The Return of the King Jæja, þá er því lokið, eða því næst.
Er ég stóð fyrir utan Sal 1 í Smárábíó á miðnætti aðfaranótt laugardags tók ég eftir því að mér var frekar flökurt og hafði almenna ónotatilfinningu í líkamanum. Ég varð frekar smeykur þar sem skæð gubbupest er að herja á landann síðustu misseri og fannst mér tímatsetningin frekar slöpp þar sem ég var kominn til að sjá lokakafla þeirrar sögu sem ég hef beðið eftir að sjá kvikmyndaða síðan ég var í 9. bekk grunnskóla.
Það var ekki fyrr en ég gekk út af sýningunni rúmum 3 og ½ tíma síðar þegar ég fattaði að ónotatilfinningin var farin, þetta hafði verið stress og eftirvænting.

Það er langt síðan að kvikmynd hefur vakið upp líkamleg ónot hjá mér af spennu og tilhlökkun, tilfinning sem ég upplifði stundum þegar ég bar barn og sakna eylítið. Ég er ekki viss um að ég muni upplifa það aftur í bráð. Það er ekki oft sem kvikmyndir, eða listaverk almennt, móta lífsmynstur fólks, hafa slík áhrif á það að, að það hugsar um þær á nánast hverjum einasta degi í meira en 3 ár. Eftirvæntingin rís með hverjum deginum, hverju korni af upplýsingum sem kvikmyndagerðarmennirnir láta frá sér, hverjum trailer, hverju plaggati, hverri frétt. Síðan kemur fyrsti hlutinn út og hann er allt sem maður gat nokkurn tímann vonast til að hann væri. Auðvitað var hann ekki fullkominn, maður saknaði atriða úr bókinni og vissulega samræmdist sýn Peter Jackson ekki endilega þeirri mynd sem maður hafði skapað af þessum galdraheimi í huga sínum. En það var eitthvað sérstakt, einhver neisti til staðar, eitthvað sem fékk mann til að brosa með persónunum, finna til með þeim og jafnvel gráta með þeim á þeirra erfiðistu tímum.
Þetta er engin viðvaningskvikmyndagerð. Það þarf ótrúlega mikið til að skapa heilsteypta sögu í formi þriggja kvikmynda sem segja frá svo stórtækum atburðum að þeir varða framtíð alls lífs og á sama tíma skapa persónur sem fólk elskar, hatar og finnur til með og getur tengt við sjálfan sig, og þurfa að gera þetta allt í veröld sem er gjörólík okkar eigin.
Þetta er afrek Peter Jackson, ekki endilega að fara eftir bókunum staf fyrir staf, heldur ná andrúmslofti þeirra og boðskap og ná að færa hann yfir í kvikmyndalegt form án þess að fórna þeim heiðarleika og hreinleika sem fylgir boðskap þeirra.

3 ár er langur tími til að lifa með eftirvæntingu þannig að þessi hnútur sem ég hafði í maganum var kannski skiljanlegur.
Þrátt fyrir að hafa séð fyrstu myndirnar tvær áður, oftar en einu sinni ákváðum við nokkrir félagar að taka daginn í að rifja upp söguna og horfðum á lengdar útgáfur myndanna áður en haldið var af stað að sjá enda þriðjunginn. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði séð lengdar útgáfur þessara verka og bættu viðbæturnar ótrúlega miklu við kvikmyndir sem ég taldi að væru nánast eins góðar og kvikmyndaformið byði upp á. Persónusköpun var mikið mun sterkari og ástæður fyrir aðgerðum persónanna voru mun skiljanlegri heldur en í kvikmyndahúsaútgáfum myndanna, þó sérstaklega bætti þetta The Two Towers sem þjáist af því að vera miðjubarn án skýrs upphafs og endis.
Eftir þetta áhorf hafði eftirvænting manns náð hámarki, maður var búinn með tvo þriðju sögunnar og þyrstu í uppgjör og endi en þó var sá ótti fyrir hendi að eftir um 4 tíma væri þessu ferðalagi lokið, hræðsla við að þessi tilhlökkunartilfinning mundi hverfa án þess að vita hvenær maður finndi til hennar aftur í slíku mæli.

Um 10 mínútum áður en myndin átti að hefjast var loks hleypt inn í salinn eftir langa og fremur óþægilega bið í röð. Okkur hafði sem betur fer hugkvæmst að mæta tímanlega í bíóið þannig að þegar hleypt var inn (með meðfylgjandi firringu og geðveiki) vorum við í aðstöðu til að ná mann sæmandi sætum eða í miðri röð fyrir miðju í salnum. Ónotatilfinningin minnkaði eitthvað við þetta en þrátt fyrir það virtist ég ekki geta hamið annan fót minn þar sem hann dripplaði á ógnarhraða af stressi og það flaug í gegnum hausinn á mér eitt augnablik “Þú ert að stressa þig yfir kvikmynd, þetta er ekki raunverulegt, ertu eitthvað geðveikur?” áður en að sparinördinn (kemur aðeins fram um jólinn) náði að þagga niður í þessari rödd.

