Það var tekið að kvölda á ný þegar Harry vaknaði eftir væran blund í mjúku rúmi í sjúkrálmunni. Hann fann að honum leið talsvert betur í fætinum sem var að gróa á umtalsverðum hraða, þökk sé fröken Pomfrey, og allur sársauki annarsstaðar í líkama hans var á bak og burt. Hann leit í kring um sig og kom auga á Draco sem lá sofandi í rúminu við hlið hans. Á náttborði Harrys var lítill blómavasi, nokkrir súkkulaðifroskar, poki af fjölbragðabaunum og kort frá Hermione og Ron. Á náttborði Dracos var ekki neitt. Harry horfði á fölan drenginn sem lá við hlið hans og fann afskaplega mikið til með honum. Hann var jafnvel verr staddur en hann sjálfur hafði verið áður en hann kom til Hogwarts. Hann var þá algerlega vinalaus og átti engan að, en hann var mestmegnis látinn eiga sig og enginn skipti sér af honum, Draco var undir stöðugu eftirliti, sama hvert hann fór og var misþyrmt hryllilega ef hann gerði ekki allt eftir höfði föður síns.
Í því rumskaði Draco og leit upp.
“Góðan daginn,” sagði Harry, “eða góða kvöldið eða eitthvað.” leiðrétti hann sig sjálfur. Draco hló lágt,
“Góða kvöldið sjálfur,” svaraði hann. “Harry, ekki segja neinum það sem ég sagði þér í skóginum, okei?” sagði hann lágt og Harry sýndist hann sjá votta fyrir hræðslu í augum hans.
“Nei, auðvitað ekki,” svaraði hann.
“Ekki einu sinni Weasley og Granger,” bætti Draco við, “Ef við ætlum að láta þetta ganga þá verðum við að halda áfram að haga okkur eins og við erum vanir. Þú veist slást, rífast og skiptast á móðgunum hvor við annan. Annars verða Slytherinkrakkarnir snöggir að fatta að eitthvað er breytt og pabbi verður fljótur að frétta af svona löguðu og þá er úti um öll áform okkar.” Harry kinkaði kolli og sagði, “Ef þú þarft að tala við mig, hvenær sem er, þá getur þú sent mér skilaboð og ég get hitt þig einhversstaðar. Ég get verið með huliðskikkjuna mína með mér svo enginn geti séð að við erum tveir. Það þarf ekkert endilega að vera fyrir eitthvað merkilegt, bara ef þig vantar einhvern til að tala við,” bætti hann við og horfði í augun á þessum nýja vini sínum. Draco brosti lítillega og kinkaði kolli til hans.

Í því opnuðust dyrnar á sjúkraálmunni og inn komu Ron, Hermione og Ginny með fullan bakka af kvöldmat handa Harry.
“Harry, þú ert vaknaður,” sagði Hermione og faðmaði hann að sér. “Við vorum svo áhyggjufull þegar þú komst ekki í kvöldmatinn í gærkvöldi og svo kom Luna og sagði okkur að þið Malfoy hefðuð farið að slást og horfið inn í skóginn.”
“Við ætluðum að hlaupa beint til Dumbledores,” greip Ron frammí fyrir henni, “en Luna var þá búin að tala við hann og hann var farinn að leita að ykkur úti í skógi. Hvað gerðist eiginlega?” Harry brosti til þeirra og leit svo á matarbakkann og spurði,
“Er þetta handa mér?”
“Já, hvernig látum við,” svaraði Hermione. “Þú hlýtur að vera glorhungraður, fáðu þér að borða.” Harry þakkaði henni fyrir og fékk sér súpuskál sem lá á bakkanum. Hann hikaði örlitla stund og leit svo yfir til Dracos,
“Malfoy, vilt þú eitthvað að borða?” spurði hann svo en vandaði sig að reyna að láta það ekki hljóma of vingjarnlegt.
“Eins og ég vilji taka við mat frá þér og skorkvikindunum sem þú umgengst, þá ét ég frekar súran hundaskít,” svaraði Draco fullur fyrirlitningar og sneri sér í burtu frá þeim.
Draco, þú ert of góður leikari, hugsaði Harry með sér og tók til matar síns.

