er búinn að vera með lag eitt á heilanum síðustu mánuði
það skiptir milli angurværra gítarsólóa
harkalegra trommuslátta og dynjandi bassaplokks
ásamt því sem söngvarinn hvíslar
syngur
og öskrar til skiptis…

næ ekki textanum
næ ekki taktinum
skil ekki lagið…



gítarleikur sorgarfullur nætur allar hljómar
söngur djúpur tregablandinn daga alla ómar
textinn ferðast ofan garðs og neðan…
trommuleikur tryllist alltaf er ég horf’á hana
bassinn dynur – hjartað stynur af eldgömlum vana
og ég gleymi sjálfum mér á meðan…

kannsk’er misjafnt lagið – sorgum vafinn ástaróður?
trylltur söngur boðar kannski tíma sem er góður?
textinn þýðir eitthvað djúpt og hulið…
leita því að líkum lögum – sem mér heima leynast
meðan sálin syngur áfram – engar línur greinast
ég vil vita það sem mér er þulið…



er búinn að vera með lífið á heilanum síðustu mánuði
það skiptir milli angurværra sálarsólóa
harkalegra hjartslátta og dynjandi þunglyndis
ásamt því sem hugur minn hvíslar
grætur
og öskrar til skiptis…

næ ekki textanum
næ ekki taktinum
skil ekki lífið…



skil ekki lagið
skil ekki lífið

en reyni að syngja með…




-pardus-


***By the way… veit að þessi titill á ljóðinu er svooooooooo væminn og hátíðlegur :þ***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.