*Birtist einnig á www.TheDownwardSpiral.tk*


Þrátt fyrir að vera annálaður kvikmyndanörd er þetta fyrsta heila kvikmyndahandritið sem ég hef lesið (mín eigin innifalin, þar sem ég les eiginlega aldrei það sem ég skrifa).
Ég hef lesið brot héðan og þaðan. Las c.a. 1/3 af Memento handritinu, valda kafla úr Fight Club handritinu og valin brot úr handritinu að Chinatown (skrifað af Robert Towne ef mig misminnir ekki), þar sem það er talið vera eitt best skrifaða kvikmyndahandrit, orð fyrir orð, sem ritað hefur verið.
Aðalástæðan fyrir því að ég nenni sjaldnast að lesa handrit er að kvikmyndahandrit eru í eðli sýnu mjög leiðinleg fyrirbæri, jafnvel þó að umfjöllunarefnið sé áhugavert. Þau eru í besta falli gróft kort að myndrænum veruleika sem enn er ekki til, skrifað í þunglamalegu og þurru staðalformi þar sem litið er niður á skraut- og myndmál og nánar lýsingar taldar óþarfar og undir leikstjóranum komnar.

Afhverju lagði ég þá í að tækla þetta 130 blaðsíðna handrit?
Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er enn heilt ár í að myndin komi út og því vissulega frekar sérstök tilfinning að fá svona forskot á sæluna, svona gæjuperraskapur.
Í öðru lagi hefur Batman alltaf verið uppáhalds ofurhetjan mín (hef reyndar aldrei lesið myndasögurnar um hann, frekar en aðrar myndasögur) og sem dæmi má nefna að upphaflega Batman mynd Tim Burtons er fyrsta kvikmyndahúsaminning mín þar sem faðir minn plataði mig með því að segja að við værum að fara á nýju Lukkulákamyndina en kom mér síðan svona skemmtilega á óvart. Fer betur í samanburð milli mynda Burtons og þessa handrits síðar.
Önnur ástæða er leikarahópurinn sem mun prýða hvíta tjaldið í myndinni. Christian Bale mun leika Batman, sem er vel, og meðal annara leikara má nefna Michael Caine, Morgan Freeman, Gary Oldman, Liam Neeson, Ken Watanabe, Rutger Hauer, Cilian Murphy og Katie Holmes. Ekki slæmt það.
Stærsta ástæðan fyrir því að ég las það var samt leikstjórinn sem sér um að stýra þessu öllu saman í höfn, en það er enginn annar en Christopher “Memento” Nolan. þeir sem ekki fatta afhverju ég er að fá sáðfall yfir því eru vinsamlega beðnir um að faraút á næstu leigu og ná sér í Memento og horfa á þá frásagnarsnilld sem hún er.

Ég mun reyna að forðast að fara of ýtarlega í einstaka söguframvindu punkta og mun ég taka það sérstaklega fram ef ég tel að eftirfarandi textabrot muni skemma fyrir kvikmyndaupplifun ykkar eða segja of mikið frá. Annars ráðlegg ég ykkur sem viljið alls ekki vita neitt eða láta skemma neitt fyrir ykkur að sleppa því að lesa áfram, vitandi þó það að þessi harla mistæka kvikmyndasería sé í mjög traustum höndum að mínum dómi.

Jæja, ég vona að það séu allavegana einhverjir ennþá að lesa.
Ég vil byrja á því að taka fram að ég hef ekki hugmynd um hvaða útgáfa handritsins þetta er. Eitt nafn höfundar er gefið upp: David Goyer (Dark City, Blade myndirnar), og það fær mig til að halda að um annaðhvort 1. eða 2. draft sé um að ræða þar sem ég hef nokkuð áreiðanlegar heimildir fyrir því að Goyer hafi bara skrifað fyrstu útgáfu handritsins og skilað því inn til Christopher Nolan sem átti svo að sjá um frekari endurskriftir, en hans nafn er hvergi að finna í þeirri útgáfu sem ég las.
Jæja, það er ábyggilega einhver að velta fyrir sér hvað þetta þýðir nákvæmlega. Í fyrsta lagi þýðir þetta að handritið hefur hugsanlega breyst umtalsvert frá því að þessi útgáfa var rituð (þó ekki það mikið, þar sem allar persónur virðast vera inni samkvæmt nafnalista IMDb.com). Annað, og mikilvægara, finnst mér hversu vandað og heilsteypt þetta handrit er miðað við að vera aðeins fyrsta eða önnur útgáfa. Það er ekki fullkomið eins og ég mun fara í en það er mikið, mikið, mikið betra en öll handrit sem hafa komið nálægt Batman heiminum síðustu 15 ár (og þá tel ég myndir Burtons með). Ef við lítum á það að venjulegt handrit sé venjulega á 7. - 10. drafti þegar það loksins fer fyrir framan kameruna, og að Nolan hafi ekki einusinni snert þessa útgáfu, þá sé ég ekki að þetta hafi ekki gert neitt nema batnað frá því að þessi útgáfa sem ég las var skrifuð.
Þið eruð kannski að spurja ykkur “getur það ekki allt eins hafa versnað með endurskrifum og innkomu Nolans?”. Setjum þetta svona upp: Christopher Nolan skrifaði handritið að Memento, einni best skrifuðu mynd sem ég hef séð (tilnefnd til óskarsverðlauna). David Goyer skrifaði handritið að Blade 2. Held við þurfum ekkert meira að segja um það mál…