Yfir matnum sagði hann vinum sínum frá því sem hafði gerst í skóginum, að undanskildu því sem fram fór milli hans og Dracos.
“Ég veit eiginlega ekki alveg hvað Dumbledore gerði,” endaði hann, “hann birtist bara stuttu eftir að við heyrðum gífurlegan hvell og þegar hann náði okkur upp úr holunni var ekki nokkur kentár sjáanlegur. Hann lét okkur svo fljóta einhvern vegin á undan sér í gegn um skóginn og hingað upp þar sem fröken Pomfrey beið tilbúin að hjúkra okkur.”
“Vá,” stundi Ron í lok sögunnar, “Þessir kentárar eru að verða alveg klikkaðir.”
“Það verður að gera eitthvað í þessu,” sagði Hermione hugsi, “ég veit samt ekki hvernig hægt væri að sættast við þá því þeir vilja ekki einu sinni tala við galdramenn og hver sá sem vogar sér að stíga fæti inn í skóginn er í bráðri lífshættu. En eitthvað þarf að gera það er á hreinu.”
Í því birtist fröken Pomfrey í dyrunum með kvöldmat handa strákunum, en þar sem hún sá að Harry hafði þegar etið gaf hún Draco sinn bakka og rak svo krakkana út.
“Drengirnir þurfa að vera hér yfir nóttina en þeir mæta svo í tíma í fyrramálið, þið getið séð þá þar,” sagði hún harkalega á meðan hún sópaði þeim út um dyrnar.

Þegar Harry og Draco voru tveir eftir á sjúkraálmunni greip Harry tvo súkkulaðifroska af náttborðinu sínu og henti öðrum þeirra til Dracos.
“Eftirmatur,” sagði hann og glotti.
“Takk,” svaraði Draco brosandi, og fór að taka utan af froskinum sínum. Þá opnuðust dyrnar á ný og hann flýtti sér að fela froskinn undir sænginni sinni. Inn gekk Luna Lovegood með töfrasprotann sinn bak við eyrað en hárið vafið upp í hnakkann og einhverjum prikum hafði verið stungið í það til að halda því kyrru.
“Hæ,” sagði hún rólega, “Ég kom með sprotana ykkar.” Hún teygði hendurnar aftur fyrir hnakka og greip í prikin sem héldu hárinu og Harry sá að þetta voru ekki bara einhver prik heldur sprotarnir hans og Dracos. Hún kippti þeim úr hárinu og hristi höfuðið svo að hárið liðaðist aftur niður að mitti. Hún gekk svo á milli strákana og rétti þeim hvorum sinn sprotann.
“Takk,” sögðu strákarnir báðir í kór.
“Það var ekkert,” sagði Luna dreymin og settist á rúmið hjá Harry.
“Mikið var,” tautaði Draco, “Loksins get ég lokað þessum tjöldum og þarf ekki lengur að horfa á ljótt smettið á þér, Potthaus.” sagði hann hátt og sveiflaði sprotanum sínum svo að tjöldin í kring um rúmið hans lokuðust. Harry vissi að hann var að fara að borða súkkulaðifroskinn sinn og glotti lítillega, hæstánægður með að geta nú verið einn með Lunu.

“Takk fyrir,” sagði hann lágt og horfði í augun á henni.
“Þú varst búinn að segja það,” sagði hún og horfði á hann hissa,
“Nei, takk fyrir að stoppa mig í gær og taka af mér sprotann,” sagði Harry, “og takk fyrir allt sem þú sagðir mér í gær, um Guð og himnaríki og sérstaklega fyrir að segja mér að Sirius væri þar.” Luna brosti og yppti öxlum,
“Ég ræð engu um það, hann bara er þar, ég sagði þér bara sannleikann,” sagði hún. Harry brosti til hennar og svaraði.
“Þess vegna var svo gott að heyra það, ég vissi það ekki fyrir.”
Luna sat og spjallaði við Harry í dágóða stund áður en fröken Pomfrey kom og rak hana út sömu leið og hún hafði rekið hin skömmu áður.