Loks myrkvaðist salurinn og THX lógóið birtist á tjaldinu, nú fann maður hjartsláttinn, “Á maður að klappa þegar myndin byrjar? Æji fylgi bara straumnum og sé hvort einhver verður fyrstur”. Einn klappar frekar vandræðalega svo ég læt það vera. New Line Cinema lógóið. “Ok, nú er komið að því”. Tónlist Howard Shore sem maður er farinn að þekkja svo vel og síðan byrjar myndin.
Hér á eftir mun ég ræða um einstaka hluta myndarinnar að einhverju leiti og gæti það spillt fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina þannig að ég mæli með að þeir sem ekki hafa séð hana enn geymi það að lesa þessa umfjöllin og skimi frekar að enda greinarinnar þar sem ég tek saman tilfinningar mínar um myndina.

*Spoiler*
Forsaga Gollum er rakin og hvernig hann fékk hringinn til að byrja með. Þetta atriði er svo ótrúlega viðeigandi og virkilega ónotalegt og setur tóninn fyrir þá stemmningu sem er yfir för Frodo og Sam í þessum lokahluta, dæmalaus græðgin sem yfirvinnur alla dómgreind og manngæsku þar sem meira að segja besti vinur manns er óvinur. Á þessum fyrstu 5 mínútum gleymdi ég öllu stressi, öllum kvíða og allri spennu. Ég nánast gleymdi sjálfum mér. Það voru bara persónur og saga og ekkert skipti máli nema upplifunin akkúrat á þessu augnabliki.
Maður finnur strax í byrjun að sagan er stærri en áður, ógnin er nærri og það er viss örvænting yfir öllum. Vissulega erum við komin langt frá sakleysi Héraðsins í byrjun fyrstu myndarinnar. Allt það barnslega sakleysi sem einkenndi hobbitana fjóra er löngu horfið og í staðin fyrir skærgrænan lit túnsins er kominn tinnusvartur litur bergsins sem umlykur Mordor. Byrgði Frodo er að verða óbærileg og hann fer að missa skynjun sína á raunveruleikanum, græðgin er að yfirtaka hann, rétt eins og hún yfirtók Gollum, Boromír og Sarúman á undan honum. Þetta er eitt af sterkari undirliggjandi þemun sögunnar: “Algjört afl spillir algjörlega”.
Hið illa sjálf geðklofans Smeagol/Gollum hefur náð algjörum yfirráðum á ný og leiðir hobbitana tvo beint inn í opinn dauðann í blindri græðgi sinni.

Það er einnig farið að styttast í að Aragorn þurfi að axla ábyrgðina á forlögum sínum, horfa framhjá þeirri trú að hans sé erfðasyndin fyrir mistök forföðurs síns. Hann þarf að ríða til Gondor í þeim tilgangi að taka við konungstign þeirri sem honum er í blóð borin og með því sameina menn allra landa undir einum fána en sturlunin og rotnunin sem fylgir endurkomu Saurons hefur náð alla leið til stærsta vígi mannana en Hirðverndari borgarinnar, Denethor, er orðinn firrtur af dauða sonar síns, Boromírs og þeim sínum sem myrkrahöfðinginn sýnir honum.

Þetta eru meira og minna aðstæðurnar sem aðalperónurnar þurfa að eiga við í The Return of The King. Ekki aðeins þurfa þeir að berjast yfir ofurefli óvinarins sem stefnir taktfast að gjöreyðingu þeirra, heldur þurfa þeir að eiga við sinn eigin efa og uppgjöf og breyskleika þeirra sem í kringum þá eru og eiga að kallast þeirra bandamenn.
Álfarnir eru að yfirgefa heiminn, galdrar eru að yfirgefa heiminn, þeir berjast ekki í þessum bardaga þótt þeir hafi látið sjá sig í Helms Deep. Þessi loka orrusta gengur bæði út á að sigra hið illa sem ógnar öllu lífi og einnig þematískt að sameina allt mannfólk undir einum fána í friði því þeirra er heimurinn að erfa.

