Ég ætla að reyna að sjá aðeins fyrir mér á hvaða máta hljóðfæraleikur hefur haft áhrif á mig sem persónu og leyfa ykkur að skoða það líka. Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei fyrr pælt í og þessvegna er þetta frekar eins og að ég sé að skrifa niður hugsanir mínar jafnóðum og þær koma inn í hausinn á mér frekar en að ég sé að skrifa niður eitthvað sem ég hef velt fyrir mér lengi.

Það er kannski best að byrja með því að segja aðeins frá “ferli” mínum sem hljóðfæraleikari.

Þegar ég var í fimmta bekk var ég loksins orðinn nógu gamall til að byrja í skólalúðrasveitinni. Auðvitað valdi ég básúnu því að bróðir minn hafði líka spilað á básúnu og margir krakkar eru undir miklum áhrifum frá eldri systkynum. Þessi ákvörðun, að ganga í lúðrasveitina þrátt fyrir að eiga á hættu að vera kallaður lúði eða eitthvað, var samt ein sú besta sem ég hef tekið um æfina. Það að vera í lúðrasveit þroskaði tóneyrað í mér upp á það stig að ég mun aldrei geta dottið úr æfingu.

Í sjöunda bekk (var þá búinn að spila á básúnu í 2 ár) þá kom ég einn daginn heim úr skólanum og á miðju stofugólfinu stóð þetta fína rokktrommusett. 24 tommu bassatromma ef ég man rétt, ein tom og ein floortom, ásamt hihat og einum disk. Þegar ég spurði hverju þessu sætti þá kom í ljós að vinafólk okkar var að flytja til danmerkur og settið komst ekki með fyrr en mánuði síðar og við fengum að geyma það á meðan. Ýmindið ykkur spenninginn hjá 11 ára stráksa að fá bara allt í einu heilt trommusett til að leika sér að í mánuð!

Daginn eftir var auðvitað stofnuð hljómsveit í frímínútum. Ég á trommur, og 2 félagar mínir á gítar og bassa (seinna bættist við hljómborðsleikari). Enginn okkar hafði áður spilað á þessi hljóðfæri, og fyrstu æfingarnar voru eftir því. En við spiluðum saman þangað til í tíunda bekk og vorum allir orðnir bara fjandi góðir þá.(Hægt er að hlusta á eitt lag frá í 9unda bekk á rokk.is undir hljómsveitarnafninu vipera)

Jæja, nú var liðinn mánuður og þá fór auðvitað settið, en þá var nú pabbi gamli almennilegur og fór bara og keypti eitt stykki trommusett sem ég á ennþá og hef alltaf notað. Þetta er jazztrommusett sem notað var á plötunni gling gló með björk. Ég gæti örugglega selt einhverjum klikkuðum japönskum safnara það á ebay fyrir svona 5 millur en mér þykir einfaldlega of vænt um það.

Árið eftir að ég byrjaði að spila á trommur sótti ég um í fíh og komst inn. Ég byrjaði á að taka 3 stig og er ennþá í fíh, og mæli með þeim skóla fyrir alla hljóðfæraleikara.

Í 8unda bekk fór ég að prófa að spila á rafmagnsgítarinn hans pabba (eigum rosalega mikið af hljóðfærum á mínu heimili). Ég byrjaði með því að spila með einföldu þungarokki eins og system of a down (þeir droppa).

Jæja þá er ég búinn að segja hvernig þetta byrjaði allt saman. Ég er að hefja annað ár í menntaskóla og hef þar af leiðandi spilað á básúnu í 7 ár, trommur í 5 ár, og dútlað mér við gítarinn í svona 3 og hálft.

Þegar ég lít til baka þá man ég eftir að ég var oft að stelast til að gera ýmsa bannaða hluti. Ég held að ég væri eiturlyfjafíkill í dag ef að ég hefði ekki haft trommurnar til að berja þegar mig vantaði útrás, básúnuna til að blása í þegar ég þurfti að lyfta upp líkama og sál, og gítarinn til að koma tilfinningum mínum frá mér. Flestir sem þekkja mig vel vita að líf mitt snýst aðallega um músík.

Foreldrar mínir hafa alltaf kynt undir hljóðfæraleik af minni hálfu og bróðir minn spilar á gítar sem einnig hefur áhrif á mig, þar sem við erum miklir vinir.

Ég get ekki ýmindað mér nokkurn skapaðann hlut í heiminum sem er betri en að eiga þátt í því að skapa músík, eða hlusta á hana, til þess að koma sálinni í jafnvægi.

Tónlist er kraftur. Tónlist er ótrúlega sterkur kraftur. Hún getur haft áhrif á alla þætti mannskepnunnar. Trú hennar, ástarlíf, tilfinningar og allt saman.

Ef ég hefði ekki alltaf leitast við að spila á hljóðfæri og kynna mér margskonar músík þá væri ég allt annar en ég er í dag. Ég ætla ekki að fara að segja að tónlist hafi einungis gert mér gott. Tónlist getur líka kynt undir “myrku” hliðar sálarinnar í þér. En ég nenni ekki að fara út í þá sálma. Reyndar nenni ég ekki að skrifa meira yfirleitt. Bless.
Vó hvar er ég?