Harry leit í áttina að rúmi Dracos þar sem nú var dregið fyrir. Það hafði enginn komið að heimsækja hann. Hann fékk hálfgert samviskubit yfir að eiga svona góða vini þegar Draco átti enga.
Fröken Pomfrey kom til þeirra og gaf þeim svefnlyf til að hjálpa þeim að sofa yfir nóttina, hún sagði að þeim veitti víst ekki af eftir ævintýri síðastliðins sólarhrings.

Morguninn eftir voru sár þeirra gróin og beinin orðin heil. Þeir yfirgáfu sjúkrahúsálmuna og fóru af stað í tímana sína.
Harry fannst dagurinn lengi að líða og hann beið óþreyjufullur eftir að tímum dagsins myndi ljúka. Hann var ákveðinn í að fara til Snapes áður en deginum lyki og segja honum frá því sem fram hafði farið á milli þeirra Dracos. Ef einhver gæti hjálpað Draco að verða njósnari fyrir Dumbledore þá væri það Snape. Hann hafði ekki sagt Draco frá því að Snape væri njósnari, honum fannst það ekki sitt að segja frá því, en nú myndi Snape geta sagt Draco það sjálfur og hjálpað honum, undirbúið hann undir það að vera njósnari í röðum Voldemorts.

Loksins var síðasti tími dagsins á enda og Harry gekk út úr ummyndunarstofunni ásamt Hermione og Ron.
“Harry, ertu til í töframannaskák?” spurði Ron hress í bragði yfir að vera loksins laus eftir langann dag. Harry leit á hann og sá eftirvæntinguna í augum hans. Hann vissi að hann hafði lítið sem ekkert getað talað við Ron eða sinnt vináttu þeirra frá því að hann hafði komið í Hroðagerði. Hann ákvað að taka eina skák áður en hann færi til að spjalla við Snape svo að vinirnir þrír héldu upp í Gryffindorturn, strákarnir til að tefla, en Hermione ætlaði að læra, eins og venjulega. Í turninum voru fáir á ferli enda gott veður og flestir úti að nýta síðustu góðviðrisdaga haustsins. Harry, Ron og Hermione komu sér vel fyrir í kyrrlátu horni við arininn.
Þegar skákinni lauk með sigri Rons, stóð Harry á fætur og sagði þeim að hann þyrfti að skjótast frá, hann myndi hitta þau í kvöldmatnum. Hann stökk svo af stað og var kominn fram á gang eftir örskamma stund. Hann vissi að vinir hans hefðu viljað fá frekari útskýringar á þessari skyndilegu brottför hans en hann var ekki viss um hvað hann ætti að segja þeim svo hann hafði bara ákveðið að segja ekki neitt.

Ron og Hermione litu spyrjandi hvort á annað,
“Hvað var þetta? Veist þú hvað hann er að fara að gera?” spurði Ron hissa.
“Nei,” svaraði Hermione hissa, “kannski eitthvað út af reglunni,” sagði hún lágt. Ron varð fúll á svipinn,
“Mér finnst nú að hann gæti sagt okkur eitthvað sem er að gerast.” sagði hann, “hann hefur alltaf sagt okkur allt sem hann fréttir og við höfum alltaf hjálpað honum við að leysa málin sem hann er að kljást við. Afhverju gerir hann það ekki núna? Hvað er öðruvísi í þetta skipti?” Hermione yppti öxlum,
“Ég veit það ekki, hann hefur nátturlega aðra sem hann getur rætt málin við núna. Fólk úr reglunni,” sagði hún.
“Æ, ég veit það ekki,” sagði Ron, “ég veit bara að mér finnst ég ekki lengur eiga tvo bestu vini hér í turninum, mér finnst eins og að við séum bara tvö nú orðið. Harry leyfir okkur ekkert að taka þátt og talar ekkert við okkur um eitt eða neitt.” Hermione brosti til hans.
“Hann talar við okkur þegar hann er tilbúinn,” sagði hún hughreystandi, “en við höfum þó hvort annað á meðan.”
Ron roðnaði örlítið og leit niður,
“Hermione,” sagði hann vandræðalegur, “ég er ótrúlega þakklátur fyrir að þú sért vinkona mín. Þú ert alveg æðisleg.” Hermione roðnaði lítillega og leit á Ron,
“Veistu, þú ert nú ekki sem verstur sjálfur,” sagði hún og brosti feimnislega.