Þá að handritinu sjálfu.
Eins og titillinn ber með sér hafa framleiðendurnir tekið þá afar skynsömu ákvörðun að láta eins og allar fyrri myndirnar hafi einfaldlega ekki gerst. Byrjað upp á nýtt með hreinan skjöld.
Þetta er því “origin” eða upphafssaga Batmans. Í raun sú fyrsta þar sem fyrsta mynd Burtons tók aldrei á því afhverju Bruce Wayne kaus þetta hlutverk. Í raun hafa fyrstu 4 myndirnar allar verið jafn duglegar í því að útskýra sem minnst um hvernig, hversvegna og hvenær, en það eru einmitt þeir þættir sem þetta handrit afgreiðir svo snilldarlega.
Við byrjum í æskuminningu Bruce Wayne. Hann er 8 ára gamall að leika sér í garðinum með vinkonu sinni þegar hann hættir sér of langt og fellur ofan í gamlan ónotaðan brunn. Hann slasast ekki en það sem hann upplifir særir sálarlíf hans að eylífu. Hann er einn í myrkrinu, átta ára gamall og á hann fljúga mörghundruð skríkjandi leðurblökur. Atburður sem verður fastur í minningum hans og martröðum um ókomna tíð.
Næst sjáum við Bruce 29 ára gamlan í kínversku fangelsi einhversstaðar í Himalayafjöllunum (útskot tekin upp við Höfn í Hornafirði). Þar hefst sagan í raun og veru. Fyrri partur handritsins fer svo í að skýra atburðina sem gerast þar samtvinnað í flashback atriði úr barnæsku Bruce og hvernig milljarðamæringur úr Gotham endar einn í mið-asíu. Allt þetta hefur þann samverkandi tilgang að setja upp Bruce Wayne sem persónu, hver hann er og hvað drífur hann áfram. Eitthvað sem aldrei var gert í fyrri myndum. Bruce Wayne er týnd sál. Ungur maður fullur af hatri, sjálfshatri sem og hatri á öðrum. Hann kennir sjálfum sér um morð foreldra sinna og eina sem kemst að hjá honum er hefnd. Hann ákveður því 20 ára gamall að yfirgefa allan veraldlegan auð sinn og prufa að lifa lífinu á hinum endanum. Finna hvernig það er að þurfa að stela sér til matar, að eiga ekkert. Upplifir líf þar sem siðferðiskennd er lúxus sem fæstir hafa efni á. Þessi leit hans að sjálfinu ýtir honum á hjara veraldar og upp í hendurnar á Ra's Al Guhl og undirmanni hans, Ducard, sem bjóða honum stöðu í glæpasamtökum sínum þar sem Bruce er síðan þjálfaður. Það er ekki fyrr en að hann kemst loks að raunverulegum fyrirætlunum Al Ghuls sem siðferðisvitund hans hrekkur aftur í gang.

Þið haldið vafalítið að ég sé búinn að segja allt of mikið en í sannleika sagt gerist allt þetta á fyrstu 30 blaðsíðum handritsins, þó aldrei eins og það sé verið að hlaupa í gegnum hlutina. Það er einmitt annar kostur við þetta handrit fram yfir fyrri myndirnar: Allt flæðir svo náttúrulega. Það gerist ekkert nema það sé í rökrænu samhengi við það sem á undan er gengið, allt í fullkomnu samhengi.

Ég ætla ekkert að fara neitt meira yfir einstaka söguatriði þar sem það mundi skemma fyrir og skiptir í raun ekki máli fyrir umfjöllunina. Í stuttu máli snýr Wayne aftur til Gotham eftir 7 ára fjarveru þar sem flestir héldu hann dauðann og margt hefur breyst.
Það sem er gegnumgangandi í gegnum þetta handrit er realisminn í þessum heimi sem okkur er kynntur. Allt hefur sín örsök og sínar afleiðingar og röklega séð fúnkerar allt saman innan þeirrar heimsmyndar. Gotham borg er ekki bara ljót gotnesk hryllingsborg eins og var kynnt í myndum Burtons (já, ég er viljandi að ignora hin hryllilegu framhöld Joels Schumacher þar sem varla má tala um þær sem kvikmyndir, hvað þá Batman myndir) heldur er þetta borg sem maður sér að var einu sinni falleg og tignarleg (birtist þannig í æskuminningum Bruce) en hefur grotnað niður í vanrækslu og spillingu yfirvalda. Háreyst og glæsilegar glerhvelfingar sem eitt sinn innihéldu gosbrunna og garða eru nú orðin niðurnýdd eiturlyfjabæli. Borg sem eitt sinn var falleg orðin rotin, alveg eins og yfirvöld og alveg eins og fjölskyldufyrirtækiðs Wayne Enterprises. Í þessum röklega, jarðbundna heimi eru öllu því sem aldrei var svarað gefinn tilgangur og útskýring. Afhverju leðurblakan? Afhverju búninginn? Hvaðan kom bíllinn? hvaðan kom búningurinn og tæknin? Afhverju berjast gegn glæpum? Öllu þessu er svarað, og ekki bara troðið þarna inn í til að gefa því einhvern tilgang, heldur er það meginmergurinn: “Afhverju?”

