ást og hatur blandast í blóðinu köldu
byrjar þar enn eina tilfinningaöldu
sem aftur skapar ljóðafíkn í mér…
þarf að losa um látlausa spennuna fljótt
lita einhver orð á blað: “lífið er svo ljótt!”
en orðin skapa tvískilning í þér…

er hann að grínast
og sýnast fyrir öllum?
eða skal ég fara
og svara hans köllum?

“úlfur! úlfur!” kalla ég og fólk hlustar á
en orð án allra merkinga fælir það frá
veit ekki hvað mun svo gerast síðar…
þegar þunglyndið bankar á hurðina hér
þegir fólkið því þá mun enginn trúa mér
og ei verða sorgarstrokurnar blíðar…

er hann að grínast
og sýnast fyrir öllum?
eða skal ég fara
og svara hans köllum?

þunglyndisljóðin geta valdið mér meinum
særa kannski þá sem ég elska í leynum
og því gæti ég aldrei bjargað…
hörðu skotin lenda ekki bara á mér
og gætu jafnvel ferðast inn í hjarta þér
vildi að ég gæti ljóðum fargað…

er ég að grínast og sýnast fyrir öllum?
mun ég einhverjum spjöllum valda?
mun einhver fara og svara mínum köllum?
þegar þarf ég á því að halda?



úlfur!
úlfur!
bara að grínast!

úlfur!
úlfur!
bara að sýnast!



úlfur!
úlfur!
hjálp…?
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.