Hvað hefði gerst hefði  varðskipinu Tý verið sökkt 6 maí 1976? Síðasta þorskastríð okkar Íslendinga var háð frá október 1975 til 1 júní 1976. Það var lang harðasta þorskastríðið og þar munaði oft litlu að mikið manntjón yrði. Eitt atvik stendur upp úr, það var þegar breska freigátan HMS Falmouth sigldi tvívegis mjög harkalega á varðskipið Tý að kvöldi 6 maí 1976 út af Austfjörðum við Hvalbak. Ég mun hér í stuttu máli greina frá því sem þar gerðist.
Síðdegis 6 maí 1976 var mikil harka hlaupin í þorskastríðið. Íslensku varðskipin höfðu náð að klippa aftan úr bresku togurnum veiðarfærin aftur og aftur undanfarna mánuði. Breska stjórnin var í slæmri klemmu, kaldastríðið var í hámarki og Keflavíkurstöðin var í eldlínunni milli austur og vesturs. Á Keflavíkurflugvelli var viðvörunarkerfi Bandaríkjanna gegn kjarnorkuárás Sovétríkjanna á Bandaríkin. Breskir útgerðarmenn heimtuðu vernd og hótuðu að sigla heim. Breska stjórnin hafði sent freigátur og stóra dráttarbáta til verndar togurnum en þær höfðu ekki náð að taka íslensku varðskipin úr umferð þrátt fyrir margar ásiglartilraunir. En síðdegis 6 maí fengu bresku herskipin grænt ljós frá Lundúnum um að núna mætti gera allt nema skjóta til að stöðva varðskipin. Það mætti keyra þau í kaf, rífa þau á hol og ganga alveg frá þeim. Það skipti engu þó mikið tjón gæti orðið. Á miðunum við Hvalbak voru fjórar 3000 tonna freigátur, tveir rúmlega 2000 tonna dráttarbátar auk fjölda togara. Íslensku varðskipin Týr, Óðinn, Baldur og Ver voru á svæðinu. Þeir tveir síðarnefnu voru skuttogarar sem umbreytt var í varðskip.
Síðla að kvöldi 6 maí varð Guðmundur Kjærnested skipherra Týs þess var að breskir togarar voru farnir að kasta veiðarfærum í sjó. Hann setti á fulla ferð og fór inn í togarahópinn, breska freigátan Falmouth fylgdi varðskipinu eftir og þegar Týr var farinn að gera sig klárann í klippingu, þá ákvað Gerald Plummer skipherra á Falmouth að fara í aðgerðir og stöðva Tý. Falmouth sigldi Tý uppi á 30 mílna ferð, beygði 30° í stjór og lét vaða á fullri ferð með 30 000 hestafla vélum 3000 tonna freigátunar á 1000 tonna varðskipið. Þrír skipverjar Týs voru við spilin aftur á þar sem klippunum var slakað út. Þeir fóru ásamt öllu aftur skipinu á bólakaf. Týr lagðist alveg á hliðina, snérist 180° og skipin stöðvuðust hlið við. Atvikið var mjög alvarlegt, Týr var við það að fara á hvolf og svo mikið var höggið að stór hluti stefnis Falmouth fór af. Öll skrúfublöðin bakborðsmegin á Tý brotnuðu af, vélin varð þar óvirk, þyrlupallurinn stórskemmdist, þyrluskýlið fylltist af sjó og menn sem þar voru duttu í eina kös. Sjór komst samt ekki í vélarrúmið og það bjargaði Tý hversu mikið hann snérist, hann hélt svo lítið á móti. Eftir að hafa athugað með menn sína og skip sitt, ákvað Guðmundur Kjærnested að launa Bretunum lambið gráa. Hann sá togara fram undan sem var að veiða og eftir að hafa komið stjórnborðsvélinni í gang, þá fór hann með eina vél í lagi og viti menn, hann klippti allt aftan úr breska togaranum. Þá voru ekki liðnar nema innan við nokkrar mínútur frá því að Falmouth sigldi Tý á hliðina.