*Spoilerum lýkur að mestu leiti*

Það er erfitt að lýsa hversu vel Return of the King heppnast án þess að verða í raun vitni að því sjálfur. Margir þekkja söguna án þess að hafa séð myndina og margri vita líka hverju hefur verið sleppt og hverju haldið inni án þess að hafa séð myndina en það þarf að hafa setið þarna og upplifað þá kvikmyndalegu galdra sem Peter Jackson nær að töfra fram í þetta síðasta skipti til að skilja mikilvægi þessarar kvikmyndar fyrir alla kvikmyndagerð á stórum skala í framtíðinni. Vissulega er sleppt miklu úr bókinni, mikið sem mig hlakkar til að sjá í lengdri útgáfu myndarinnar sem kemur út á næsta ári. Ég saknaði “Houses of Healing” senunnar og “Mouth of Sauron” sérstaklega auk frekari útlistunnar á sturlun Denethor. Þessir gallar eru ótrúlega smávægilegir þegar litið er á heildarafl kvikmyndarinnar, andrúmsloftið, tilfinningarnar og þó aðallega sá sterki boðskapur og stóru þema sem einkenna seríuna og Jackson tókst að ná úr bókunum án þess að þurfa að fórna heilindum sögunnar fyrir þann gelda tilfinningastaðal Hollywood sem við þekkjum úr öðrum stórmyndum. Þrátt fyrir að sýnin sé Jacksons og atriðum hefur verið sleppt og öðrum bætt við þá er andrúmsloftið og tilfinningin sú sama og í bókunum og er það langmikilvægasti þátturinn í sigri Return of the King sérstaklega.
Þetta eru ekki kvikmyndir fyrir kaldlinda eða kaldhæðna. Þetta eru ekki kvikmyndir fyrir þá sem ekki þora að gorfast í augu við eigin tilfinningar og tilfinningar annara. Þetta eru ekki kvikmyndir fyrir neikvæða eða yfirlætisfulla. Það fyndna er að ég inniheld öll þessi element en hef þó tekist að slökkva á þeim þegar kemur að þessum myndum. Þær fjalla um að upphefja gildi sem við höfum löngu gleymt: Sönn vinátta, kjarkur, bjartsýni og hin sjálfslausa fórn. Hugtök sem hinn kaldhæðni kallar barnaleg og óraunsæ en endurspegla samt öllu því sem við köllum gott og rétt í okkar samfélagi en erum samt svo tilfinningalega geld mörg að við verðum að smána okkur sjálf með því að flissa í hvert skipti sem tveir vinir faðmast eða sýna nokkra vinalega ástúð eða hlæja, benda og pískra í atriðum sem eru sorgleg, dramatísk og tilfinningaþrungin því við kunnum ekki að díla öðruvísi við þau eins og ég varð margoft vitni að í hópi áhorfenda á sýningunni sem ég sá.

Ég man svo sterkt eftir kaflanum um “The Gray Havens” þegar ég las hann fyrst, ég hugsaði allan tímann “Nei, ekki klárast, ekki strax!”. Það voru svo mikil endalok yfir þessu öllu, maður var að kveðja persónur sem maður hafði látið sig skipta máli í marga mánuði og upplifun mans á þessari sögu yrði aldrei eins sterk aftur, þannig að maður las hægt, naut hvers orðs sem skrifað var, reyndi að lengja augnablikið en svo kom sá tími á endanum þar sem að það voru engin fleiri orð, sögunni var einfaldlega lokið.

Ég las ekki bók í nokkra mánuði eftir það.

Sömu tilfinningu fékk ég yfir endinum á Return of the King. Margir hafa kvartað yfir því að hann var of langur og of mikið spennufall en ég er ósammála, ég vildi bara meira, meira, meira! “Ekki klárast, ekki ljúka!” … en henni lauk samt og maður var gráti næst yfir lokaatriðunum (og hefði hugsanlega fellt tár hefði einhver fáviti ekki byrjað að hlæja yfir lokasenum myndanna) og ég fann fyrir þessari sömu tómleikatilfinningu og ég fann fyrir þegar ég lauk fyrst lestri á Return of the King.
Ég hef ekki getað horft með neinum áhuga á kvikmynd eftir að ég sá Return og þetta kemur frá manni sem horfir að meðaltali á tvær kvikmyndir á dag.

Margra ára kafla í lífi mínu er að mestu lokið. Þetta hefur verið spennandi, tilfinningaríkt og gefandi tímabil eftirvæntingar og spennu og er sárt að sjá á eftir þeim tilfinningum. En þrátt fyrir það hafa þessar kvikmyndir verið það gefandi og framúrskarandi að ég sé ekki eftir einni sekúndu og hlakka nú einfaldlega til að sjá Return of the King minnst tvisvar sinnum enn í kvikmyndahúsi og svo lengda útgáfu hennar á næsta ári sem talað er um að verði ekki styttri en fimm klukkustundir þannig að maður á ennþá eftir að upplifa fullkomnaða heildarsöguna.

En þangað til þá er Return of the King besta kvikmynd sem þú getur nálgast í kvikmyndahúsi hér á landi og þótt víða væri leitað, og ein mikilvægasta og vandaðasta kvikmynd sögunnar og meira en viðeigandi lokakafli í þessu mikla ævintýri!