Hvað er lífið? Ég sit aðeins og hugsa. Án þess væri ég ekki hérna. Án þess væri ansi tómlegt í þessum stóra alheimi. Ég hef frekar einsleita reynslu af lífinu. Í hvert sinn sem ég lifi, er það sem ég, og ég hef aðeins mína sýn á lífið, ekki nokkurs annars. Hvað er til dæmis lífið fyrir litlu lambi? Ég kynntist einu sinni lambi.

Það fæddist í fimm stiga frosti eina nóttina. Móðir þess, gemlingur, sem var rétt um það bil eins árs, hafði ekki verið talin með lambi, og var hluti af hópi sem ekki var pláss fyrir inni, og voru talin þola eina nótt í kuldanum, enda engin lömb á leiðinni. Þá akkúrat kom eitt. Fljótlega var tekið eftir því, svo það þurfti ekki lengi að dúsa í frostinu. Það gat sig líka hvergi hreyft. Afturfætur þess sneru vitlaust, svo það hélt ekki jafnvægi auðveldlega.

Ekki var tekið eftir því strax, því lambið hafði lært þá list að klöngrast á lappir til að fá smámjólk með því að skorða afturlappirnar við lítið gat í gólfinu. Sem fór ekki vel með það.

Þegar eftir því var tekið var það fært í aðra stíu, þarsem ekkert gat var. Ég tók það á mig að hjálpa því alltaf að fá mjólk með því að styðja við það svo það dytti ekki. Móðirin stóð grafkjurr á meðan til að hjálpa okkur.

Alltaf þegar ég kom til þess spratt það á framfæturna og togaði sig áfram af þeim einsog það væri að hlaupa, undir móðurina, og drakk. Þráttfyrir að hafa verið orðið ansi veikburða tók það að braggast og leit betur út daglega. Ég hugsaði um hvernig lífið birtist því. Eftir að hafa komið í heiminn í firnafrosti og barist við hungur fyrstu tvo daga lífs síns komu skyndilega einhverjir risar til að hjálpa því. Hvernig skynjaði það mig? Hvað hugsaði það um lífið, og hvað hugsaði það um fæturna á sér?

Eitt kvöldið kom ég að lambinu mjög máttlitlu. Það rauk ekki á fætur þegar ég kom til þess. Það stóð ekki í lappirnar og vildi ekkert drekka. Það hafði fengið skæðan sjúkdóm, og var við það að deyja.

Ég veit heldur ekki hvernig lömb upplifa sjúkdóma. Hvernig það leit á lífið þegar það var við það að deyja, innan við tveggja vikna gamalt, eftir að hafa lifað af frost, hungur og fötlun. Ég veit ekki einu sinni hvort það gerði sér grein fyrir dauðanum, og efa það. Það hafði aldrei séð hann.

Ég kíkti aftur til þess tveimur tímum síðar og fékk það þá til að drekka, þó ég þyrfti að halda á því undir móðurinni akkúrat þannig að það gæti teygt hausinn aðeins til hliðar og drukkið hvað það gat. Þegar það hafði ekki litið lengi við spenanum lagði ég það niður og fór. Tveimur tímum síðar var það dáið.

Ég get ekki ímyndað mér að lambið hafi skilið lífið, ef ég get það ekki. En lífið er þó fallegt, bæði í gleði sinni og sorg, og hreinasta undrunarviðbót við alheiminn.