Mac Cube G4 lifir enn! Þegar G4 Kubburinn var fyrst kynntur fyrir tæpum átta árum fóru munnvatnskirtlarnir mínir í overdrive og ég gat hugsað um fátt annað en að splæsa í eitt stykki. En því miður var ég bara 17 ára fátækur námsmaður og tölvan dýr. Horfði ég því með mikilli eftirsjá á kubbinn koma og fara. Hann staldraði einungis við í eitt ár á markaðnum og því var þessi pynting skammvinn. Ástæðan var sú að salan gekk illa sökum þess að Kubburinn var umtalsvert dýrari en sambærileg G4 Power Mac turnvél sem þó hafði mun meiri uppfærslumöguleika. Á þessu eina ári seldust því aðeins um 148 þúsund Kubbar, og eru margir þeirra enn í umferð. Kubburinn kom úr kassanum útbúinn 450 MHz örgjörva (500 MHz voru síðar fáanlegir), 64 MB RAM, 20 GB hörðum diski, 5x DVD drifi og 16 MB skjákorti.

En hvers vegna að halda í tölvu sem fyrir sex árum taldist úreld? - Ástæðan er einföld: Hún er viðurstyggilega falleg, ótrúlega nett og síðast, en alls ekki síst, uppfæranleg.
Í dag er hægt að uppfæra Kubbinn með góðu móti upp í tvo (dual) 1.8 GHz G4 örgjörva, 1.5 GB RAM, 64 MB skjákorti, Combo DVD drifi og eins stórum hörðum diski og maður hefur efni á (með hjálp eATA, en annars er hámarkið 126 GB). Þetta eru alls ekki amalegar tölur, sérstaklega ekki fyrir átta ára gamla tölvu. Úr kassanum, ásamt hræódýrum RAM uppfærslum, keyrir Kubburinn Mac OS X stýrikerfið leikandi, en til þess að keyra Leopard þarf að uppfæra örgjörvan í a.m.k. 800 MHz.

Ég var svo heppinn núna í síðasta mánuði að ramba á Kubb til sölu á Maclantic spjallinu. Ég tók eitthvers konar flogakast og hringdi nokkur símtöl og daginn eftir var ég kominn með Kubbbinn minn í hendurnar ásamt 15“ LCD skjá, lyklaborði, mús og fallegum Harman Kardon hátölurum - allt í stíl (og svo G4 turnvél sem vantaði harðan disk, en það er önnur saga). Þetta kostaði mig í heildina 10.000 kr. íslenskar og ég tel það ansi vel sloppið, en þessi Kubbur er alveg órispaður og hefur yfir 800 MB RAM.
Ég er með tvær fartölvur á heimilinu, PowerBook G4 og MacBook Pro, báðar 15”. Fartölvurnar eru yndisleg uppfinning, en henta afar illa þegar kemur að því að ná í torrent skrár (allt 100% löglegt, auðvitað!) og streyma tónlist til annara véla á heimilinu. Kubburinn, hins vegar, er alltaf á sínum stað, fallegur á skrifborðinu mínu og fer létt með þessi hlutverk. Hann keyrir á Tiger stýrikerfinu og er tengdur við 500 GB flakkara fullum af skemmtilegri tónlist og hreyfimyndum (allt 100% löglegt auðitað!). Að auki er ég með hann tengdann þráðlaust við nettengda Airport Express stöð - Þetta gerir það að verkum að ég hef, með hjálp fartölvunnar minnar og Kubbsins, aðgang að allri minni tónlist, þáttum og ljósmyndum og get horft á þetta þráðlaust í fartölvunni minni og streymt hljóðið í stofugræjurnar. Að auki er ég með Kubbinn tengdan við prentarann minn og get því prentað þráðlaust úr fartölvunni án þess að þurfa að fara með hana inn í herbergi og tengja hana við prentarann og ræsa allt upp.

Kubburinn minn er því strax orðinn nauðsynjagripur á heimilinu. :)

En ég er, þótt ótrúlegt megi virðast, alls ekki sá eini með þetta undarlega Kubbafettish. Á netinu má finna ágætlega stórt samfélag Kubbaeigenda sem stinga saman nefjum sínum á spjallborði nokkru og skeggræða uppfærslur og leysa saman vandamál sem upp gætu komið við þetta stanslausa fikt þeirra.
Slóðin á síðuna þeirra er: http://www.cubeowner.com/

Hér á eftir koma síðan merkilegir hlekkir tengdir Kubbnum, uppfærslum á honum og sögu hans:

Apple Keynótið þar sem kubburinn var kynntur:
http://youtube.com/watch?v=D0NbGbZBPL0

Mac Cube auglýsing:
http://youtube.com/watch?v=EuJvwvome1o

Ein af mörgum verslunum sem selur uppfærslur fyrir Kubba:
http://www.yourmacstore.com/

Og að lokum, allar tæknilegu upplýsingarnar sem mann gæti langað að vita um Kubbinn (hægt er að smella á upplýsingaflokkanna til að fá nánari upplýsingar):
http://www.everymac.com/systems/apple/powermac_g4/stats/powermac_g4_450_cube.html