Gleymt lykilorð
Nýskráning
Forsíða

Notendur

Serendip
Serendip Notandi frá fornöld 638 stig

Þú (3 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 8 mánuðum
stundum – ertu Etna eða Katla í sprengigosi - þegar þú ert hamslaus þess á milli - ertu eins og stöðuvatn - stórt og mikið - á heitum sumardegi sólin glitrar í gárunum bakkinn gróinn grænum skógi í loftinu liggur angandi ilman laufsins og vatnið er djúpt veit að þar býr margt undir niðri

Minningar (1 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 8 mánuðum
Legsteinar álútir í löngum óreglulegum röðum, letraðir minningum margra alda. Máðir sumir, aðrir nýlega meitlaðir, marka bústaði liðinna manna. Hér hvíla konur og karlar og börn, heilu fjölskyldurnar, svo nánar saman, friðsælar undir hvolfþaki blómstrandi kirsuberjatrjánna. Svartþröstur situr á grein syngur mjúkri röddu, sönginn mildan og blíðan. Mansöng, ekki sálm.

Humarhalar (2 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 8 mánuðum
Hvítir, næstum glansandi, liggja svo naktir til þerris Hvernig skyldi þeim líða, skelflettum og fótalausum ? Kaldir, nýkomnir úr frysti. Hlýtur að vera heimilislegt, svo kalt í sjónum. Pota, velti, klíp og kreisti. Ekki eitt hljóð, ekki stuna, finnið ekki neitt, auðvitað, vantar á ykkur höfuðið. Vesælir núna, bráðum að súpu. Bragðgóðir.

Sveppir .... þýtt (Sylvia Plath) (2 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 8 mánuðum
Hvað finnst Huga um þýðingar ? Veit að hér er gert ráð fyrir eigin ljóðum, sjálfum finnst mér góð þýðing fela í sér að yrkja það upp á nýtt, annars hverfur andi og blær ljóðsin …… læt alla vega eina flakka, “Sveppir” eftir Sylviu Plath, eitt uppáhaldsskáld mitt: Á einni nóttu, afar hvítlega, varlega afar hljóðlega. Tær okkar, nasir okkar hertaka moldina, eignast loftið. Enginn sér okkur stöðvar okkur, svíkur okkur. Sandkornin víkja úr vegi. Mjúkir hnefar heimta að hefja upp barrið...

Skoðanaskipti (6 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 8 mánuðum
Skipti um skoðun í dag! Sú gamla fór mér ekki lengur. Orðin hálftuskuleg og hentaði hreint ekki í þessu veðri, enda ræfilsleg og tætt og löngu komin úr tísku. Sú nýja - næstum feimnislega fín - venst henni bráðum.

Ómur liðins tíma (2 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 8 mánuðum
þú varst á þessum sama stað - eina löngu liðna stund - sé þig enn – brosið, augun blíð - mynd þína, ofin þráðum minninga tengdar þessum steinum finn þig enn – ylinn, vangann ljúfa - feimnislega vefjast fingur, á þessu sama borði heyri þig enn – röddina, orðin þýð - sögð, í sálu mína letruð, undir þessum sama himni

Við torgið (2 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 8 mánuðum
Við torgið standa turnar og hús, hafa séð margt og muna mikið. Legg við hlustir, heyri ekki orðaskil, en skynja þungan nið þögulla orða.

bros þitt (2 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 9 mánuðum
bros þitt sem flögrandi fiðrildi í regnbogalit flögraði inn í hjarta mitt

Fortíðarheimsókn (2 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 9 mánuðum
Fortíðin kom í heimsókn, frek að vanda, framtíðinni vísaði á dyr, umsvifalaust og nútíðin, í felulitum, upp til fóta og handa, tók að beygja sig og bugta, möglunarlaust, eins og sönnum gestgjafa sæmir.

Orð í reiði (2 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 9 mánuðum
Hamrað úr hörðum kvíða, hégóma hlaðið, bryddað eitri afprýði, öfundar. Brenglaður sannleikur að lygi orðinn. Af afli óttans laust, áður rökfestum bundið, úr skynseminnar básum skotið. Hittir sál í hjartastað, helsár veitir.

ÞOR (4 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 9 mánuðum
Þorir þú - að hengja hugsanir þínar til þerris á snúru í allra augsýn. Láta viðrast í vindinum, fyllast ferskri angan.

Söknuður (0 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 9 mánuðum
Ástin mín, í morgunn fór ég frá þér, kvaddi þig með kossi og sagði sjáumst, ekki á morgunn heldur hinn. Nú sit ég í framandi borg og hugsa til þín, um brosið blíða og glettin augu, hlusta á rödd þína í huganum óma. Ég sakna þín.

Kvikmynd á rúðu (1 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 10 mánuðum
Regnið bylur á rúðunni með stanslausum err hljóðum. Droparnir leika við ljósið úr fjarskanum Fanga það. Hugfanginn horfi á doppótt og rákótt útsýnið renna letilega niður glerið.

