Samúel Samúel - e. Mikael Torfason

Bókin Samúel fjallar, eins og gefur að skilja, um Samúel. Hann er geðtruflaður, líklega haldinn geðklofa eða geðklofalíkri persónuleikröskun, og hefur ýmsar ranghugmyndir um heiminn í kringum sig. Hann á, að því er virðist, í mjög afbrigðilegu sambandi við konu sína og móður og kemur með eindæmum illa fram við báðar.
Samúel býr í smábæ við Aarhus (Árósa) í Danaveldi. Hann hefur óbeit á því samfélagi er hann lifir í og er skipulega að berjast gegn nýfasismanum sem þar á sér stað. Hann leitar í félagskap anarkista og múslima, þar sem hann er að skipuleggja byltingu með skrifum bókar.
Í gegnum bókina á Samúel í baráttu við raunveruleikann sem hann afneitar staðfastlega og telur sig auðveldlega geta flúið. Á endanum fer Samúel yfirum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og tekur bókin þá skref í aðra átt.

Þessi saga Mikaels er frábærlega vel skrifuð og samsett. Hún kemur verulega á óvart og heldur manni ævinlega við efnið. Í fyrrihluta bókarinnar byggir frásögnin að mestu leiti á hugsunum Samúels og því hvernig fortíðin hefur mótað hann. Seinna kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist og verður sagan aftur fersk og í raun er maður að læra um hann Samúel upp á nýtt í seinni hlutanum.

Áberandi í bókinni eru róttækar hugsanir vitfirrings sem hefur fengið nóg af hinum lítilmótlegu gildum vesturlanda og yfirgangi þeirra í heimsmálum. Þar kemur fram óbeit á því hvernig fólk kýs að loka augunum fyrir óförum heimsins og hneppa sig í varðhald neyslunar og lífsgæðakapphlaupsins. Bókin er hápólitísk og tekur fast á málum innflytjenda á norðurlöndum, ástandinu í miðausturlöndum og hverskyns þjóðernisrembingi og rasisma. Einnig eru Danir gagnrýndir harkalega en það er fremur vegna ytri aðstæðna bókarinnar, ekki vegna óbeitar höfundar í garð baunverja (enda býr hann í Danmörku).

Ég mæli með þessari bók fyrir hvern sem hefur fastmótaðar skoðanir á heimsmálum eða áhuga á sálarástandi hinna veiku og afbrigðilegu. Ég er þess fullviss að þessi bók mun koma upp þegar rætt verður um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.