“Ég meina sko…” hélt Ron vandræðalega áfram, “sko… hérna… þú ert alveg frábær og… ” hann var orðinn svo rauður að Hermione hélt að eyrun á honum færu að lýsa fljótlega, “ég… hérna…” hann leit vandræðalega í kringum sig og varð svo litið á klukkuna, “ég… hérna… þarf að skreppa” bunaði hann allt í einu út úr sér og hljóp út úr turninum, rauðari en radísa.
Hermione sat eftir og hallaði sér vonsvikin aftur í stólnum.
“Einhvern tímann, Ron…” sagði hún, “einhvern tímann tekst það.”

Harry flýtti sér niður stigana og fyrr en varði var hann staddur á ganginum fyrir utan töfraseyðastofuna. Hann barði dyra og gekk svo inn. Stofan var tóm en dyrnar að skrifstofu Snapes voru lokaðar. Harry gekk inn í stofuna og barði að dyrum á skrifstofunni. Eftir stutta stund kom Snape til dyra óvenju rjóður í kynnum, hárið var aðeins farið að ýfast upp úr taglinu og skikkjan hans var öll krumpuð. Harry horfði hissa á útganginn á honum og spurði svo,
“Er ég að trufla? Ég þarf svolítið nauðsynlega að tala við þig.” bætti hann svo við. Í sama mund heyrði hann umgang á bak við Snape sem sneri sér vandræðalegur við og fyrr en varði birtist Anika Weasley, brosandi og rjóð í vöngum, fyrir aftan hann.
“Sæll Harry minn,” sagði hún brosandi og smellti svo kossi á vanga Snapes sem roðnaði enn meir. “Ég þarf hvort eð er að koma mér, þarf að sinna verkefnum fyrir morgundaginn,” sagði hún, kvaddi þá og gekk út úr stofunni. Snape stóð þarna eldrauður í framan og varð skyndilega mjög niðursokkinn við að slétta úr skykkjunni sinni. Harry brosti og átti bágt með að fara ekki að hlæja að vandræðaganginum í prófessornum sem venjulega var svo harður, kaldur og tilfinningalaus að sjá. Allt í einu mundi hann afhverju hann hafði komið.
“Prófessor,” sagði hann, “þú hefur væntanlega frétt hvað kom fyrir okkur Draco Malfoy í fyrradag?” Snape leit upp og varð eðlilegri að sjá,
“Já, ég hef eitthvað heyrt af því,” svaraði hann og virtist þakklátur fyrir að þurfa ekki að ræða hvað það var sem Harry hafði verið að trufla.
“Við Draco töluðum heilmikið saman þegar við vorum lokaðir inni hjá kentárunum,” byrjaði hann og sagði svo Snape frá öllu sem þeim hafði farið milli. Snape hlustaði með athygli á hvert orð en hann varð áhyggjufyllri á svipinn eftir því sem leið á söguna.
“Sagðir þú honum frá því hvað ég geri fyrir Dumbledore?” spurði hann þegar Harry hafði lokið frásögn sinni.
“Nei,” svaraði Harry, “mér fannst það ekki vera mitt að segja frá því.” Það létti yfir Snape sem kinkaði kolli til hans.
“Takk fyrir það,” sagði hann, “en hvernig getur þú verið svona viss um að hann sé að segja þér satt, að hann sé ekki að ljúga að þér til að fá upplýsingar um fönixregluna fyrir föður sinn?”
“Ég hugsaði um það,” svaraði Harry, “en sárin og örin á líkama hans voru raunveruleg og einhver hefur pínt hann svo árum skiptir. Hann er virkilega illa farinn og ef einhver hefði pínt mig svona þá væri ég ekki að fara gera honum neina greiða. Auk þess vorum við saman í sjúkraálmunni í tæpa tvo sólarhringa og það kom ekki einn einasti gestur til hans allan tíman. Það var stöðugur gestagangur hjá mér, en hann á enga vini sem spá í það hvar hann sé eða hvort hann þurfi hjálp. Hann á engan að sem hann getur treyst.”