Þetta handrit gefur ofurhetju ástæðu og tilgang betur en nokkur ofurhetjumynd sem ég hef séð hingað til, að “Unbreakable” undanskilinni, en hún er varla hefðbundin ofurhetjumynd. Hvert einasta atriði sem gerir batman að batman er útskýrt í röklegri og trúanlegri framvindu þannig að maður efast aldrei sérstaklega um trúverðuleikann.

Hvernig er svo Batman sjálfur? Sko, Batman í sinni endanlegu mynd birtist ekki fyrr en fullan klukkutíma inn í myndina og á þeim punkti skilur maður fullkomlega afhverju hann tekur upp þetta nafn og klæðist þessum búning. Þetta er nefnilega ekki veröld þar sem menn í Spandex búningum eru taldir heilir af geði eins og virðist vera í mörgum ofurhetjumyndum og dílar handritið alveg snilldarlega við þann veruleika.
Sko, Batman er einn skerí moðerfokker. Ímyndið ykkur hryllingsmynd sagða út frá sjónarhóli morðingjans, hvort sem það er Michael Myers eða Scream morðinginn. Þannig virkar Batman actionið á mann, sérstaklega til að byrjað með. Skíthræddir bófar skjótandi út í myrkrið, næsta sem þeir finna er hönd utan um hálsinn á þeim komandi ofan frá og eru þeir dregnir upp í myrkrið veinandi. Hann er eins og skrýmsli, djöfull sem enginn getur stöðvað og enginn veit hvaðan kemur næst. Getur verið í hvaða skugga sem er, lýtandi út eins og hálfmennsk leðurblaka sem ekki einusinni byssukúla getur stöðvað. Frekar skerí dót ef þú spyrð mig.

Og það er einmitt þetta myrkur sem einkennir hinn sjónræna stýl eins og hann er skrifaður. Ég get persónulega ekki beðið eftir að sjá einhver clip úr myndinni, sjá hvernig Nolan hefur skotið hana, því eins og hún er skrifuð er hún myrkari og þungari en nokkur Batman mynd hingað til, líka sú fyrsta. Væri til að sjá svipað gritty og myrkan stíl og Alex Proyas notaði í “The Crow” sem er að mínu mati ein sjónrænt flottasta mynd sem ég hef séð enn þann dag í dag. Nolan hefur látið hafa eftir sér að hann sé lítt hrifinn af tölvubrellum og að hann sé mikill aðdáandi Blade Runner, sem gerir mig að vonum mjög bjartsýnan á að sjónræna hliðin muni henta efninu.

Persónurnar eru vel flestar frábærar og eftirtektarvert hvernig Goyer tekst að gera jafnvel hinar minnstu persónur þrívíðar. Persónur eins og faðir Bruce sem birtist aðeins í flashback senum er eftirminnileg týpa, og Þjónn Bruce, Alfred (leikinn af Michael Caine) er fullkominn sem siðferðislegur áttaviti Bruce og hans eini bakhjarl. Ducard, lærifaðir Bruce (leikinn af Liam Neeson) er flottur sem stóruhuga níhilisti með mjög ákveðna og sterka (jafnvel skiljanlega) heimspeki.
Eina persónan sem sannfærði mig ekki er eina stóra kvenhlutverkið, æskuvinkonan og aðstoðarsaksóknarinn Rachel. Hún er einfaldlega með of tvívíðar skoðanir og of mikil “batman gella” til að skilja eftir sig nokkuð markvert.

Þetta getur samt ekki allt verið flowers og candy? Er það nokkuð?
Svona næstum því. Það eru samt nokkrir hlutir sem fóru í taugarnar á mér. Það var aðallega díalógurinn á köflum sem mér fannst helst til of melódramatískur og bara “of mikið”. Sérstaklega á mikilvægum stöðum þar sem Bruce Wayne/Batman þarf að taka mikilvægar ákvarðanir og virðist alltaf þurfa að segja þær upphátt, sem var pirrandi því að atburðarrásin sjálf var fín. Ég vona að Nolan taki eitthvað af þessum óþarfa díalóg út, eða tóni hann niður og sýni frekar tilfinningarnar í svipbrigðum og aðgerðum frekar en beinum orðum. Einnig mætti aðeins bæta við kjöti í tímalínuna milli þess sem Bruce Wayne kemur heim og hann ákveður að vera Batman.

Annars er þetta bara ótrúlega sterkt handrit, sama hvernig á það er litið. Ef þetta er vel útfárt myndrænt og leikrænt eins og ég hef fulla trú á með þessu leikaraliði og þessum leikstjóra getur þetta vel orðið besta ofurhetjumynd allra tíma, a.m.k. allra besta Batman myndin frá upphafi.