Gerald Plummer skipherra Falmouth varð alveg brjálaður. Hann endurtók sama leikinn, setti vélar freigátunar í botn, keyrði hana upp í 30 milna ferð (50 km/klst), beygði beint á Tý og keyrði á varðskipið aftur. Það lagðist 70° í stjór, alveg á hlið og snérist svo. Freigátan lá með stefnið ofan á Tý og keyrði með vélarnar á fullu ofan á Tý og ýtti honum þannig á undan sér. Týr var með stefnið upp að framan og skipin voru föst saman. Allar vélar Týs stöðvuðust, rafmagnið og stjórnborðsvélin líka. Um borð í Tý íhugaði áhöfnin hvort skipið sykki. Í brúnni sagði Guðjón Karlsson háseti sem hékk á stýrinu við Guðmund skipherra: “Nú fer hann yfir, hann fer yfir.” “Nei,” sagði Guðmundur skipherra, “hann fer ekki yfir.” Hægt og hægt rétti Týr sig við, snérist í kjafti freigátunar, stefni hennar náði alveg yfir þyrluþilfarið og á þungri úthafsöldunni hjuggust skipin saman. Það gekk kraftaverki næst að Týr skildi haldast á floti, Guðmundur og áhöfn hans höfðu núna aðeins stjórnborðsvélina og eftir að hafa komið henni í gang hélt Týr til lands. En það var ekki allt búið, dráttarbáturinn Statesman var að koma, hann átti að keyra á Tý og klára að sökkva honum. Falmouth var svo mikið skemmd að hún dró sig í hlé, en núna hófst æsileg kappsigling inn á austfirði, Guðmundur Kjærnested kallaði á félaga sína, Helgi Hallvarðsson kom á Óðni og Höskuldu Skarphéðinsson kom á Baldri. Þeir höfðu verið klárir í að bjarga áhöfn Týs úr sjónum. Statesman elti Tý á fullri ferð, vélstjórar Týs keyrðu á einni vél með því að botngefa vélinni og varðskipið náði 17 mílna ferð á einni vélinni, það var stórlaskað og sjór í afturlestum. óðinn kom fyrstur að, Helgi Hallvarðsson hafði stefnt beint inn í hlið Falmouth rétt áður þegar freigátan reyndi að hindra för hans, svo mikil var ferðin á Óðni að Plummer varð að snarbeygja freigátunni til að sleppa við fá Óðinn á miðsíðu hennar sem var viðkæmust. Nú var komin svo mikil heift í átökin að Guðmundur kallaði í talstöðinni og bað hin íslensku varðskipin að manna fallbyssur skipanna og ef að Statesman næði Tý yrði að skjóta dráttarbátinn í kaf, Týr þyldi ekki meira. Statesman var tilkynnt um þetta í talstöðinni og honum hótað skothríð kæmi hann nær. Á Tý fóru menn að fallbyssunni að framan en í aftur skipinu var fallbyssa sem aðeins voru til púðurskot. 21 manna áhöfn Týs var öll viðbúin að berjast til þrautar. Statesman komst næst Tý um 50 metra, en þegar komið var að 12 mílunum hætti dráttarbáturinn við og Týr komst inn á Berufjörð. Það munaði aðeins hársbreidd frá því að hin varðskipin hæfu að skjóta og breskar freigátur voru að koma og annar dráttarbátur. En inn fyrir 12 mílna mörkin komst Týr og lagðist þar við akkeri ásamt Óðni og Baldri. Skipið kom svo til Reykjavíkur stórskemmt 8 maí 1976. Falmouth hökkti á 10 mílna ferð til heimahafnar í Englandi, á leiðinni duttu 10 tonn úr stefni skipsins í sjóinn þegar það lennti í slæmu veðri við Færeyjar. Plummer skipherra lokaði sig inni í íbúð sinni alla leiðina, hann fór þanngað strax eftir seinni ákeyrsluna og kom ekki upp fyrr en í heimahöfn.
Þetta var eitt af stóru og alvarlegustu atvikunum í þorksastríðinu. Þarna munaði svo sannarlega litlu að ekki bara að 21 íslendngur færi í hafið, heldur að varðskipið Óðinn keyrði inn í hlið Falmouth og hefði breska freigátan þá getað sokkið. Hvað þá ef að skothríð hefði verið hafin á Statesman og honum sökkt. Bresku herskipin hefðu sennilega ekki liðið það og allt getað gerst. Afleiðingar þess ef að Tý hefði hvolft þarf ekki að fjölyrða um, þá hefði mest öll áhöfnin farist. Þrír menn voru aftur á í fyrri ásiglingunni og þeir voru við það að drukkna þegar Týr kom aftur úr kafinu. Það mátti engu muna.
Í miðju kalda stríðinu tókust þarna tvær NATO þjóðir á um þorskinn með þessum kröftum sem þarna er líst. Ég er ekki í nokkrum vafa um að herstöðin i Keflavík hélt aftur að Bretunum vorið 1976. 22 maí 1976 hótaði Bresk þota að skjóta á Ægi við Vestfirði. 22 maí réðust líka tvær freigátur á varðskipið Ver og keyrðu það svo í klessu að Ver fór beint til hafnar og tók ekki þátt í neinum aðgerðum meir. En 1 júní var allt í einu samið. Það hefur ekki farið hátt en Bandaríkjamönnum var ekki skemmt yfir þessu öllu og ég er sannfærður um að áhrif þeirra komu okkur þarna til bjargar. En framtíðin mun kannski leiða það betur í ljós.

September.

Heimildir: ÚTKAll Týr er að sökkva, Guðmundur skipherra Kjærnested.