Mér datt í hug að það væri sniðugt að við makkafólkið
skiptumst á góðum ráðum hér á huga. Þetta þarf ekki að
vera bundið við nein sérstök forrit eða stýrikerfi. Um að gera
að láta sem mest flakka hvort sem það er fyrir byrjendur eða
lengra komna. Ég ætla að byrja á tveim ráðum fyrir Explorer
og Entourage og hvet alla til að svara með fleiri góðum
ábendingum.

Internet Explorer

Í IE kemur alltaf lítið grátt @ merki fyrir framan þær vefslóðir
sem þú ert á hverju sinni. Ef þú smellir á þetta @ merki,
dregur það síðan yfir gráu röndina beint fyrir neðan og
sleppir því þar þá býr IE til flýtihnapp yfir á þessa slóð s.k.
Toolbar favorite. Þannig getur þú haft allar
uppáhaldssíðurnar þínar í eins klikks fjarlægð.

Sjálfur geymi ég t.d. vísi, mbl, heimabankann og huga á
þennan hátt ásamt öðrum síðum sem ég fer oft á. Til að
koma sem flestum slóðum fyrir á tólastikuna getur verið
sniðugt að fara í FAVORITES/ORGANIZE FAVORITES og
breyta nöfnunum á slóðunum til að stytta þær. T.d. breyta
“hugi.is - forsíða” í bara “hugi”.

Microsoft Entourage

Ef þú ert latur við að hreinsa útúr inboxinu þínu eins og ég
og ert að staðaldri með einhver 2-3 þúsund bréf þar Þá er oft
gott að nota flýtiskipunina SLAUFA-Y. Þá sýnir Entourage
bara ólesin bréf í inboxinu, til að sýna öll bréf á ný notar
maður bara sömu skipun SLAUFA-Y. Þetta er sérstaklega
þægilegt þegar maður sér að það er ólesið bréf í inboxinu en
gengur ekkert að finna það, t.d. vegna þess að sendandi er
með vitlausa dagsetningu á sinni tölvu.