STAR WARS: EPISODE II - ATTACK OF THE CLONES
Lengd: ca. 145 mín.
Leikstjóri: George Lucas
Handrit: George Lucas
Aðalhlutverk: Ewan Mcgregor, Hayden Cristiansen, Natalie Portman
Tagline: A Jedi Shall Not Know Anger. Nor Hatred. Nor Love
Tegund: Hasar, ævintýri, fantasía
Framleiðsluár: 2002
Bandarísk
———————————————————————————————————-
Star Wars er langvinsælasta kvikmyndasería allra tíma en þrátt fyrir það eru myndirnar misgóðar. Fyrst kom Star Wars: Episode IV - A New Hope (1977) síðan Star Wars: Episode V - The Empire Strikes Back (1980) og síðan lokakaflinn, Star Wars: Episode VI - Return of the Jedi (1983). Star Wars aðdáendur þurftu svo að bíða í 16 ár til að sjá byrjunina, Star Wars: Episode I - The Phantom Menace (1999) sem er að mínu mati langversta Star Wars myndin. Núna 3 árum seinna er Star Wars: Episode II - The Attack of the Clones komin og Episode III kemur 3 árum seinna.
Ég held að flestir hafi þegar vitað um upplýsingarnar hér fyrir ofan en mér fannst það fylgja með gagnrýninni að hafa þær þarna. George Lucas skrifaði alla Star Wars kaflana fyrir rúmum 30 árum síðan en fannst of hefðbundið að birta myndirnar í réttri röð svo hann ákvað að fara óhefðbundnari leiðina sem skilar tvímælalaust mun meiri aðsókn.
Aðalleikarar myndarinnar gera flesti góða hluti í hlutverkum sínum. Ewan Mcgregor er frábær sem Obi-Wan Kenobi og Cristopher Lee og Samuel L. Jackson eru mjög góðir sem Count Dooku og Mace Windu. Það er samt ekki alveg sömu sögu að segja með Natalie Portman og Hayden Christensen sem standa sig verst allra leikara í myndinni.
Það er passað vel upp á að ástarsenurnar á milli Anakin Skywalker (Hayden Christensen) og Seantor Padmé Amidala (Natalie Portman) séu ekki of væmnar en samtölin milli þeirra eru nokkuð ýkt. Annars er myndin hlaðin flottum atriðum en atriðið þar sem Yoda barðist með geislasverði stóð upp úr að mínu mati ásamt aftökunni. Sem betur fer er Jar Jar Binks ekki mikið á skjánum en þessi persóna fer ekkert smá mikið í taugarnar á mér. Svo koma R2-D2 og C-3PO að sjálfsögðu við sögu.
Star Wars: Episode II - Attack of the Clones er alls ekki slæm bíómynd. Þvert á móti er hún ein besta Star Wars myndin, nær samt ekki alveg að toppa The Empire Strikes Back. Tæknibrellurnar eru geðveikar og það kæmi mér ekki á óvart að Attack of the Clones fengi Óskarsverðlaun fyrir þær. Í augnablikinu er Attack of the Clones að mínu mati langbesta mynd ársins 2002 enn sem komið er og næst besta Star Wars myndin.
9/10
Myndir úr Attack of the Clones