Snape varð hugsi á svip,
“Ég gæti svo sem vel trúað því upp á Lucius Malfoy að koma svona fram við bæði eiginkonu sína og son sinn, hann er hinn mesti þrjótur,” sagði hann. Harry sá glampa í augum hans sem minnti hann á eitthvað sem hann hafði áður séð í augum hins unga Severusar sem grét við vatnið í faðmi Lilyar.
“Ég veit líka að það er áætlað að vígja Draco inn sem drápara á 17 ára afmælisdegi hans í janúar,” hélt hann áfram hugsi.
“Ég held að við ættum að biðja Draco Malfoy að hitta okkur hér snöggvast,” sagði Snape um leið og hann stóð á fætur og gekk fram á ganginn fyrir framan stofuna. Þar var ungur, bólugrafinn Slytherinnemi á leið niður tröppurnar, Harry giskaði á að hann væri líklega þriðja árs nemi.
“Pritchard!” kallaði Snape, “hlauptu inn í Slytherinstofu og segðu Draco Malfoy að ég vilji eiga við hann orð á skrifstofunni minni, strax.” Snape var strangur í málrómi og Pritchard greyið hljóp af stað eins og hann væri eltur af tíu brjáluðum úlfum.

Stuttu síðar gekk Draco Malfoy inn á skrifstofuna,
“Vildirðu tala við mig, prófessor?” spurði hann en rak svo upp stór augu þegar hann sá Harry sitja rólegan inni á skrifstofunni. “Hvað er í gangi?” spurði hann aftur óöruggur á svip.
“Fáðu þér sæti, Draco,” sagði Snape rólegur í bragði og galdraði fram stól við hliðina á Harry. Draco settist niður og Harry fann að hann var alls ekki rólegur.
“Harry sagði mér frá dvöl ykkar hjá kentárunum og frá því sem ykkur fór á milli þar,” byrjaði Snape. Augu Dracos stækkuðu til muna og hann leit á Harry bálreiður á svip.
“Sagðirðu honum frá? Af öllum mönnum, þurftirðu endilega að tala við einn af bestu vinum pabba míns? Hvað er að þér? Viltu láta drepa mig?” öskraði hann á Harry. Snape þaggaði niður í Draco og sagði rólega,
“Ekki tala alveg svona hátt, það gæti heyrst til þín.
Draco, ég er ekki vinur pabba þíns, þó að hann haldi það,” sagði hann og horfði á Draco með merkingarþrungnu augnaráði. “Fyrir mörgum árum síðan tók ég ákvörðun svipaða þeirri sem þú ert að taka núna. Ég vildi ekki vera þjónn hins myrka herra, ég vildi ekki valda sorgum, sárum og dauða hvar sem ég fór. En ég var þegar orðinn einn af drápurunum og það er ekki félagsskapur sem maður hættir í sí svona. Ég fór því til Dumbledores og bað hann um hjálp. Síðan þá hef ég verið tvöfaldur útsendari ef svo má að orði komast. Pabbi þinn heldur að ég starfi hér við skólann í þeim tilgangi að hafa auga með Dumbledore og fylgjast með því að upprennandi dráparar komist klakklaust í gegn um nám sitt. Það er ekki rétt. Ég hef í mörg ár verið trúr Dumbledore og fært honum allar þær upplýsingar um hinn myrka herra og drápara hans sem ég hef komist yfir.” Augu Dracos höfðu opnast svo á meðan Snape sagði frá, að Harry hélt að þau myndu detta úr höfði hans. Hann leit á Harry með spurnarsvip, svo aftur á Snape og enn einu sinni á Harry. Harry kinkaði kolli eins og til að staðfesta það sem Snape hafði verið að segja þeim.
“Ég hef nú nánast lagt líf mitt í þínar hendur,” hélt Snape áfram, “því ef þú segir föður þínum orð af því sem ég sagði þér er nokkuð víst að ævi mín er á enda.” Draco kinkaði ákaft kolli eins og til að sannfæra Snape um að honum væri treystandi.
