12. september, Showtime og staða Apple á fjölmiðlamarkaði. Sælir makkanotendur

Ég vill byrja á að kynna mig sem þriðja admin áhugamálsins. Ég vona að samstarf mitt með hinum adminunum og notendum áhugamálsins verði farsælt. Ég sjálfur er Mac notandi í mínum frítíma, vinn á PC í vinnunni og dytta að makkanum heima í frítímanum.

En nú að því sem ég vildi ræða um - því sem verður kynnt 12. sept. Semsagt Showtime. Nú sem endranær þegar Apple ætla að tilkynna eitthvað á þessum blaðamannafundum þá fer rómur hratt milli manna hvað það muni verða. Í flestum tilfellum er þetta allavega 50% rangt. Mikil leynd hvílir alltaf yfir þeim verkefnum sem Apple er að vinna í og tekst þeim alltaf að koma á óvart með eitthvað sem enginn spáði um líkt og með iPod Hi-Fi, burtséð frá því hvort það er svo spennandi vara.

Líkt og sést á myndinni á boðskortinu bendir flest til þess að Apple muni kynna þarna til sögunnar sem mikið hefur verið beðið eftir - allavega á Bandaríkjamarkaði - niðurhal og kaup á kvikmyndum í gegnum iTunes Music Store. Sem er allt gott og blessað. Þetta er eitthvað sem markaðurinn og þeir sem vinna við að greina hann hafa verið að spá lengi, alveg frá því áður en Disney/Pixar samningurinn náði í gegn í sumar og flestir (fer svo illa að vera að alhæfa og segja allir) eru sammála um að hafi gefið Jobs mun betri stöðu við samningaborðið við stórlaxana í Hollywood.

Nú hefur það verið erfitt fyrir þær þjónutstur sem þegar bjóða upp á löglega sölu og áhorf Hollywoodmynda að geta náð hagstæðum samningum sem fela ekki í sér mjög miklar takmarkanir á því hvað neytendur geta gert við þær. Nýjasta dæmið er þjónusta Amazon - Amazon Unbox. Eins og hægt er að lesa í þessari grein, og með því að kynna sér skilmála Amazon, þá er öruggt að þeir þurftu að sætta sig við þessa skilmála frá kvikmyndaframleiðendunum, sem hræðast það meira en nokkuð annað að hægt verði að dreifa myndum þeirra auðveldlega, þrátt fyrir að það sé þegar hægt viljiru beita ólöglegum aðferðum til að ná þér í efnið. Verði kynnt til sögunnar sala kvikmynda á iTMS þá vonum við að það verði ekki eins miklar takmarkanir lagðar á notkun efnisins, og ekki eins kjánalegar, líkt og með Unbox, þar sem þú getur keypt mynd til að brenna hana á DVD disk - sem þú getur svo ekki spilað neins staðar nema í tölvunni sem þú brenndir hann í.


Stærri iPod og uppskipting iTunes.

Annað mál sem hefur þó ekki mikið verið fjallað um í Macheimum er hvað Apple þyrfti eiginlega að skipta upp iTunes forritinu sjálfu ásamt iTunes Music Store. Nú þegar eru þeir farnir að selja sjónvarpsþætti á iTMS sem veldur því að ‘brandið’ er ekki það sama og það var, þ.e. það er ekki bara seld tónlist á iTMS lengur. Og hvað mig sjálfan varðar, þá er iTunes eins og það er í dag ekki góð leið til að spila myndbönd. Nóg á það með að halda utan um tónlistarsafnið mitt sem telur tugi gígabæta, auk allra fídusanna (rippa diska, brenna diska, vinna smart playlista). Það er þörf á að koma með annað forrit em, yrði þá systurforrit iTunes, gengdi sama hlutverki fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti og iTunes gerir fyrir tónlistarsafnið. Hvað það myndi heita væri annað mál. Etv. Showtime, eða þá iFlicks. iMovies kemur vart til greina út af iMovie. Nú er það augljóst mál að flestir verða ekki með eins stór kvikmyndasöfn og af tónlist, néheldur þyrfti að vera ‘importing’ fídus í því, þar sem það er lagalega séð ekki hægt fyrir Apple að geta boðið upp á það þar sem þá þyrftu þeir að vera með innbyggða leið til að taka CSS afritunarvörnina af, sem kvikmyndaframleiðendur sjálfir komu á legg. Það er glóandi kolamoli sem, enginn vill halda á í þessum bransa.

Etv. er svo á leðinni innbyggður stuðningur í næsta stýrikerfi fyrir þetta (native decoding). Kannski það sé einn af fídusunum sem Jobs sagðist ekki geta sagt frá í San Francisco um daginn.

