitt eiginkonu sína og hefur ákveðið að halda sig langt frá öllu veseni það sem eftir er. Skömmu áður en afplánun hans líkur er honum þó tilkynnt að Laura, eiginkona hans,hafi látist af slysförum og er hleypt út nokkrum dögum fyrr en ella. Shadow leggur af stað til að vera viðstaddur jarðarför hennar en hittir undarlegan mann á leið sinni sem kallar sig Wednesday. Wednesday þessi býður honum að vinna fyrir sig og þar sem Shadow er nýbúinn að missa allt sem hann átti tekur hann tilboðinu.

Það er upphafið að undarlegu ferðalagi þeirra um Bandaríkin þar sem Shadow á eftir að hitta hið undarlegasta fólk. Eftir því sem á bókina líður kemst Shadow þó að því að hann er ekki jafn ómerkilegur og hann taldi sig vera og reynir að svipta hulunni af þeim leyndardómum sem leynast í kringum hann.
Persónulega fannst mér erfitt að melta þessa sögu og var óvenju lengi með hana. Það var þó alls ekki vegna þess að hún væri leiðinleg þar sem mér fannst þetta að öllu jöfnu skemmtilegur lestur. Líklegast get ég þó kennt því um að það er langt síðan ég las bók með eitthvað djúpu plotti. ;)

Fléttan var skemmtilega unnin og fannst mér mjög gaman að sjá hvernig hann Gaiman vann úr þessu. Sum atriðin voru samt frekar ruglingsleg og erfitt að skilja en það kom að mínu mati ekki niðri á sögunni.

Mér fannst þetta mjög góð bók og það voru margar skemmtilegar pælingar í henni. Ég efast um að hún hafi verið þýdd á íslensku en það eintak sem ég las var á ensku. Enskan var ekki flókin þannig að það ætti ekki að þurfa að aftra þeim sem finnst þeir ekki vera nógu sleipir í tungumálinu. :)
=)