“Ef þér var alvara með því sem þú sagðir Harry og þú vilt leggja út á þessa braut, þá er ég reiðubúinn að vera þér innan handar og hjálpa þér að undirbúa þig sem best.” Draco horfði þakklátur á kennarann sinn,
“Takk, það væri frábært. Ég er tilbúinn að feta í þín fótspor og ég skal leggja mig allan fram við undirbúninginn og..” hann hikaði stutta stund, “þú getur treyst mér,” sagði hann svo ákveðinn á svip. Snape brosti út í annað til hans,
“Ég held að við ættum að kíkja upp á skrifstofu til Dumbledores og eiga við hann orð.”
Að svo búnu gekk hann að arninum á skrifstofunni kastaði lúku af flugdufti í eldinn og sagði skýrum rómi “Albus Dumbledore!” Hann beygði sig niður í arininn og sagði eitthvað sem Harry heyrði ekki. Örfáum sekúndum síðar reis hann upp og vísaði drengjunum leið inn í arininn.
“segið bara skrifstofa skólastjórans.”

Stuttu seinna sátu þeir allir þrír á skrifstofu Dumbledores. Snape hafði orð fyrir þeim og sagði skólameistaranum frá því sem þeir höfðu verið að ræða. Þegar hann hafði lokið máli sínu leit Dumbledore yfir til Dracos, rétti honum höndina og sagði hlýlega,
“Velkominn í hópinn vinur minn.” Draco roðnaði og tók í hönd skólameistarans og muldraði eitthvað sem átti að þýða takk.
“Þá er ýmislegt sem við þurfum að gera til að undirbúa þig,” sagði Dumbledore, “það er ýmislegt sem þú þarft að vita um hópinn okkar og ennþá fleira sem þú þarft að vita um Voldemort, pabba þinn og félaga þeirra. Í fyrsta lagi þá er Voldemort snillingur í hugsanalestri og veit undir eins hverjum hann getur treyst og hverjum ekki.” Draco varð jafnvel enn hvítari en venjulega og skelfingin skein úr augum hans. “En,” hélt Dumbledore áfram, “við höfum okkar leiðir til að verjast því og þú þarft að leggja stund á hughrindingu. Mér skilst að Harry sé nú þegar að hefjast handa við að læra meira um hughrindingu hjá prófessor Snape,” hann leit á Snape sem kinkaði kolli, “hvernig lýst þér á að kenna þeim saman, Severus?” spurði hann.
“Það ætti ekki að vera vandamál,” svaraði Snape.
“Flott, þá þarf bara að finna afsökun fyrir því að þið þrír séuð að hittast reglulega, því það er alveg rétt hjá Draco að það má enginn nemandi skólans vita af þessu, ekki einu sinni Hermione og Ron.” bætti hann við og leit ákveðið á Harry sem kinnkaði kolli. “Líf Dracos veltur á því að sem fæstir viti þetta. Það verða nokkrir kennarar sem koma til með að vita þetta, þeir sem eru í Fönixreglunni að sjálfsögðu, en hvað dettur ykkur í hug að gæti verið góð afsökun?” spurði hann og leit á drengina.
“Við þurfum væntanlega að halda áfram að vera óvinir í augum annarra,” sagði Draco og yppti öxlum, “getum við ekki bara sett á svið nokkur rækileg slagsmál öðru hvoru fyrir framan kennara og fengið eftirsetu?” Dumbledore kímdi og Harry sá glampa í augum hans,
“Það væri ekki vitlaus hugmynd,” sagði hann, “Hm… látum okkur sjá, í dag er föstudagur,” hann horfði hugsi út í loftið, “eigum við að segja á mánudaginn í andyrinu á leiðinni inn eftir tíma í ummönnun galdraskepna? Þið eruð saman í því fagi er það ekki rétt hjá mér?” Strákarnir litu hvor á annan og kinkuðu svo kolli. “Flott er,” hélt Dumbledore áfram, “Severus, þú kemur þá að þeim og gefur þeim duglega eftirsetu. Passið ykkur bara að taka ekki of hart hver á öðrum,” sagði hann og glotti til strákanna. Þeir brostu til baka og litu svo hvor á annan. Þetta verður skrautlegur vetur, hugsaði Harry og brosti út í annað.