Hvað stærri iPod varðar þá er talið næsta öruggt að stærri Nano komi, samkeppnisaðilar eins og SanDisk sem framleiða einnig flash minni eru farnir að bjóða upp á 6 Gb og 8 Gb spilara, svo það er talið næsta víst að Apple komi með svipað útspil. Verðin yrðu líklegast alveg þau sömu. En iPod Shuffle fær þá annaðhvort stækkun upp í 1 og 2 Gb eða verður tekinn af dagskrá. Eins og er er margt sem mælir með því að halda honum inni - hann er ódýr, mjög léttur, enginn skjár til að skemmast eða bila. Þrátt fyrir útspil Nike og Apple í sumar með æfingasettið sitt sem virkar ekki með Shuffle þá er hann vænn kostur fyrir þá sem þurfa ekki meira í mp3 spilara en þetta. 6G iPod sem er með stærri skjá og þá alvöru widescreen skjá (16:9 hlutfall) er líka talinn líklegur. Mín spá er að hann munu ekki koma strax, mögulega fyrir jólin til keppa gegn Zune spilara Microsoft. Ég hef bara ekki trú á að hann sé ekki tilbúinn enn. Stærri skjár krefst meiri orku og vonandi geta Apple nælt sér í OLED skjái til að minnka raforkuþörfina.


Tenging við sjónvarp, Airport Video Express ofl.

Eftir að Apple kynntu Front Row síðasta haust þá hefur mikil spekúlasjón verið í gengi hvað þeir ætla sér frekar með þá hugmynd. Nú er Front Row innbyggt í alla neytendamakka (MacBook, iMac, MacBook Pro) og með tilheyrandi fjarstýringu þá opnast þar einföld leið fyrir notendur til að skoða myndbandsefni og hlusta á sem þeir hafa keypt af iTMS. Annars er það nú þýðingarmeira að hafa aðgang að myndefni með því að keyra upp í svona umhverfi, þeir sem hafa prufað Front Row finnst nú betra að fletta upp í tónlistarsafninu sínu í gegnum iTunes heldur en þetta umhverfi. En hvað með þá sem vilja sjá efnið á flatskjánum sínum í stofunni en nenna ekki að tengja DVI /VGA snúru (ef varpinn/skjárinn býður upp á það) í græjuna? Þá myndi vera sterkt útspil hjá Apple að koma með útstöð sem virkar svipað og Airport Express sem leyfir þér að hlusta á tónlistina þína af makkanum í stofugræjunum nema frekar að streyma video yfir einhvern þráðlausan staðal í box sem tengist við stofusjónvarpið. Hvaða staðall það svo yrði er annað mál og erfiðara að spá fyrir um. UWB(UltraWideBand) er einn, líkur á að hann yrði notaður er ansi lítill, þetta er staðall sem á að koma til að flyrja hljóð og myndefni um skamma leið án þess að þurfa að sætta sig við minnkuð gæði. Eins og staðallinn á að geta ráðið við að flytja full Hi-Def myndefni þráðlaust milli tækja án gagnataps. Gallinn er sá að staðallinn átti að vera kominn í notkun en þeir sem að honum standa hafa enn ekki sæst á tæknilegar útfærslur og því er allur búnaður enn dýr í framleiðslu og óstaðlaður. Annað væri svokallaður pre-N búnaður, en það er þráðlaus búnaður sem byggir á sk. 802.11n staðli sem hefur enn ekki verið samþykktur af IEEE alveg. En það hefur ekki komið í veg fyrir að framleiðendur beina og skipta hafa sett á markað búnað sem notar þennan enn ósamþykkta staðal sem á að hafa um tíföld þá bandvídd sem núverandi 802.11g búnaður hefur. Núverandi þráðlausir staðlar væru einfaldlega með of litla bandvídd til að geta streymt efni yfir ef þá að vera í einhverjum almennilegum gæðum.


Ef Apple myndu fara þessa leið þá myndu þeir enn aftur sýna hve óhræddir þeir eru að fara nýjar ótroðnar leiðir þar sem ég veit ekki að nokkur framleiðandi sé að framleiða og markaðssetja svona búnað og alls ekki með myndveituþjónustu með henni. Og þetta myndi vera rökrétt viðbót við Front Row sem þegar er á nánast öllum nýjum mökkum.


Dagar örgjörvafrétta eru liðnir

Eins og málin standa í dag þá er ólíklegt að Apple stofni til blaðamannafunda til þess eins að kynna hraðvirkari örgjörva í sínar vélar. Eins og sást nú fyri helgi þegar þeir uppfærðu alla iMac vélar í Merom örgjörva (Core 2 Duo eins og Intel kalla þá) án þess svo mikið að láta neinn vita. En það er nú ekki svo langt síðan (vor 2005) að það þótti fréttnæmt að G4 örgjörvinn hefði náð því að fara úr 1,5 Ghz upp í 1,67! Til allrar hamingju hafa Apple náð að koma sér upp úr þeirri stíu og geta horft ánægðir fram á veginn vitandi það að Intel mun sífeltt ná að bæta sinn arkítektúr.


Annars eru þetta nú orðnar almennar vangaveltur um stöðu Apple á fjölmiðla - og tæknimarkaði. Þetta er nú orðið mun lengra en ég ætlaði mér í fyrstu en það var nú víst meiningin að vekja upp einhverjar vitrænar umræður um þetta. Þó svo að tæknin sem spáð er í muni ekki koma fram þá munu umræður spinnast áfram um þetta þar til næst og því er ágætt að koma með þetta upp á yfirborðið.


Takk fyrir - akarn