Andvaka (3 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 11 mánuðum
Undir luktum augum: Lævísar læðast myrkar hugsanir dulbúnar sem speki. Hringsóla um lendur hugans. Í heljargreipum skynseminni halda fast. Dómgreind og rökvísi undan hrekjast. Drunginn einn ræður. Hugarró og eirðin horfin í myrkrið. Í dagrenningu draugarnir loksins líða burt aðeins dauf endurminningin eftir.

Spegilmynd (4 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 11 mánuðum
Fann lítið blóm sem bar speglandi daggardropa sem leit speglandi daggardropa sem sat í litlu blómi inni í mér.

Þankabrot um tímann (7 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 11 mánuðum
Tíminn er aðeins endalaus röð augnablika, sem líða hjá hvert af öðru. Lítil veröld greipt í hvert og eitt - handa þér. …… Tíminn er líkt og tár sem falla, tala heit og sölt um gleði og sorgir. Á einu augabragði verða til og hverfa, minningin ein verður eftir. …… Tíminn er gjöf guðs til mannanna. Lifandi sál í kviku holdi, - sólundaðu ekki gjöf þinni. …… Tíminn er gjöf guðs til mannanna - en skyldi hann ekki óska þess að hafa gefið hana einhverjum öðrum.

Bræðurnir (5 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 11 mánuðum
Enn eruð þið mættir báðir tveir, bræðurnir ótti og kvíði. Komið í hvert sinn sem ég vil hleypa inn ofurlítilli hamingju sem bankar á dyrnar. Hangið í pilsfaldi hennar hvert sem hún fer. Hlustið hvað ég segi, þið eruð ekki velkomnir. Farið burt, komið ekki aftur.

Sálarkreppa (1 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 11 mánuðum
Vaknaði í dimmu herbergi, umvafinn djúpri þögn. Fjórir veggir gráir og gluggalausir. Þröngir og þrúgandi skríða veggirnir sjálfir sífellt nær og nær. Loftleysi kæfandi. Fálmandi fingur leita gluggans að frelsinu. Högg. Högg. Hvítu hnúar blóðrisa þið skuluð sigra vegginn.

Eitt skref enn (4 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 11 mánuðum
Eitt skref enn geng ég þessa leiðindagötu í átt að lífinu - handan við hornið.

Játningar (1 álit)

í Ljóð fyrir 20 árum, 11 mánuðum
Ástin birtist mér einn dag, fagurlega búin í þér. Bros þitt blés í kulnaðar glæður, sem lifðu þrátt fyrir allt - enn í þessu gamla hjarta.

Innilokuð (2 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum
Sólin skín svo björt. Yljandi geislar hennar rata inn um gluggann og rifurnar á veggnum. Komdu út, kallar þú, komdu út í birtuna. En ég get mig hvergi hrært. Ástríður mínar eru læstar inni í skáp, og lykillinn löngu týndur.

Græt í grasinu (3 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum
Þig dreymdi undarlegan draum um engil með blátt hjarta. Orðin mín svifu á hvítum skýjum svo hjóðlega framhjá þér. Hjartað mitt ég gaf þér heitt það lagði í lófa þína. Þú sagðir takk og kysstir það einn koss. En seinna, seinna, elsku vinur minn - af hverju - sleistu það í sundur. Var það af því ég tylldi tánum eitt lítið spor, svo ofurlítið spor, á þessa rykugu jörð ? Ég sem átti að fljúga - með blátt hjarta - alla tíð. Ég er bara lítil stúlka og græt í grasinu.

Ljóð um Palestínu (1 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum
Mig langar að yrkja ljóð um Palestínu, um börnin með augun svo brún, en hjörtun full af angist, sem ekki má vera til, ekki tekin gild. Þið voruð ekki fædd réttu megin, þjáning ykkar aðeins neðanmáls. Guð valdi víst hina, segir sjónvarpsstöðin sannkristna. Þið eigið að deyja þæg og prúð, skilja að ykkar er lífið ekki.

Morgundómar (5 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum
Að morgni rís úr beði kona, miðaldra og dómara sínum mætir, kvíðin. Hann er fínn og fágaður, fallega innrammaður. Hiklaust og hnökralaust, tilfinningalaust, hann kveður upp sinn daglega dóm. Miðaldra, komin af léttasta skeiði, ennþá falleg, áður fegurri. Þú tekur þessu vel, grætur aðeins lítið, og bara í hljóði.

Einsemd (3 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum
Sálirnar eru stjörnur, í köldum geimnum, skína bjartar, svo óralangt í burtu, þrá að snertast. Í besta falli er veikur ís á milli, brothættur, varasamur, oftast ekki neitt.
Hugi notar vefkökur til að bæta notendaupplifun á vefsíðunni og greina umferð um hana. Einnig hefur Hugi uppfært persónuverndarstefnu sína. Skoðaðu stefnuna hér..
Ok